Stofnanaumhverfi

Stofnanaumhverfi

Stofnanaumhverfi sjálfbærrar þróunar, mynd fengin af vef ráðstefnunnar, Ríó+20: http://www.uncsd2012.org/rio20/isfd.htmlMeðal þess sem er á dagskrá Ríó+20 er endurskoðun á stofnanaumhverfi sjálfbærrar þróunar. Stefnt er að því að gera stofnanir S.þ. skilvirkari þannig að allar vinni að sama markmiði að því er varðar sjálfbæra þróun. Í gegnum tíðina hefur verið bent á að styrkja þurfi þær stofnanir sem fyrir eru til þess að hrinda markmiðum sjálfbærrar þróunar í framkvæmd. Ennfremur hefur verið bent á að skortur sé á samþættingu og stefnumörkun innan kerfis S.þ. varðandi sjálfbæra þróun.

Tillögur að bættu stofnanaumhverfi miða að því að samræma betur hinar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar, þ.e. hina efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu stoð. Þær tillögur sem nú eru til umræðu í aðdraganda Ríó+20 snúa í fyrsta lagi að því að auka samræmingu á milli þeirra stofnana sem í hlut eiga. Í því samhengi er lögð mikil áhersla á að fjármagn sem veitt er til málaflokksins sé notað á skilvirkari hátt. Í annan stað lúta þær að nefnd um sjálfbæra þróun (e. Commission for Sustainable Development), sem stofnuð var eftir fyrstu Ríó ráðstefnuna. Hún þykir ekki hafa staðið undir væntingum og því þurfi annað hvort að efla nefndina og breyta hlutverki hennar eða leggja hana niður með það fyrir augum að stofna sérstakt ráð um sjálfbæra þróun (e. Sustainable Development Council) sem heyra muni beint undir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Í þriðja lagi hafa sum ríki lagt áherslu á að UNEP (e. United Nations Environment Programme) verði í breytt úr því að vera áætlun yfir í sérstaka umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Frekari upplýsingar:

Upplýsingar af heimasíðu ráðstefnunnar um stofnanaumhverfi sjálfbærrar þróunar

Myndin er sótt af heimasíðu ráðstefnunnar