Áherslur Íslands í SÞ

Áherslur Íslands á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna

Allsherjarþingið hefur á undanförnum árum lagt sífellt meiri áherslu á umfjöllun um málefni hafsins og hafréttarmál. Helgast það m.a. af aukinni umhverfisvitund og vaxandi skilningi á margþættu mikilvægi hafsins. Til marks um þessa áherslu var stofnun óformlegs samráðsvettvangs SÞ um málefni hafsins og hafréttarmál (UNICPOLOS) árið 1999 en árlegum fundum vettvangsins er ætlað að undirbúa umfjöllun allsherjarþingsins sjálfs um þessi mál. Ísland hefur tekið virkan þátt í störfum UNICPOLOS svo og í árlegum samningaviðræðum um almenna hafréttarályktun og fiskveiðiályktun allsherjarþingsins á haustin.

Meðal helstu áherslumála Íslands á vettvangi allsherjarþingsins eru réttur strandríkja til sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins, áhersla á að fiskveiðistjórnun sé ýmist staðbundin eða svæðisbundin en ekki hnattræn, og að ríkjum beri að hrinda ákvæðum fyrirliggjandi alþjóðasamninga á þessu sviði í framkvæmd áður en þau beita sér fyrir gerð nýrra samninga.
Uppfært: 12/15     |     Athugsemdir sendist  hér