Jan Mayen og Drekasvæðið

Framkvæmd Jan Mayen-samningsins og olíuleit á Drekasvæðinu

Með samkomulagi milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál frá 28. maí 1980 var 200 sjómílna efnahagslögsaga Íslands viðurkennd, en fjarlægðin milli Íslands og Jan Mayen er 292 sjómílur. Með samkomulagi landanna um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen frá 22. október 1981 var kveðið á um að mörk landgrunnsins á svæðinu skyldu vera hin sömu og mörk efnahagslögsögu þeirra. Jafnframt var afmarkað eins konar sameiginlegt nýtingarsvæði og á Ísland rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á norska hluta svæðisins og Noregur rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á íslenska hluta svæðisins.

Vegna fyrirhugaðs útboðs sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu við Jan Mayen-hrygg innan íslensku lögsögunnar, sem skarast við sameiginlega nýtingarsvæðið, fóru fram viðræður við norsk stjórnvöld um túlkun og útfærslu Jan Mayen-samningsins frá 1981. Í nóvember 2008 var gerður samningur milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur og var hann staðfestur af Íslands hálfu 2011. Um er að ræða rammasamning um einingarnýtingu kolvetnisauðlinda sem er að finna beggja vegna markalína landgrunns Íslands og Noregs. Þar er að finna meginreglur um einingarnýtingu en með því hugtaki er átt við að viðkomandi auðlind er nýtt sem ein eining samkvæmt samkomulagi aðila. Samkvæmt samningnum skal í þeim tilvikum þegar olíu- eða gasauðlind nær yfir á landgrunn beggja landanna gera sérstakan samning um skiptingu auðlindarinnar milli landanna og um nýtingu hennar sem einingar.

Meginreglurnar um einingarnýtingu eru almennt sambærilegar ákvæðum annarra milliríkjasamninga á þessu sviði en taka sérstakt tillit til hins sameiginlega nýtingarsvæðis, þ.á m. réttinda sem Ísland nýtur þar umfram Noreg samkvæmt Jan Mayen-samningnum. Reglurnar gilda ekki aðeins um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Jan Mayen, heldur um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Noregs í heild.

Samhliða undirritun samningsins var undirrituð samþykkt fundargerð (e. Agreed Minutes) þar sem nánar er kveðið á um 25% þátttökurétt Íslands og Noregs í olíustarfsemi á hluta hvors annars af landgrunninu á hinu sameiginlega nýtingarsvæði milli Íslands og Jan Mayen samkvæmt Jan Mayen-samningnum frá 1981.

Hvort tveggja samningurinn og sameiginlega fundargerðin eru forsenda þess að unnt sé að veita leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu á kolvetnisauðlindum á Drekasvæðinu, en það svæði nær m.a. til íslenska hluta hins sameiginlega nýtingarsvæðis milli Íslands og Jan Mayen. 

TenglarUppfært: 12/15     |     Athugsemdir sendist  hér