Hafréttarsamningur SÞ

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna (United Nations Convention on the Law of the Sea – UNCLOS) frá árinu 1982 er fyrsti og eini heildstæði alþjóðasamningurinn á sviði hafréttar og voru með honum ýmist staðfestar gildandi venjureglur eða settar nýjar reglur um öll not hafsins. Samningurinn tekur til allra hafsvæða auk loftrýmisins yfir þeim, hafsbotnsins og botnlaganna undir þeim. Hann hefur m.a. að geyma ákvæði um landhelgi, efnahagslögsögu, landgrunn, úthafið, alþjóðlega hafsbotnssvæðið, réttindi strandríkja og annarra ríkja til fiskveiða, annarrar auðlindanýtingar, siglinga og flugs, verndun gegn mengun hafsins og lausn deilumála. Samningurinn tók gildi 16. nóvember 1994 og í ársbyrjun 2016 voru aðildarríki hans orðin 167, en  Ísland varð árið 1985 fyrsta vestræna ríkið til þess að fullgilda hann. Aðildarríkjafundur hafréttarsamningsins er haldinn á hverju ári. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að í málefnum hafsins beri að vinna á grundvelli hafréttarsamningsins og samninga tengdum honum. Mikilvægt sé að þeir séu fullgiltir og ákvæðum þeirra framfylgt af ríkjum heims. 

GögnUppfært: 12/15     |     Athugsemdir sendist  hér