Ríó+20

Leiðin til Ríó


Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fór fram dagana 20. - 22. júní 2012 í Ríó de Janeiro í Brasilíu. Þar komu ráðherrar og þjóðarleiðtogar saman til þess að fylgja á eftir því starfi sem unnið var fyrir 20 árum í sömu borg og marka veginn til framtíðar en yfir 40 þúsund manns sóttu ráðstefnuna. Tvö málefni voru í brennidepli, annars vegar grænt hagkerfi sem leið að sjálfbærri þróun og útrýmingu fátæktar og hins vegar skipulag og umgjörð um starf Sameinuðu þjóðanna að sjálfbærri þróun.
Hugtakið grænt hagkerfi byggist á að hraða sjálfbærri þróun og uppræta fátækt á sama tíma og ákvörðunum hins opinbera og einkageirans er beint í farveg sem virðir náttúrulegar auðlindir. Meðal mikilvægustu niðurstöðu ráðstefnunnar er að lokaskjal hennar felur  í sér að samþykkt var að hefja vinnu við sjálfbærnimarkmið auk þess sem í því er að finna ákall um að grípa til margvíslegra aðgerða s.s. að því er varðar mælikvarða sem notaðir eru við að mæla hagsæld þjóða og hvort hægt sé að nota annað en landsframleiðslu. Einnig að skilgreina hvernig grænt hagkerfi nýtist við að ná markmiðum um sjálfbæra þróun.

Vonast er til að Ríó+20 ráðstefnan muni marka veginn til sjálfbærrar framtíðar. Ísland lagði áherslu á fjögur atriði: jafnrétti kynjanna, málefni hafsins, endurnýjanlega orku og sjálfbæra landnýtingu og er þeim öllum gerð skil í lokakjalinu.


Í aðdraganda ráðstefnunnar var talið að víðtæk þátttaka í undirbúningi, ákvarðanatöku og innleiðingu niðurstöðu ráðstefnunnar væri forsenda framfara á sviði sjálfbærrar þróunar. Skipuleggjendur Ríó+20 reyndu því að tryggja góða upplýsingagjöf og aðkomu hagsmunaaðila og almennings að undirbúnings- og umræðuferlinu frá upphafi. Fjölmargar stofnanir og frjáls félagasamtök lögðu þannig fram tillögur sem höfðu áhrif á frumdrög að niðurstöðuskjali ráðstefnunnar.

Lokaskjal það sem samþykkt var á ráðstefnunni má finna hér (á ensku)

Hér má nálgast frekari upplýsingar um ráðstefnuna:

Vefur Sameinuðu þjóðanna um ráðstefnuna Ríó+20

Vefur ráðstefnunnar í Ríó

Upplýsingar um þátttöku Íslands í ráðstefnunni