Loftslagsbreytingar

Loftslagsbreytingar

Loftslagsmálefni

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) gaf árið 2007 út fjórðu yfirlitsskýrslu sína um áhrif loftslagsbreytinga (pdf). Það er mat hennar að verði ekkert að gert muni hlýnun jarðar á þessari öld að líkindum verða á bilinu 1,8-4°C. Afleiðingar loftslagsbreytinga verði mjög alvarlegar og óafturkræfar hækki meðalhiti um meira en 2°C frá því sem hann var fyrir iðnvæðingu. Nefndin telur að losun iðnríkjanna í heild verði að minnka um 25-40% fyrir árið 2020. Loftslagsbreytingar má meðal annars rekja til losunar gróðurhúsaloftegunda út í andrúmsloftið, aðallega koltvísýrings, vegna brennslu jarðefnaeldsneytis á borð við kol, gas og olíu.

Það skiptir verulegu máli fyrir Ísland, hvort sem litið er til efnahags- eða umhverfismála, hvernig tekið verður í viðræðum á alþjóðavettvangi á þeim vanda sem loftslagsbreytingar skapa. Þó bein áhrif loftslagsbreytinga muni líklega ekki valda til skemmri tíma séð miklum skaða í íslensku efnahagslífi og náttúrufari, gera stjórnvöld sér grein fyrir að áhrif þeirra gætu orðið alvarleg þegar til lengri tíma er litið. Í yfirlitsskýrslu IPCC er því spáð að vegna hlýnunar muni sjávaraborð hækka, að Norður-Íshaf verði nánast íslaust á sumrin fyrir lok þessarar aldar og að golfstraumurinn muni veikjast. Áhrif þessara breytinga á helstu auðlindir í lífríki hafsins eru óviss. Jafnframt er það ljóst að sú röskun sem mun verða á lífsskilyrðum fólks víðsvegar um heim mun ýta undir efnahagslegan og stjórnmálalegan óstöðugleika sem mun hafa neikvæð áhrif á lítil og opin hagkerfi eins og Ísland. Því deilir Ísland, með öðrum ríkjum heims, hagsmunum af því að dregið verði úr umtalsverðum loftslagsbreytingum.

Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna (pdf) (United Nations Framework Convention on Climate Change, UNFCCC) var samþykktur árið 1992 og tók hann gildi tveimur árum síðar. Markmið samningsins, eins og því er lýst í 2. gr. hans, er „að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum, og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um að auðvelda félagslega og efnahagslega aðlögun að loftslagsbreytingum.“

Loftslagssamningurinn er rammasamningur um viðbrögð við loftslagsbreytingum. Hann er stefnumarkandi en hefur ekki að geyma lagalega bindandi skuldbindingar um markmið eða einstakar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eftir gildistöku samningsins varð því fljótlega ljóst að nauðsynlegt myndi verða að gera viðbótarsamning við hann með skuldbindandi ákvæðum fyrir ríki. Sá samningur er Kýótó-bókunin sem samþykkt var 1997 og gekk í gildi árið 2005. Mikilvægi bókunarinnar felst í því að ákvæði hennar eru lagalega bindandi um mörk fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda að því er varðar iðnríkin (ríki á lista í viðauka I við loftslagssamninginn, þ.e. aðildarríki Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD), ríki Austur-Evrópu og nokkur ríki sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum). Ísland er eitt þessara ríkja.

Bæði loftslagssamningurinn og Kýótó-bókunin (pdf) njóta víðtæks stuðnings meðal aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Það birtist í því að 192 ríki, nánast öll aðildarríki SÞ hafa fullgilt loftslagssamninginn og aðildarríki Kýótó-bókunarinnar eru 183 auk þess sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er einnig aðili að henni. Ísland er aðili að báðum samningunum. Tvö ríki hafa skrifað undir Kýótó-bókunina án þess að fullgilda hana, Bandaríkin og Kasakstan.

Markmið Kýótó-bókunarinnar er að takmarka og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Til þess er beitt ýmsum aðferðum. Auk aðgerða sem aðildarríki grípa til heima fyrir, geta þau átt viðskipti með losunarheimildir, fengið losunarheimildir í skiptum fyrir fjárfestingar í loftslagsvænum framkvæmdum í þróunarríkjunum og bundið kolefni með landgræðslu og skógrækt. Nánari upplýsingar um markmið Kýótó-bókunarinnar er að finna hér.

Meginákvæði Kýótó-bókunarinnar er að finna í 3. gr. hennar. Þar kemur fram að fyrsta skuldbindingartímabil hennar sé 2008-2012. Þar er iðnríkjunum gert að takmarka útstreymi ákveðinna gróðurhúsalofttegunda, þannig að samanlagt árlegt útstreymi þeirra á fyrsta skuldbindingartímabilinu 2008–2012 verði að meðaltali 5% minna en viðmiðunarárið 1990.

Þá er kveðið á um það í sama ákvæði að endurskoðun á skuldbindingum skuli hefjast a.m.k. 7 árum fyrir lok framangreinds tímabils. Þessi endurskoðun er nú hafin og hafa aðildarríki loftslagssamningsins og Kýótó-bókunarinnar undanfarin ár rætt um framtíðina, hvað taki við eftir að fyrsta skuldbindingatímabili bókunarinnar lýkur í lok árs 2012.

Á fundi aðildarríkja í Balí árið 2007 var samþykkt sk. Balí-aðgerðaráætlun (pdf). Hún gengur út á að vinna að gerð nýs alþjóðasamkomulags um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Stefnt var að því að ljúka viðræðunum á 15. aðildarríkjaþingi samningsins sem haldið var í Kaupmannahöfn í desember 2009, en náði það ekki fram að ganga. Á 16. aðildarríkjaþingi samningsins, sem haldið var í Cancún í Mexíkó, í lok árs 2010, náðist samkomulag (pdf) um efldar aðgerðir og fjármögnun í loftslagsmálum. Samkomulagið er ekki lagalega bindandi og eru mörg stór mál enn óútkljáð. Stefnt er að því að ná samningi um nýtt bindandi alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum á 17. aðildarríkjaþingi samningsins sem fram fer í Durban í S-Afríku í lok ársins 2011 og er Cancún samkomulagið mikilvægur áfangi á þeirri leið.

Cancún samkomulagið hefur í för með sér að framlög til þróunarríkja til að hjálpa þeim að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda verða stóraukin. Veita á 30 milljörðum Bandaríkjadala til verkefna af þessu tagi á tímabilinu 2010-2012 og er stefnt að því að árið 2020 nái framlög þróaðra ríkja 100 milljörðum Bandaríkjadala árlega. Stofnaður verður nýr sjóður, Græni loftslagssjóðurinn, sem verður meginfarvegur þessarar auknu fjármögnunar loftslagsverkefna. Þá tekur samkomulagið m.a. einnig á því að efla þróun og dreifingu á loftslagsvænni tækni. Einnig fagna íslensk stjórnvöld því að í samkomulaginu eru nokkrar tilvísanir um mikilvægi þess að konur taki þátt í allri ákvarðanatöku um loftslagsmál og að kynjasjónarmið séu höfð til hliðsjónar í öllum aðgerðum tengd loftslagsbreytingum, en Ísland hefur lagt áherslu á þessi atriði í viðræðunum og eru umræddar tilvísanir að stórum hluta frá Íslandi komnar.

Yfirstandandi samningaviðræður eru bæði flóknar og viðamiklar. Í raun er um að ræða tvö samningaferli: Annað beinist að því að ná samkomulagi um nýtt markmið um niðurskurð í losun gróðurhúsalofttegunda sem taki gildi eftir 2012. Hitt ferlið miðar að því að auka alþjóðlega samvinnu um að draga úr losun þessara lofttegunda með aðkomu Bandaríkjanna og aukinni aðkomu stærstu og iðnvæddustu þróunarríkjanna.

Ríkisstjórnin skipaði í nóvember 2008 sérstaka samninganefnd til þess að fara með samningsumboð Íslands í yfirstandandi samningaviðræðum um loftslagsmál. Áður hafði starfað samstarfsnefnd ráðuneyta sem tók þátt í þingstörfum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Í samninganefndinni sitja átta manns, formaður er Hugi Ólafsson, umhverfisráðuneyti. Aðrir nefndarmenn eru: Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir utanríkisráðuneyti, Stefán Einarsson, umhverfisráðuneyti, Sigrún Ólafsdóttir, forsætisráðuneyti, Angantýr Einarsson, fjármálaráðuneyti, Sveinn Þorgrímsson, iðnaðarráðuneyti, Þorsteinn Tómasson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og Sigurður Örn Guðleifsson, innanríkisráðuneyti. Ritari nefndarinnar er Nína Björk Jónsdóttir, utanríkisráðuneyti.

Umboð samninganefndarinnar er í meginatriðum tvískipt. Í fyrsta lagi að leita eftir samkomulagi við Evrópusambandið um aðild Íslands að losunarmarkmiði ESB og hins vegar að gæta íslenskra hagsmuna í sjálfum samningaviðræðunum um nýtt alþjóðlegt samkomulag.

Árið 2009 náðist samkomulag við Evrópusambandið um að gerður skyldi samningur um að Ísland muni taka á sig sameiginlegar skuldbindingar með ESB gagnvart nýju alþjóðasamkomulagi eftir árið 2012. Mun þetta einfalda framkvæmd hér á landi til muna, en vegna Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið tekur Ísland þátt í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og mun verulegur hluti losunar hér á landi falla undir viðskiptakerfið frá og með 1. janúar 2013. Hefði það verið mjög íþyngjandi og flókið fyrir Ísland að þurfa að taka á sig tvöfaldar skuldbindingar, annars vegar gagnvart EES-samningnum og hins vegar gagnvart hinu nýja loftslagssamkomulagi. Samkomulagið við ESB mun eingöngu koma til framkvæmda ef niðurstaða næst í viðræðunum um nýtt alþjóðlegt samkomulag.

 Það er stefna Íslands að nýtt alþjóðlegt samkomulag um loftslagsmál taki mið af tilmælum vísindanefndar SÞ. Ríkisstjórn Íslands setti sér árið 2007 það markmið að draga úr losun um 50-75% fram til ársins 2050 miðað við árið 1990. Sem framlag Íslands til yfirstandandi samningaviðræðna hefur Ísland sagt að það sé tilbúið, í sameiginlegu átaki með Evrópusambandinu, að taka á sig 30% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, miðað við árið 1990, að því gefnu að metnaðarfullt samkomulag náist. Núgildandi aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í lok árs 2010, felur í sér að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um allt að 30% til ársins 2020, miðað við árið 2005, með tíu lykilaðgerðum.

Eftirfarandi eru áherslur Íslands í viðræðunum.

  • Að gert verði nýtt alþjóðlegt samkomulag sem miði að raunverulegum samdrætti í nettólosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, með virkri þátttöku allra ríkja eftir getu og aðstæðum og stuðningi við þau ríki sem verst munu verða úti vegna loftslagsbreytinga.
  • Að samkomulag miðist við að hækkun á meðalhita vegna loftslagsbreytinga fari ekki yfir 2°C.
  • Að Ísland taki á sig sanngjarnar byrðar í loftslagsmálum, sambærilegar við það sem önnur þróuð ríki taka á sig, að teknu tilliti til aðstæðna og möguleika til að takmarka losun og auka bindingu.
  • Að íslenskt atvinnulíf búi við sambærilegt umhverfi og gildir innan ESB hvað loftslagsmál og atvinnulíf varðar og Ísland geti tengst með virkum hætti alþjóðlegum kolefnismörkuðum.
  • Að viðurkennt sé að notkun endurnýjanlegra orkugjafa og nýrrar tækni á sviði orkumála og orkusparnaðar séu lykilþættir við lausn loftslagsvandans.
  • Að endurheimt votlendis verði viðurkennd aðgerð til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Ísland hefur lagt fram tillögu þess efnis og var gengið frá tæknilegri skilgreiningu hennar á fundinum í Cancún. Samþykkt tillögunnar bíður samkomulags um framhald Kýótó-bókunarinnar.
  • Stuðningur verði aukinn á alþjóðavísu við þróun og yfirfærslu á loftslagsvænni tækni og þekkingu.
Að bæði konur og karlar taki þátt í ákvarðanatöku um loftslagsmál og kynjasjónarmið séu höfð til hliðsjónar í allri umræðu og aðgerðum sem snúa að loftslagsbreytingum.

 

Hlekkir