Áherslur Íslands

Áherslur Íslands

Áherslumál Íslands fyrir Rio+20 ráðstefnuna byggja á áherslum Íslands í þróunarmálum og alþjóðlegri samvinnu. Þar hefur stuðningur Íslands beinst að jafnrétti kynjanna, konum og börnum, menntun og heilsufari, auk þess sem áhersla hefur verið á þau svið þar sem Íslendingar hafa sannarlega náð góðum árangri: á sviði fiskimála, endurnýjanlegrar orku og landgræðslu. Þessum meginsjónarmiðum Íslands hafa verið gerð nokkuð góð skil í þeim drögum að niðurstöðu sem borist hafa frá Sameinuðu þjóðunum. Fram hefur farið málefnavinna, bæði innan utanríkisráðuneytisins sem og í samráði við önnur ráðuneyti, með það að markmiði að hagsmunum og áherslum Íslands verði komið á framfæri með sem bestum hætti í samningaferlinu að niðurstöðuskjali Ríó+20.

Þau málefni sem Ísland hefur frá upphafi undirbúningsins lagt áherslu á eru í samræmi við þróunarsamvinnuáætlun Íslands: Jafnrétti kynjanna, málefni hafsins, endurnýjanleg orka og sjálfbær landnýting. Þessi atriði er öll að finna í þeim drögum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt fram í undirbúningi Ríó+20 og vinnur Ísland nú að því ásamt öðrum aðildarríkjum að bæta þau drög, ekki síst með tilliti til áhersluatriða sinna fjögurra.

Hér má nálgast ferkari upplýsingar um þátt Íslands frá heimasíðu ráðstefnunnar

Jafnrétti

Í þeirri vinnu sem fram hefur farið hefur starfsfólk utanríkisráðuneytisins, auk annarra ráðuneyta, lagt af mörkum í átt til kynjasamþættingar þeirra skjala sem til umfjöllunar eru. Mikil vinna hefur farið í verkefnið og mikilvægt er að byggt verði á þessum grunni þegar til Ríó verður komið og jafnrétti kynjanna verði tryggt á öllum þeim sviðum sem unnið verður á. Litið er á jafnrétti sem þverlægt markmið, sem dæmi er það ekki meðal sjö yfirlýstra megin umfjöllunarefna Ríó+20, og því er enn mikilvægara að því sé haldið á lofti og tekið tillit til jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum sjálfbærrar þróunar. Frá árinu 2009 hefur verið starfræktur Jafnréttisskóli á Íslandi og er markmið hans að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna í gegnum menntun og þjálfun.

Myndband frá Matvæla- og landbúnaðarstofunum S.þ. um jafnrétti í landbúnaði

Hér má nálgast frekari upplýsingar, myndir og myndbönd um jafnrétti og sjálfbæra þróun:

Heimasíða UN Women

Heimildarmynd frá Sameinuðu þjóðunum um áhrif loftslagsbreytinga á konur og vatn í Kólumbíu

"International Women's Day 2012" - myndir frá alþjóðlegum baráttudegi kvenna 2012

Orkumál

Eitt af stærstu verkefnum komandi ára er að tryggja hraða þróun endurnýjanlegrar orku. Árið 2012 hefur verið útnefnt „Ár sjálfbærrar orku fyrir alla“ og því má vera ljóst að mikil áhersla verður lögð á þessi mál í Ríó. Verkefnið sem heimurinn stendur frammi fyrir er í raun tvíþætt, annars vegar að stuðla að því að þær þjóðir sem nú nýta mikla orku, nýti hana eftir endurnýjanlegum, skilvirkum og hreinum leiðum. Hins vegar er mikilvægt að þeim íbúum heimsins sem búa við orkufátækt og notast við óhreina eldunaraðstöðu verði gert kleyft að fá aðgengi að nútíma orkugjöfum eins fljótt og auðið er. Íslendingar þekkja vel hve miklu máli það skiptir að nýta þá orku sem til í er í landinu, sem hefur skilað sér bæði í auknum lífsgæðum og aukinni samkeppnishæfni landsins. Jarðhitaháskóli Sameinuðu þjóðanna hefur verið starfandi hér á landi frá 1979 og er markmiðið að deila reynslu og þekkingu Íslendinga af jarðhitanotkun.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um orkumál og sjálfbæra þróun:

Upplýsingar af vef Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og orkumál

Umfjöllun um hreinar eldavélar í Kenýa

Vefur tileinkaður „Ári sjálfbærrar orku fyrir alla“

Umfjöllun um jarðvarma í Kenýa

Hafið

Við Íslendingar vitum vel hve mikilvæg auðlind hafið er, bæði sem ein af undirstöðum atvinnulífsins og uppspretta næringar landsmanna. Því vitum við einnig hve mikilvægt það er að ganga vel um þessa auðlind og nýta hana á sjálfbæran hátt svo hún gagnist bæði í samtíð og framtíð. Á Íslandi er starfræktur Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna þar sem reynt er að miðla hagnýtri þekkingu og reynslu íslenskra sérfræðinga til áhugasamra þátttakenda.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um áherslur Sameinuðu þjóðanna í tengslum við hafið

Hér má sjá myndir og fá frekari upplýsingar af vef Sameinuðu þjóðanna

UN myndband um fiskveiðar í Túnis með Ban-Ki Moon í aðalhlutverki.

Sjálfbær landnýting

Landeyðing og eyðimerkurmyndun er gríðarlegt vandamál sem hefur áhrif á fjölmarga þætti s.s. loftslag, líffræðilega fjölbreyttni, landgæði og matvæla- og vatnsöryggi, en allt þetta hefur síðan áhrif á afkomu íbúa heimsins og öryggismál. Á Íslandi er starfræktur Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna og er markmið skólans að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum sem glíma við jarðvegseyðingu, eyðimerkurmyndun og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, í landgræðslu og sjálfbærri nýtingu lands.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um sjálfbæra landnýtingu:

Vefur Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og matvæli

Umfjöllun um bætta landnýtingu bænda í Mato Grosso fylki í Brasilíu