Sjálfbær þróun

Sjálfbær þróun

Sjálfbær þróun er hugtak sem flestir hafa heyrt um og notað, hugtakið sjálfbær þróun varð að alþjóðlegu viðfangsefni árið 1987 þegar nefnd Sameinuðu þjóðanna undir forystu Gro Harlem Brundtland skilaði skýrslunni Our Common Future. Þar var sjálfbær þróun skilgreind sem sú þróun sem fullnægi þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Í skýrslunni er bent á þá staðreynd að íbúar heimsins eru hver öðrum tengdir og afkoma þeirra og afkomenda þeirra samtengd. Árið 2012 á þessi staðreynd jafn vel við og árið 1987, fólksfjölgun hefur átt sér stað og ágangur á gæði jarðarinnar hefur aukist. Það er því mikilvægt að auka veg sjálfbærrar þróunar með það að markmiði að útrýma fátækt, vernda umhverfi, skapa hreinni orkugjafa og skapa aðstæður þar sem aðgengi að vatni, næringu og nútíma orku nær til allra jarðarbúa.

Born-ad-plantaHugmyndin um sjálfbæra þróun byggir á þremur stoðum: samfélagi, umhverfi og efnahag. Hlutverki þessara stoða er e.t.v. best lýst þannig að sjálfbærni næst aðeins ef jafnvægi er á milli þeirra. Þannig geta hlutir verið sanngjarnir ef þeir eru til hagsbóta á félagslega og efnahagslega sviðinu, þolanlegir ef þeir bæta umhverfi og samfélag og hagkvæmir ef þeir eru til hagsbóta fyrir umhverfi og efnahag. Þróun getur hins vegar aðeins verið sjálfbær ef hún er til framdráttar á öllum þessum þremur sviðum, markmiðið er að ná árangri á öllum þremur sviðunum og með því bæta stöðu samtímans án þess að minnka möguleika framtíðarinnar.

Máltæki frá Kenýja lýsir þessari hugsun mjög vel: „Þú hefur ekki fengið landið til eignar frá foreldrum þínum; þú hefur það að láni frá börnum þínum.“

Hér má nálgast frekari upplýsingar um sjálfbæra þróun:

Upplýsingar um sjálfbærni á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna vegna Rio+20

Svar vísindavefsins við spurningunni, hvað er sjálfbær þróun?

Myndin er fengin af heimasíðu ráðstefnunnar