Landgrunnsmál

Landgrunnsmál

Landgrunn-Islands

Samkvæmt 76. gr. hafréttarsamningsins eiga strandríki landgrunn allt að 200 sjómílum frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar er mæld frá. Þessu til viðbótar kunna strandríki að geta gert kröfu til landgrunns utan 200 sjómílna frá grunnlínunum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Mörg ríki, þ.á m. Ísland, eiga sökum náttúrulegra aðstæðna víðáttumeiri hafsbotnsréttindi samkvæmt ákvæðum samningsins. Viðkomandi ríki skulu senda sérstakri landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Limits of the Continental Shelf) ítarlega greinargerð um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt mat á hana og gerir tillögur um landgrunnsmörkin. Á grundvelli tillagna nefndarinnar getur strandríkið síðan ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.

Mikilvægt er að Íslendingar öðlist yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum enda má gera ráð fyrir að réttindi yfir landgrunninu muni fá aukna þýðingu í framtíðinni. Þau þrjú landgrunnssvæði, sem Ísland gerir tilkall til utan 200 sjómílna, þ.e. Ægisdjúp, Reykjaneshryggur og Hatton Rockall-svæðið, eru samtals rúmlega 1.400.000 km² að stærð eða um fjórtánfalt landsvæði Íslands.

Þær náttúruauðlindir sem tilheyra landgrunninu eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma, aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna, t.d. jarðhiti, og lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra. Réttindi strandríkisins yfir landgrunninu utan efnahagslögsögunnar hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan sem telst úthaf og ná ekki til fiskistofna né annarra auðlinda þess. 

Ísland skilaði í apríl 2009 greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og er hún enn til meðferðar hjá nefndinni. Um er að ræða hlutagreinargerð sem nær annars vegar til Ægisdjúps í suðurhluta Síldarsmugunnar fyrir norðaustan land en haustið 2006 náðist samkomulag milli Íslands, Noregs og Danmerkur f.h. Færeyja um skiptingu landgrunnsins þar. Hins vegar tekur greinargerðin til landgrunns á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar suðvestur af landinu sem Ísland gerir eitt ríkja tilkall til. Ytri mörk landgrunns á Reykjaneshrygg hafa verið endurskoðuð og útvíkkuð í ljósi aukins skilnings á ákvæðum hafréttarsamningsins um neðansjávarhæðir og -hryggi og þróunar í túlkun á þeim á undanförnum áratugum.

Greinargerðin nær ekki til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis í suðri, sem er hluti af íslenska landgrunninu en Bretland, Írland og Danmörk f.h. Færeyja gera einnig tilkall til, né austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði. Landgrunnsnefndin er ekki bær til að fjalla um umdeild svæði og engir tímafrestir gilda um greinargerðir um slík svæði.

Viðræður ríkjanna fjögurra um Hatton Rockall-svæðið fara fram með reglubundnum hætti en síðast áttu þær sér stað í Reykjavík í maí 2011. Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á að ríkin leggi sig fram við að ná samkomulagi um skiptingu landgrunnsins á milli þeirra og að þau skili í framhaldi af því sameiginlegri greinargerð til landgrunnsnefndarinnar um ytri mörk svæðisins.

GögnUppfært: 12/15     |     Athugsemdir sendist  hér