Nordic-Baltic 8

Nordic-Baltic 8 samstarf

Norðurlöndin eiga í sameiginlegu samstarfi við Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen. NB8-samstarfið, sem svo er kallað, stendur á traustum grunni og er mikilvægur vettvangur við hlið Norðurlandasamstarfsins. Utanríkisráðherrar ríkjanna átta funda m.a. árlega og löndin skiptast á um að vera í formennsku fyrir þetta samstarf. Á árinu 2014 er Eistland í formennsku NB8-samstarfsins og tók við því hlutverki af Svíþjóð.

Samstarf NB8-ríkjanna hefur eflst verulega á þeim tuttugu árum sem liðin eru síðan Eistland, Lettland og Litháen endurheimtu sjálfstæði sitt. Líkt og í utanríkismálasamstarfi Norðurlanda hefur verið lögð áhersla á gagnsemi óformlegra og sveigjanlegra vinnubragða í samstarfinu við Eystrasaltsríkin. Samstarf NB8-ríkjanna nær til margra sviða og stofnana stjórnsýslu landanna. Sem dæmi má nefna að á árinu 2012 fór fram samstarf á fjölda ólíkra sviða, s.s. um orkumál, fjármál og viðskipti, netöryggi, almannavarnir, kjarnorkuöryggi, jafnrétti kynja og lýðræðisþróun.

Undanfarin ár hefur verið unnið að enn nánara samstarfi á grundvelli tillagna sem Valdis Birkavs, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Lettlands, og Søren Gade, fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, lögðu fram árið 2010. Tillögurnar ná til ýmissa þátta sem fjallað er um í tillögum Thorvalds Stoltenbergs að nánara samstarfi Norðurlandanna, sem rætt er um hér. Þannig var á Helsinki-fundi utanríkisráðherra NB8-ríkjanna árið 2011 undirritað rammasamkomulag um að sendifulltrúar frá NB8-ríkjum geti fengið aðstöðu í sendiskrifstofu annarra NB8-ríkja þegar viðkomandi ríki hefur ekki sendiskrifstofu á staðnum. Fá þeir jafnframt aðgang að sérfræðiþekkingu viðkomandi sendiskrifstofu og tengslaneti.

Í Birkavs/Gade-tillögunum svokölluðu er lögð áhersla á samstöðu ríkjanna á alþjóðavettvangi, innan ESB, NATO og hjá Sameinuðu þjóðunum og að ríkin tali einni röddu þar sem því er við komið.