FAO

Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO)

Ísland er eitt stofnríkja Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (Food and Agriculture Organization of the United Nations, FAO) sem var sett á fót árið 1945. Aðildarríki FAO eru 191 en 49 þjóðir eiga sæti í FAO-ráðinu. Auk þess á framkvæmdastjórn ESB aðild að stofnuninni og Færeyjar aukaaðild. Evrópuþjóðum er úthlutað 10 sætum í ráðinu, og hafa Norðurlöndin skipt með sér að sitja í einu þeirra sæta, þrjú ár í senn. Norðurlöndin eiga með sér náið samstarf innan FAO og hafa þar í frammi sameiginlegan málflutning. Starfað hefur Íslandsnefnd FAO (Icelandic National FAO Committee), sem skipuð er af utanríkisráðherra. Ísland hefur átt fastafulltrúa hjá stofuninni frá 1998.

Á vettvangi FAO sinna íslensk stjórnvöld málum, sem varða hagsmuni Íslands í sjávarútvegi, landbúnaði og þróunarsamvinnu. Sjávarútvegsmál hafa á síðustu árum orðið umfangsmeiri og mikilvægari málaflokkur hjá FAO. Stofnunin er eini alheimsvettvangurinn fyrir sjávarútvegsmál og gegnir því afar miklu hlutverki fyrir allar fiskveiðiþjóðir. Telja íslensk stjórnvöld mikilvægt að alþjóðleg sátt náist sem fyrst um fiskveiðar og fiskveiðistjórnun í samræmi við viðmiðunarreglur FAO um ábyrgar fiskveiðar (FAO Code of Conduct for Responsible Fisheries).  Íslensk stjórnvöld hafa í því skyni tekið virkan þátt í fundum fiskimálanefndar FAO (Committee on Fisheries, COFI) og undirnefndar hennar um viðskipti með fisk (Sub-committee on Trade).

Mikilvæg sjávarútvegsmálefni til umræðu á vettvangi FAO má nefna stefnu einstakra þjóða í málefnum hafsins (Marine Strategies), umræður um fiskveiðar í sjálfbæru samhengi (Ecosystem Approach), baráttuna gegn ólöglegum fiskveiðum og hentifánaveiðum (FAO Compliance Agreement), sérstakt átak til að bæta öflun upplýsinga um fiskveiðar og ástand fiskistofna í heiminum og umræðuna um lokuð svæði og greiningu á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi.

Í mars 2005 voru á fundi fiskimálanefndar FAO samþykktar leiðbeinandi reglur um umhverfismerkingar sjávarafurða. Reglurnar setja umhverfismerkingunum ramma, þar sem m. a. er kveðið á um efnislegar viðmiðanir og lágmarkskröfur, stofnanalegt skipulag og framkvæmd slíkra merkinga.

Á 36. aðalfundi FAO í nóvember 2009 undirritaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýjan alþjóðasamning um aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum, Agreement on Port State Measures to Prevent, Deter and Eliminate Illegal, Unreported and Unregulated Fishing. Samningurinn felur í sér, að aðildarríki samningsins verða skuldbundin til að loka höfnum sínum fyrir erlendum skipum, sem hafa orðið uppvís að ólöglegum fiskveiðum.

Ísland hefur átt samstarf við FAO og og Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og stóð m.a. fyrir námskeiðum í þróunarlönum um fiskveiðistjórnun og sjálfbærar veiðar.

Fastanefnd Íslands í Róm gagnvart stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar í borg starfaði frá 1. ágúst 2005 og til 1. apríl 2009 er skrifstofunni var lokað í sparnaðarskyni. Fyrirsvar gagnvart stofnunum SÞ í Róm fluttist þá til utanríkisráðuneytisins í Reykjavík.