Norðurslóðir

Norðurslóðir

Utanríkisstefna Íslands hlýtur óhjákvæmilega að taka mið af hnattrænni stöðu landsins og hagsmunum sem norðurslóðaríkis. Lega Íslands við anddyri norðurskautssvæðisins í Norður-Atlantshafi langt frá meginlandi Evrópu hefur mótað lífskjör Íslendinga og samskipti við aðrar þjóðir frá upphafi. Stór hluti Íslands er enn undir leifum ísaldarjökuls og hafís sækir iðulega að landinu í norðri. Málefni norðurslóða hafa þannig beinni og augljósari þýðingu fyrir Ísland en önnur ríki.

Aukið aðgengi að auðlindum norðursins í kjölfar loftslagsbreytinga og tækniþróunar hefur einnig beint athyglinni að mikilvægi norðurslóða í alþjóðasamskiptum. Íslendingar eiga þar mikilla hagsmuna að gæta enda er Ísland eina þjóðríkið sem liggur í heild sinni á norðurslóðum. Utanríkisráðuneytið vinnur að mótun heildstæðrar stefnu í málefnum norðurslóða sem taka mið af hagsmunum Íslendinga í víðu samhengi með tilliti til legu landsins, öryggisþátta og tækifæra í tengslum við aukna sókn í auðlindir norðursins og loftslagsbreytingar.

Komið hefur í ljós að áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum og bráðnun íshellunar á Norður-Íshafi eru örari en búist var við. Í skýrslu Norðurskautsráðsins um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum frá formennskutíð Íslands í ráðinu 2002 til 2004 var leitt líkum að því að ísinn á Norður-Íshafi kynni að hverfa að mestu yfir sumarmánuðina við lok þessarar aldar. Vísbendingar eru hins vegar um að þetta kunni að vera að gerast núna, hálfri öld fyrr en almennt var búist við.

Íslaust Norður-Íshaf að sumri til mun hafa gífurleg áhrif á allt veðurkerfi norðurhvels jarðar, ekki síst á Íslandi og Grænlandi. Þetta mun þó ekki þýða endalok hafíss við landið en ís mun áfram leggjast á Norður-Íshafið yfir vetrarmánuðina og stórir borgarísjakar munu halda áfram að brotna frá Grænlandsjökli. Siglingar norðvestur af Íslandi verða því áfram varasamar um fyrirsjáanlega framtíð.

Minkunn íss á Norður-Íshafi auðveldar nýtingu náttúruauðlinda. Norðurskautssvæðið er auðugasta uppspretta vannýttra náttúruauðlinda jarðar. Þar eru miklar olíu- og gaslindir skipta sköpum fyrir orkubúskap mannkyns í framtíðinni. Undirbúningur er þegar hafinn að stórfelldri olíu- og gasvinnslu við jaðar Norður-Íshafsins í Barentshafi og má búast við því að vinnslusvæðin færist inn á Norður-Íshafið sjálft í framhaldi af því.

Ísland leggur áherslu á mikilvægi þess að sókn í auðlindir norðurslóða og aukin umferð um svæðið valdi ekki spennu í samskiptum Norðurskautsríkjanna, heldur verði náið samráð í milli þeirra allra um öryggi svæðisins. Nauðsynlegt er að tryggja að hernaðarleg umsvif á norðurslóðum skipti ekki Norðurskautsríkjunum í gamlar eða nýjar fylkingar. Nýting tækifæra á norðurslóðum krefst virkrar milliríkjasamvinnu á grundvelli þjóðaréttar.