Norrænt utanríkissamstarf

Norrænt samstarf í utanríkismálum

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda mjög reglulega og sambandi og samskiptum Norðurlandanna er jafnframt haldið við á öllum póstum utanríkisþjónustunnar, heima og heiman, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem og annarra alþjóðastofnana. Á síðustu árum hafa Norðurlöndin unnið að því að efla enn frekar samstarf sitt á sviði utanríkis- og öryggismála með hliðsjón af tillögum Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi varnarmála- og utanríkisráðherra Noregs, sem fram koma í skýrslu hans til ráðherranna árið 2009. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna staðfestu á fundi sínum í Helsinki í apríl 2011 formlega norræna samstöðuyfirlýsingu í anda tillagna Stoltenbergs.

Jafnframt eiga Norðurlöndin í miklu samstarfi við Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen með NB8-samráðinu svonefnda og enn einn vettvangurinn hefur orðið til í tengslum við málefni norðurslóða.