Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál - 10. desember 1993

EFNISYFIRLIT

Inngangur
Draumsýn sem brást
Mið-Austurlönd
Suður-Afríka
Fyrrverandi Júgóslavía
Rússland og Austur-Evrópa
Atlantshafsbandalagið
Vestur-Evrópusambandið
Öryggis- og varnarmál
Sameinuðu þjóðirnar
Mannréttindi
Málefni flóttamanna
Umhverfismál
Hafréttarmál
Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu
Úbreiðsla gereyðingarvopna
GATT
NAFTA
EES
Nýjar áherslur
Lokaorð

 

INNGANGUR

Á þeim átta mánuðum sem liðnir eru frá því síðasta skýrsla um utanríkismál var flutt á Alþingi hafa Íslendingar í auknum mæli orðið þess varir hvernig örlög þeirra og lífsafkoma tengjast atburðarás heimsmálanna. Utanríkismálin hafa bein og óbein áhrif á æ fleiri þætti íslensks þjóðlífs. Landsmálin ráða jafnframt meiru nú en áður um þá ímynd sem Ísland getur af sér í alþjóðlegu samstarfi. Hvað sem landafræði líður, er Ísland ekki eyland lengur.

Áhrifin af vaxandi tengslum Íslendinga við umheiminn eru margvísleg. Þær hörmulegu svipmyndir af afleiðingum vopnaðra átaka, náttúruhamfara, hungursneyðar og fátæktar, sem birtast sjónvarpsáhorfendum nær daglega, minna á að Íslendingar hafa skyldum að gegna gagnvart einstaklingum annars staðar á jarðkringlunni. Þær stórfelldu breytingar, sem átt hafa sér stað í öryggismálum Evrópu við lok kalda stríðsins valda því að íslensk stjórnvöld vilja nú stuðla að eðlilegri aðlögun á starfsemi varnarliðsins hér á landi. Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) hefur þegar haft í för með sér veigamiklar breytingar fyrir íslenska stjórnsýslu og atvinnulíf. Fyrir þjóð, sem háðari er útflutningsviðskiptum en flestar aðrar þjóðir, er mikið í húfi að dregið verði úr tollum og hindrunum í alþjóðaviðskiptum. Árangursrík niðurstaða Uruguay-viðræðnanna um Hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti (GATT) yrði því ekki síst Íslendingum umtalsverður búhnykkur. Þannig mætti lengi telja.

Möguleikum svo fámennrar þjóðar sem við Íslendingar erum til að láta til sín taka á alþjóðavettvangi eru augljósar skorður reistar. Utanríkisstefnan miðast þó ekki við það eitt að bregðast við ytri áhrifum. Saga þjóðarinnar og menning skapar henni sérstök færi á að leggja sinn skerf af mörkum í sameiginlegri baráttu ríkja heims fyrir betra mannlífi. Með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi, hvort heldur er til eflingar lýðræðis, mannréttindum, viðskiptum, umhverfisvernd eða takmörkun vígbúnaðar, stuðla Íslendingar að því að þeir sjálfir geti byggt í friði og farsæld á landi sínu um ókomna tíð. Eftir því sem skilin milli landsmála og utanríkismála verða ógreinilegri, geta Íslendingar hins vegar því aðeins orðið gjaldgengir þar sem þeir vilja einkum láta að sér kveða að þeir geri jafnframt ítrustu kröfur til sjálfra sín við stjórn landsmála. Íslendingar geta þjónað málstað lýðræðis og mannréttinda einungis að því tilskildu að þeir tryggi sínum eigin borgurum lýðræðislega stjórnarhætti og mannréttindavernd. Framlag Íslands til frjálsra viðskipta hlýtur á sama hátt að vera háð því að við leysum mikilvæga þætti í atvinnulífi okkar úr viðjum úreltra boða og banna.

Vaxandi skörun utanríkismála og málefna, sem okkur hefur verið tamt að líta á sem innanlandsmál, er eitt af einkennum þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað að loknu kalda stríðinu. Annað einkenni er aukin samtvinnun ólíkra þátta utanríkismála í umræðum um öryggismál. Eftir því sem dregið hefur úr hættunni á hernaðarlegum allsherjarátökum í okkar heimshluta, hafa ekki síst mannréttindi, efnahagsmál og viðskipti rutt sér til rúms sem veigamiklir þættir í tilraunum ríkja til að sjá öryggi sínu borgið. Slík útvíkkun öryggishugtaksins leysir stjórnvöld að sjálfsögðu ekki undan þeirri grundvallarskyldu að tryggja öryggi þegna sinna með viðeigandi ráðstöfunum í þágu landvarna. Hún skerpir hins vegar nauðsyn þess að stjórnvöld reki virka stefnu í utanríkismálum á ólíkum vettvangi samtímis.


 

DRAUMSÝN SEM BRÁST

Kalda stríðinu er lokið, en áhrifin af endalokum þess, sem engin gat séð fyrir, eru enn að koma í ljós. Við hrun kommúnismans fyrir fimm árum bundu menn við það vonir að tímabil sátta og samvinnu væri um það bil að renna upp í Evrópu. Reynslan hefur kennt okkur að draumsýn þessi átti ekki við rök að styðjast. Við áttum okkur nú á að ríki, sem áratuga harðstjórn og miðstýring höfðu nánast komið á vonarvöl, verða ekki endurreist í einu vetfangi. Slík endurreisn og aðlögun að leikreglum lýðræðis og markaðshagkerfis krefst þolinmæði og dyggrar liðveislu utanaðkomandi til lengri tíma litið, svo komið verði í veg fyrir hættulegan óstöðugleika sem ógnað getur sameiginlegu öryggi Evrópuríkja. Grimmileg átök, sem blossað hafa upp í fyrrverandi Júgóslavíu og á landsvæði Sovétríkjanna fyrrverandi hafa afhjúpað vanmátt samfélags þjóðanna til að sporna gegn hinum lífseigu öflum haturs og þjóðernisofstækis. Takmarkaður árangur af tilraunum alþjóðasamtaka til að stilla til friðar á blóðugustu vígvöllum Afríku, Angóla og Sómalíu, hefur einnig alið á efasemdum um raunhæfa möguleika á nýrri skipan heimsmála að kalda stríðinu loknu.

En þótt úrlausnarefnin við hinar breyttu aðstæður í alþjóðamálum hafi reynst vandasamari og margþættari en séð varð fyrir, væri ósanngjarnt að áfellast þau fjölþjóðasamtök og stofnanir sem farið hafa í fararbroddi fyrir tilraunum til að leggja grunninn að friðsamlegri heimi. Á stuttum tíma hafa til dæmis Sameinuðu þjóðunum fallið í skaut fleiri verkefni en þau hafa með góðu móti fengið við ráðið, einkum á sviði friðargæslu. Andstreymi og erfiðleikar við framkvæmd ákveðinna verkefna mega ekki verða til þess að samfélag þjóðanna kippi að sér höndum og snúi baki við þeim sem í nauðum eru staddir.


 

MIÐ-AUSTURLÖND

Ástæða er til að fagna því að verulegur árangur hefur nýlega náðst í langvinnum deilumálum, sem valdið hafa spennu á alþjóðavettvangi. Hið sögulega friðarsamkomulag Ísraelsmanna og Frelsissamtaka Palestínumanna í september síðastliðnum er til vitnis um að svo framarlega sem einlægur vilji er fyrir hendi er hægt að greiða jafnvel úr vandamálum, sem virst hafa óleysanleg. Samkomulagið ryður vonandi braut fyrir allsherjarlausn á deilum Ísraels og Araba. Ríkisstjórnin vill leggja sitt af mörkum til að friðarsamkomulaginu verði hrint í framkvæmd og hefur ákveðið að leggja fram 90 milljónir króna til uppbyggingarstarfs á svæðinu á næstu fimm árum. Áformað er að aðstoðin verði í formi tækniaðstoðar og beinna framlaga.


 

SUÐUR-AFRÍKA

Það telst einnig til mikilla tíðinda að stjórnvöld í Suður-Afríku hafa fallist á að deila völdum með blökkumönnum og samtökum þeirra. Samkomulag hefur náðst um stjórnarskrá til bráðabrigða og þing Suður-Afríku hefur stofnað sérstakt framkvæmdaráð, sem annast mun undirbúning lýðræðislega kosninga, sem væntanlega fara fram 27. apríl á næsta ári. Framkvæmdaráðið mun starfa samhliða ríkisstjórninni og situr einn fulltrúi í ráðinu frá hverjum þeim samtaka, sem tóku þátt í samningaviðræðunum um framtíðarstjórnarskipulag Suður- Afríku. Þrátt fyrir að ýmis vandamál blasi við, er allt útlit fyrir að hin illræmda aðskilnaðarstefna í Suður-Afríku verði loks afnumin á næsta ári.


 

FYRRVERANDI JÚGÓSLAVÍA

Enginn vafi leikur á að ástandið í fyrrverandi Júgóslavíu er öðru fremur sá ásteytingarsteinn, sem björtustu vonir manna um nýja Evrópu hafa brotnað á. Friði í Bosníu-Herzegóvínu verður ekki komið á nema stríðandi fylkingar á svæðinu hafi vilja til þess sjálfar. Eigi að síður ætti það að vera öllum siðmenntuðum þjóðum alvarlegt áhyggjuefni þegar sjálfstætt og fullvalda aðildarríki að Sameinuðu þjóðunum er lagt í rúst með blóðugum og hrottafengnum hætti, án þess að samtökin eða önnur bandalög, sem beinna hagsmuna hafa að gæta, geti beitt sér til að stöðva átökin. Þrátt fyrir þetta ber ekki að vanmeta það öfluga hjálparstarf sem átt hefur sér stað á svæðinu undir merkjum Sameinuðu þjóðanna og með tilstuðlan ríkja sem lagt hafa til friðargæslulið. Nú þegar vetrarharðindi sverfa að íbúum á svæðinu er nauðsynlegt að mannúðaraðstoð verði haldið áfram svo komið verði í veg fyrir enn frekari harmleik. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að slíkum hjálparstörfum verði fram haldið um aldur og ævi. Því er nauðsynlegt að kapp verði lagt á að blása lífi að nýju í friðarviðræðurnar í Genf, sem legið hafa að mestu niðri síðan í ágúst. Í tengslum við þessar viðræður hefur nýlega komið til álita að aflétta að hluta refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna gegn Serbum í skiptum fyrir málamiðlun gagnvart múslimum um landsvæði.
Þátttöku Íslands í alþjóðlegu starfi um málefni fyrrverandi Júgóslavíu voru gerð ítarleg skil í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis í apríl síðastliðnum. Til viðbótar þeirri aðstoð, sem þar er greint frá, ákvað ríkisstjórnin að veita viðtöku nokkrum fórnarlömbum átakanna í fyrrverandi Júgóslavíu og veita þeim læknismeðferð.

Ríkisstjórnin hefur lagt aukna áherslu á virka og ábyrga þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu samstarfi. Breyttar aðstæður í kjölfar kalda stríðsins valda því að þessi áhersla er brýnni en nokkru sinni fyrr. Í skýrslu nefndar ríkisstjórnarinnar um öryggis- og varnarmál er m.a. bent á að "friðargæsluverkefni verða sífellt flóknari og nær nú friðargæsla í sumum tilvikum til mannúðarmála og jafnvel mannréttinda. Íslendingar eiga að leggja áherslu á virka þátttöku í slíku starfi og líta á það sem framlag sitt til að stuðla að stöðugleika og friði í sínum heimshluta og veröldinni allri".

Sérstök könnun á hugsanlegu framlagi Íslands til friðargæslu í fyrrverandi Júgóslavíu leiddi í ljós á síðastliðnu sumri að þátttaka Íslands gæti einna helst orðið á sviði heilbrigðisþjónustu. Óskað var samráðs við norsk stjórnvöld um þetta efni og varð niðurstaðan sú, að Norðmenn buðu Íslendingum að senda sérhæft starfsfólk til starfa í heilsugæslusveit innan ramma samnorrænnar friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna í Bosníu-Herzegóvínu. Ákvað ríkisstjórnin í september síðastliðnum að veita 7.5 milljónum króna til þessa verkefnis, en það felur í sér að hægt verði að senda tvo lækna og fjóra hjúkrunarfræðinga til sex mánaða starfa í sveitinni fyrst um sinn. Að auki var samþykkt að kanna möguleika á því að gefa íslensk lyf, blóðefni eða vatn til sveitarinnar. Viðræður hafa þegar farið fram um framkvæmd þátttökunnar og er stefnt að því að gert verði sérstakt samkomulag ríkjanna um það efni. Áformað er að hinir íslensku friðargæsluliðar hljóti þjálfun í Noregi og fari til starfa með vorinu. Athygli er vakin á að þátttaka Íslands í friðargæslu af þessu tagi er án hliðstæðu. Eru vonir við það bundnar að hún geti skapað fordæmi, sem styrkt geti stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi, til lengri tíma er litið.


 

RÚSSLAND OG AUSTUR-EVRÓPA

Ástandið í Rússlandi hefur einnig mikil áhrif á stöðugleika í Evrópu. Á síðastliðnum árum - ekki síst á því tímabili sem hér er til umræðu - hefur oft verið tvísýnt um framtíðarþróun í Rússlandi. Síðast, þegar stuðningsmenn fulltrúaþingsins fyrrverandi létu til skarar skríða með ofbeldisverkum í Moskvu í byrjun október, lýsti ríkisstjórnin áhyggjum vegna átakanna og ítrekaði stuðning sinn við Jeltsín forseta.

Innan fárra daga verða haldnar þingkosningar í Rússlandi. Kosningarnar vekja bjartsýni um að rússnesk stjórnvöld séu staðráðin í að hrinda í framkvæmd stjórnmálalegum og efnahagslegum umbótum. Mikið veltur á að kosningarnar fari vel fram og að nýkjörið þing og ný stjórnarskrá efli lýðræðislega stjórnarhætti í Rússlandi. Ríkisstjórnin hefur tilnefnt einn fulltrúa til að taka þátt í alþjóðlegu eftirliti með framkvæmd kosninganna. Alþingi hefur einnig tilnefnt fulltrúa.

Andstætt því sem margir óttuðust, hefur Rússland ekki horfið aftur til hefðbundinnar einangrunar í tortryggni, heldur staðfest að það er órjúfanlegur hluti af Evrópu. Rússnesk utanríkisstefna endurspeglar þannig breytt markmið og aðferðir. Samt er það svo að hagsmunagæsla heimsveldis þróast ekki ætíð í fullu samræmi við yfirlýsta utanríkisstefnu. Rússnesk stjórnvöld hafa áhyggjur af átökum í fyrrverandi Sovétlýðveldum og öryggi landamæra sambandsríkisins og hafa áskilið sér rétt til afskipta af meintum ógnunum í næsta nágrenni Rússlands, á landsvæði Sovétríkjanna fyrrverandi. Sjálftekinn réttur til íhlutunar í innanríkismál sjálfstæðra og fullvalda nágrannaríkja samræmist hins vegar ekki yfirlýstum vilja til samstarfs og samráðs við önnur ríki, auk þess sem hann stríðir gegn alþjóðlegum skuldbindingum ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu. Ráðstafanir til verndar öryggi í einu ríki mega ekki verða til þess að skapa öryggisleysi hjá öðrum. Úthlutun áhrifasvæða í anda Yalta-samkomulagsins heyrir til liðinni tíð og er fullkomlega andstæð tilraunum Evrópuríkja til að koma í veg fyrir nýja skiptingu álfunnar.

Í þessu sambandi er ástæða til að víkja sérstaklega að samskiptum Rússlands og Eystrasaltsríkjanna. Rússneskir hermenn eru enn í Eistlandi og Lettlandi og rússnesk stjórnvöld virðast leggja vaxandi áherslu á áframhaldandi stjórn hernaðarmannvirkja í Lettlandi. Þrátt fyrir heitstrengingar um hið gagnstæða, hafa rússnesk stjórnvöld í raun ekki horfið frá tengingu brottflutnings hersveita við stöðu rússnesku þjóðernisminnihlutanna í ríkjunum tveimur. Niðurstöður nýlegra sveitarstjórnarkosninga í Eistlandi styrktu í sessi þann dóm evrópskra sérfræðinga að mannréttindi rússneska minnihlutans væru vel tryggð. Jafnvel þó svo væri ekki, gæfi það rússneskum stjórnvöldum ekki rétt til að halda her í landinu gagnstætt vilja réttkjörinna stjórnvalda. Ríkisstjórnin hefur því við ólík tækifæri ítrekað kröfuna um algeran brottflutning rússneskra hersveita frá Eystrasaltsríkjunum og fagnar því að rússnesk stjórnvöld hafa nú lagt til að brottflutningi frá Eistlandi verði lokið fyrir 31. ágúst á næsta ári. Mikilvægt er að skuldbinding um brottflutning herja verði ekki háð skilyrðum og að samkomulag náist um tímaáætlun. Ástæða er einnig til að fagna því að brottflutningi hersveita frá Litháen var lokið fyrir 31. ágúst á þessu ári.


 

ATLANTSHAFSBANDALAGIÐ

Á þeim umróts- og óvissutímum sem nú fara í hönd verður aðildin að Atlantshafs-bandalaginu áfram hornsteinn stefnu Íslendinga í öryggismálum.

Reglulegum fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins er nú nýlokið og fundur ríkisoddvita aðildarríkjanna í aðsigi. Mikil umræða á undanförnum mánuðum um framtíðarhlutverk bandalagsins og öryggismál Evrópu hefur víða vakið væntingar um að þar verði teknar tímamótaákvarðanir um ný verkefni og hugsanlega fjölgun aðildarríkja. Ástæða er til að stilla slíkum væntingum í hóf. Aðlögun Atlantshafsbandalagsins að breyttum aðstæðum í Evrópu hefur gengið vonum framar. Miklu skiptir að þeim árangri verði ekki teflt í tvísýnu.

Stöðugleika og öryggi í Evrópu er nú ekki hægt að miða við friðhelgi landamæra einvörðungu. Líta verður á álfuna sem heild og taka tillit til heildarhagsmuna. Þess vegna bíða Atlantshafsbandalagsins mjög vandasöm úrlausnarefni. Styrkur og aðdráttarafl bandalagsins felst í þeim sameiginlegu hugsjónum sem það aðhyllist, samheldni aðildarríkjanna og sameiginlegum varnarviðbúnaði þeirra. Í sjálfu sér hefur vörn bandalagsins á grundvallarhagsmunum aðildarríkjanna stuðlað að víðari stöðugleika og öryggi í Evrópu og því skiptir miklu að frekari aðlögun þess verði ekki á kostnað þeirra eiginleika sem hafa reynst svo vel. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir smærri aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og er í raun einnig markmið ríkja í Mið- og Austur-Evrópu.

Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að mörg ríki í Mið- og Austur-Evrópu finna til öryggisleysis. Í ljósi sögunnar og núverandi aðstæðna í þessum heimshluta er það ekki að ástæðulausu. Rík áhersla margra Mið- og Austur-Evrópuríkja á aðild að Atlantshafsbandalaginu endurspeglar styrkleika þess og þó einkum Atlantshafstengslanna. Bandalagsríki mega ekki daufheyrast við væntingum og óskum þessara ríkja.

Jafnframt er ljóst að hvorki öryggi Mið- og Austur-Evrópu, né Vestur-Evrópu, verður tryggt einhliða á kostnað Rússlands, Úkraínu eða annarra ríkja í austurhluta álfunnar. Reyna verður til hins ítrasta að virkja þann mátt sem Rússland býr yfir í þágu Evrópu sem heildar, með því að efla enn frekar tvíhliða og fjölþjóðleg tengsl milli vestur- og austurhluta álfunnar.

Þess vegna ber að fagna nýlegum tillögum bandarískra stjórnvalda um "Samvinnu í þágu friðar", en þær fela í sér aukið og nánara samstarf Atlantshafsbandalagsins við þau ríki í Mið- og Austur-Evrópu sem þess óska. Tillögurnar, sem hlutu stuðning á nýafstöðnum fundi Norður-Atlantshafssamvinnuráðsins, gera m.a. ráð fyrir því að slíkt aukið samstarf, ekki síst á sviði varnarmála, geti rutt brautina fyrir stækkun Atlantshafsbandalagsins síðar. Miðað við núverandi aðstæður myndi það þó hvorki þjóna hagsmunum bandalagsríkja né nýrra umsækjenda um aðild að rasa um ráð fram.

Þegar fjölgun aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins verður tímabær, með þeirri víkkun varnarskuldbindinga sem því fylgir, þarf að íhuga vel samræmi við aðrar hugsanlegar tvíhliða og fjölþjóðlegar skuldbindingar, sem felast til dæmis í aðild að Evrópusambandinu og VES. Að auki þarf að huga að hlutverki og verkaskiptingu milli Norður-Atlantshafssamvinnuráðsins, Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu og Evrópuráðsins, þegar til lengri tíma er litið.


 

VESTUR-EVRÓPUSAMBANDIÐ

Meira en ár er nú liðið síðan skjal um aukaaðild Íslands, Noregs og Tyrklands að Vestur-Evrópusambandinu (VES) var undirritað í Róm. Í skjalinu er kveðið á um að ríkin þrjú verði "virkir áheyrnaraðilar" þar til aðild Grikklands að samtökunum hafi verið fullgilt af gríska þinginu. Nú er búist við að þessari fullgildingu verði jafnvel lokið fyrir áramót og þá verður Ísland formlega aukaaðili að VES.

Undanfarið ár hefur verið annasamt innan Vestur-Evrópusambandsins. Höfuðstöðvarnar voru fluttar frá Lundúnum til Brussel, skipulagi breytt og starfsfólki fjölgað. Ný viðfangsefni snerta ekki aðeins innri aðlögun samtakanna og tengsl þeirra við önnur samtök og stofnanir, heldur hafa þau þegar látið að sér kveða í evrópskum öryggismálum með þátttöku í framkvæmd refsiaðgerða Sameinuðu þjóðanna á Adríahafi og áætlunum um þátttöku í friðargæslu í Bosníu-Hersegóvínu.

Þótt aðildarríki VES séu sammála um að efla samtökin og fá þeim nýtt hlutverk, virðast þau ekki enn hafa fullmótaða framtíðarsýn. Í Maastricht-sáttmálanum er gert ráð fyrir að VES verði "varnarmálasvið" Evrópusambandsins og í mörgum aðildarríkjum er horft til loka gildistíma Brussel-samningsins árið 1997, sem tímamóta í þróun samtakanna. Ekkert er þó gefið í þessu efni, því sum aðildarríki vilja fara hægt í slíkan samruna, enda telja þau að VES verði að halda nokkru sjálfstæði til að geta sinnt hlutverki sínu sem hin evrópska stoð Atlantshafsbandalagsins, sem verði áfram undirstaða vestur-evrópskrar öryggisskipunar.

Á liðnum árum hefur umræðan um eflingu VES að öðrum þræði snúist um aukna evrópska samkennd í öryggis- og varnarmálum. Íslensk stjórnvöld hafa ávallt stutt viðleitni í þá átt að evrópsk aðildarríki Atlantshafsbandalagsins öxluðu stærri hluta af þeim sameiginlegu byrðum sem fylgdu vörnum þessa heimshluta og tækju um leið meira frumkvæði og ábyrgð á stefnumótun á því sviði. Með frekari fækkun í bandarísku herliði í Evrópu verður evrópsk samkennd í öryggis- og varnarmálum ekki einungis göfug hugsjón heldur knýjandi nauðsyn.

Með gildistöku Maastricht-sáttmálans og stofnun Evrópusambandsins hefur nú verið gengið skrefi lengra og grunnur lagður að sameiginlegri utanríkis- og öryggismálastefnu aðildarríkjanna. Fyrirsjáanlega verður mótun og framkvæmd þessarar stefnu hvorki betri né verri en samstaðan innan Evrópusambandsins á hverjum tíma, en af sömu ástæðum og nefndar hafa verið hér að framan er ástæða til að fagna því ef Evrópusambandið verður betur samstiga í utanríkismálum og öryggis- og varnarmálum. Að dómi ríkisstjórnarinnar er afar mikilvægt að Ísland geri sér far um að fylgjast með aukinni samvinnu ríkja Evrópusambandsins á þessu sviði. Jafnframt ber að árétta viðvarandi mikilvægi Atlantshafstengslanna fyrir evrópsk öryggismál og mun Ísland leggja á þau sérstaka áherslu innan vébanda Vestur-Evrópusambandsins.


 

ÖRYGGIS- OG VARNARMÁL

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að Ísland gerðist aðili að Vestur-Evrópusambandinu tók á sínum tíma mið af nauðsyn þess að laga stefnu landsins í öryggismálum að kröfum nýs tíma. En endalok tvískiptingar Evrópu og dvínandi hernaðarógn samfara hruni Sovétríkjanna fyrrverandi setur mark sitt óumflýjanlega á aðra þætti íslenskra öryggis- og varnarmála, þar á meðal varnarsamstarfið við Bandaríkin.

Í framsöguræðu um utanríkismál á Alþingi í mars 1992 lýsti utanríkisráðherra því yfir að:
"Tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna verður eftir sem áður ein af meginstoðum utanríkisstefnunnar, en jafnhliða ... þurfum við Íslendingar að búa okkur undir að vægi og umsvif varnarliðsins hér á landi minnki á næstu árum. ... Því er ráðlegt og tímabært að íslensk stjórnvöld efni til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um tilhögun og umfang varnarsamstarfsins á komandi árum og eru uppi áform um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að skipa sérstaka nefnd til að sinna því verkefni ..."

Umrædd nefnd, sem tók til starfa í júní 1992, hlaut það verkefni að greina og leggja mat á breyttar aðstæður í öryggismálum og fjalla í því sambandi sérstaklega um tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Lagði nefndin fram skýrslu sína í mars síðastliðnum og var hún rædd á Alþingi mánuði síðar.

Á grundvelli þeirra niðurstaðna, sem komist er að í skýrslunni, hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar átt ítarlegar viðræður við fulltrúa bandarískra stjórnvalda um öryggismál og fyrirkomulag varnarsamstarfs ríkjanna. Haldnir hafa verið nokkrir viðræðufundir embættismanna í Reykjavík og Washington, auk þess sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa haft tækifæri til að gera öryggis- og varnarmálum skil á fundum með varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ræddi utanríkisráðherra nú síðast við hinn bandaríska starfsbróður sinn í Brussel hinn 2. desember síðastliðinn

Í þessum viðræðum ríkjanna um fyrirkomulag varnarsamstarfsins, sem enn er ekki lokið, hefur komið fram að báðir aðilar eru sammála um þær meginforsendur sem máli skipta; annars vegar óskert mikilvægi hins tvíhliða varnarsamnings ríkjanna frá 1951 og hins vegar nauðsyn aðlögunar í varnarviðbúnaði Bandaríkjamanna á Íslandi.

Stjórnvöld í Washington hafa staðfastlega áréttað að þau muni standa við varnarskuldbindingar sínar gagnvart Íslandi. Í sameiginlegri yfirlýsingu viðræðuaðila, sem gefin var út í júní síðastliðnum að loknum fyrsta fundi þeirra eftir að stjórnarskipti höfðu orðið í Bandaríkjunum, ítreka þannig báðir aðilar "þær varnarskuldbindingar sem felast í tvíhliða varnarsamningum frá 1951 og áframhald náins öryggismálasamstarfs Íslands og Bandaríkjanna, sem er báðum ríkjum gagnlegt".

Báðir aðilar hafa jafnframt verið sammála um að samningurinn feli í sér svigrúm til aðlögunar í ljósi breyttra aðstæðna. Þess er skemmst að minnast að umtalsverð hernaðaruppbygging sovéska Norðurflotans, sem hófst á sjöunda áratugnum, varð til þess að íslensk og bandarísk stjórnvöld ákváðu um miðjan síðasta áratug að efla loftvarnahlutverk varnarliðsins til muna. Á sama hátt hafa íslensk og bandarísk stjórnvöld einnig komið sér saman um að stefna beri að eðlilegum samdrætti í starfsemi varnarliðsins í kjölfar þess að ógnin af Norðurflotanum er nú að mestu leyti úr sögunni við ríkjandi aðstæður.

Í grófum dráttum fjalla þær viðræður Íslands og Bandaríkjanna, sem staðið hafa yfir um nokkurt skeið, um samræmda útfærslu varnarsamstarfsins, sem fullnægt getur báðum þessum skilyrðum, það er nauðsynlegri og eðlilegri aðlögun í starfsemi varnarliðsins innan þeirra marka sem viðvarandi öryggishagsmunir Íslands leyfa - á grundvelli varnarsamningsins. Eru vonir við það bundnar að báðir aðilar geti komist að niðurstöðu um slíka útfærslu innan tíðar.

Í þessu samhengi er vert að árétta að það er grundvallarskylda ábyrgra stjórnvalda að tryggja varnir landsins og öryggi. Því ber að fagna að lok kalda stríðsins hafa gert vestrænum ríkjum kleift að draga úr vígbúnaði og beina skattfé ríkisborgaranna til verðugri verkefna á alþjóðavettvangi. Ekkert ríki hefur hins vegar brugðist við þeim straumhvörfum, sem orðið hafa á undanförnum fimm árum, með því að láta varnir sínar fyrir róða. Umfang nauðsynlegs viðbúnaðar er breytingum undirorpið hverju sinni, en jafnvel friðsömustu tímar leysa stjórnvöld ekki undan þeirri kvöð að gæta öryggis þegna sinna með viðeigandi hætti. Verkfærin breytast, en markmiðin eru hin sömu og áður.


 

SAMEINUÐU ÞJÓÐIRNAR

Aðstæður í heiminum í kjölfar kalda stríðsins hafa aukið áhrif Sameinuðu þjóðanna til muna, en jafnframt skapað mikið fjárhagslegt og stjórnunarlegt álag á samtökin. Athygli hefur í auknum mæli beinst að störfum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem öðlast hefur mun meira vægi í samanburði við allsherjarþingið og er á ný orðið starfhæft, eftir að hafa verið í fjötrum neitunarvalds Sovétríkjanna fyrrverandi um áratugaskeið. Í upphafi einkenndi bjartsýni afstöðu ríkja til þessa nýja hlutverks öryggisráðsins, en mistök við framkvæmd ályktana ráðsins hafa orðið til að árétta nauðsyn endurskoðunar á starfsemi og skipan þess. Þar sem árangur af störfum öryggisráðsins er mestur þegar það nýtur víðtæks stuðnings aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, er mikilvægt að víðtæk samstaða náist um slíka endurskoðun.

Ríkisstjórnin er því hlynnt að fjölgað verði í öryggisráðinu, enda hefur aðildarríkjum samtakanna fjölgað verulega frá því að síðasta endurskoðun fór fram. Stjórnvöld geta ennfremur stutt áform um fjölgun fastra sæta í ráðinu að því tilskildu að um mjög fá sæti verði að ræða og að slíkum sætum fylgi ekki neitunarvald. Ennfremur er mikilvægt að viðkomandi ríki verði reiðubúin til að leggja sitt að mörkum við varðveislu heimsfriðar og öryggis.

Undanfarin ár hefur Ísland, ásamt Norðurlöndunum, staðið að tillögum um umbætur á rekstri Sameinuðu þjóðanna. Ráðgera Norðurlöndin að leggja fram ályktunartillögu um eflingu og endurskipulagningu á starfsemi samtakanna á sviði friðargæslu á yfirstandandi allsherjarþingi, með það í huga að auka samræmingu á sviði mannúðaraðstoðar, enduruppbyggingar, kosningaeftirlits og verndar mannréttinda. Að því er mannréttindi varðar, er Ísland fylgjandi því að komið verði á fót embætti sérstaks mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.


 

MANNRÉTTINDI

Hin aukna áhersla, sem lögð er á mannréttindi og eflingu lýðræðislegs stjórnarfars í umræðum um alþjóðamál, kom glöggt í ljós á mannréttindaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í júní síðastliðnum. Ráðstefnan áréttaði algildi mannréttinda; það sjónarmið að allir menn njóti tiltekinna lágmarksréttinda og að samfélag þjóðanna eigi rétt á að hlutast til þar sem um alvarleg mannréttindabrot er að ræða í einstökum ríkjum. Mikilvægur árangur náðist í réttindabaráttu barna og fatlaðra, en einnig í málefnum kvenna. Niðurstöður ráðstefnunnar eru gott veganesti fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um réttindi kvenna, sem haldin verður í Peking árið 1995. Utanríkisráðuneytið hefur hefur þegar hafið undirbúning að þátttöku í ráðstefnunni og gerir sér vonir um víðtækt samstarf við önnur ráðuneyti og óopinber félagasamtök.

Mannréttindi og efling lýðræðis voru einnig meginviðfangsefni fyrsta leiðtogafundar Evrópuráðsins í október sl. Ein mikilvægasta niðurstaða fundarins var framkvæmdaáætlun um aðgerðir gegn kynþáttamisrétti, útlendingahatri og skorti á umburðarlyndi. Í ljósi vaxandi umræðu hér á landi um málefni nýbúa er tímabært að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir sérstöku kynningarátaki á þessu sviði í samræmi við niðurstöður leiðtogafundarins.


 

MÁLEFNI FLÓTTAMANNA

Málefni flóttamanna vega æ þyngra á metunum í alþjóðlegu samstarfi vestrænna ríkja. Samkvæmt nýlegum upplýsingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) eru um 19 milljónir pólitískra flóttamanna í heiminum, auk 24urra milljóna manna sem hafa flúið heimili sín af pólitískum ástæðum, en eru enn búsettir í heimalöndum. Flóttamannavandinn hefur ekki verið meiri frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar.

Hafa þarf hugfast að mannlegar þjáningar og mannréttindabrot gera menn nauðuga að pólitískum flóttamönnum. Sú áhersla, sem Ísland hefur lagt á mannréttindavernd á alþjóðavettvangi, útheimtir að Ísland axli byrðar af móttöku flóttamanna, með sama hætti og nágrannaþjóðirnar. Ísland hefur til dæmis ekki enn tekið á móti pólitískum flóttamönnum frá ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu. Enginn flóttamaður kom til Íslands árið 1992 og einungis þrír Víetnamar hafa fengið pólitískt hæli hér á landi á þessu ári.

Tímabært er að stjórnvöld marki mannúðlega heildarstefnu um móttöku pólitískra flóttamanna. Stigið hefur verið skref í rétta átt með nýlegri samþykkt ríkisstjórnarinnar um að tilnefna aðila til að semja tillögur um heildarstefnu í málefnum pólitískra flóttamanna á Íslandi.


 

UMHVERFISMÁL

Á árinu hlaut Ísland kosningu í umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem sett var á fót til þess að vinna að framkvæmd yfirlýsinga ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó de Janeiro árið 1992 um umhverfi og þróun. Meðal þeirra mála sem Ísland leggur áherslu á er að undirbúningi alþjóðlegra aðgerða til eflingar vörnum gegn mengun sjávar frá landstöðvum verði hraðað. Þótt 70-80% af mengun hafsins eigi rætur að rekja til landstöðva er ekki fyrir hendi alþjóðasamningur um samræmdar aðgerðir gegn þessari mengun. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna mun halda ráðstefnu um þessi málefni í Washington árið 1995, en þrír undirbúningsfundir verða haldnir og hefur Ísland ákveðið að bjóða til síðasta undirbúningsfundarins hér á landi í mars 1995.

Íslendingar njóta þeirrar gæfu að mengun hér er lítil, loft hreint, ár og lækir tærir. Á alþjóðavettvangi hafa þeir gengið fram og barist gegn losun hættulegra efna í sjó og hafa Íslendingar almennt viljað skipa sér í framvarðarsveit í baráttunni gegn mengun í heiminum. Enn er þó langt í land með að fullnægjandi eftirlit sé með því að Íslendingar virði sjálfir þær skuldbindingar sem þeir hafa á sig tekið. Sé mengun hér takmörkuð, er það ekki Íslendingum einum að þakka heldur því að iðnaður hér er smár í sniðum, landið afskekkt og vindbarið. Í samningum um EES hafa Íslendingar þurft að skýra út fyrir samningsaðilum að aðstæður á Íslandi leyfi ekki í öllum tilfellum eins strangt eftirlit né harðar reglur í umhverfismálum og tíðkast á meginlandinu. Einnig hér verða Íslendingar að gera sér grein fyrir að einhverju verður að kosta til vilji þeir halda þeim orðstír, að Íslendingar vilji standa öðrum framar eða að minnsta kosti jafnfætis þegar kemur að vernd umhverfisins.

Umhverfismálaumræðan hefur einnig haft sívaxandi áhrif á viðskipta milli þjóða. Hvalafriðunarsinnar hafa leitast við að beina viðskiptum frá hvalveiðilöndum. Stórfyrirtæki í iðnþróuðum löndum, sem þurfa að bera talsverðan kostnað vegna mengunarvarna, knýja á um það að innflutningur frá löndum, þar sem umhverfisreglur eru ekki eins strangar, verði takmarkaður. Því er talið líklegt að næsta lota í GATT viðræðunum verði að verulegu leyti helguð viðskiptum og umhverfismálum.

Íslenskar afurðir hafa víða verið auglýstar og markaðsfærðar með góðum árangri á þeim forsendum að um um heilnæma og ómengaða vöru sé að ræða. Ef að líkum lætur verður það enn mikilvægara í framtíðinni en hingað til að sýna fram á hreinleika vöru. Sú ímynd er viðkvæm og þarf ekki mikið til að hnekkja henni. Þótt fiskimið umhverfis Ísland séu hreinni en til dæmis Norðursjór eða Miðjarðarhaf, bera hafstraumar og vindar með sér norður úrgang frá iðnaðarhéruðum sunnar í álfunni. Eitt kjarnorkuslys í Barentshafi getur orðið til þess að markaður fyrir fisk frá öllu Norðurhveli hrynji. Íslendingar eiga því mikilla beinna hagsmuna að gæta í baráttunni gegn mengun úthafanna.


 

HAFRÉTTARMÁL

Hafréttarmálin hafa verið snar þáttur íslenskrar hagsmunagæslu hjá Sameinuðu þjóðunum. Þáttaskil urðu í hafréttarmálum í síðasta mánuði þegar sextíu ríki höfðu staðfest hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna. Þar með var skilyrðum um gildistöku samningsins fullnægt og tekur hann gildi í lok næsta árs.

Til þessa hafa fá iðnríki gerst aðilar að Hafréttarsamningnum vegna óánægju með kafla hans um vinnslu málma á hafsbotni. Viðræður sem miða að því að lagfæra samninginn til að auðvelda þessum ríkjum að gerast aðilar, standa yfir undir forystu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Það er von ríkisstjórnarinnar að í þessum viðræðum náist rammasamkomulag sem verði til þess að öll ríki geti gerst aðilar að samningnum.

Á liðnu sumri var haldinn annar fundur ráðstefnunnar um nýtingu og friðun fiskistofna sem halda sig víðar en í efnahagslögsögu eins ríkis eða teljast til mikilla fartegunda. Á ráðstefnunni í sumar lagði Ísland fram tillögu ásamt Argentínu, Kanada, Chile og Nýja Sjálandi um alþjóðlegt samkomulag um úthafsveiðar og fyrirkomulag þeirra. Tillögurnar byggjast á samráði ríkja og er áhersla lögð á mikilvægi alþjóðastofnana. Gert er ráð fyrir að slíkar stofnanir setji meðal annars reglur um verndun og nýtingu stofna á úthafsmiðum, þar á meðal heildarkvóta og úthlutun þeirra. Stefnt er að því að ráðstefnan ljúki störfum næsta sumar og verða niðurstöður hennar lagðar fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

Ísland var forysturíki í hópi strandríkja þegar barist var fyrir útfærslu fiskveiðilögsögu í 200 mílur. Þeirri baráttu lauk með fullum sigri. Mikilvægustu fiskimið Íslendinga eru nú innan íslenskrar lögsögu og svigrúm til frekari útfærslu takmarkast verulega af fiskveiðilögsögu annarra ríkja sem lögsögu eiga upp að henni. En þó svo að áhersla Íslendinga hafi legið undanfarin ár á nýtingu sinna eigin fiskimiða, hafa þeir lengi einnig sótt á fjarlæg mið. Þegar deilan kom upp í sumar um veiðar í svonefndri "Smugu" í Barentshafi, alþjóðlegu hafsvæði sem liggur upp að lögsögu Norðmanna og Rússa, var Íslendingum núið því um nasir að þeir hefðu með veiðum sínum þar afneitað fyrri stefnu. Því fer fjarri. Íslendingar geta verið stoltir af þeim árangri sem náðst hefur og standa fast við framkvæmd allra ákvæða Hafréttarsáttmálans, þar með talið þeim sem lúta að ábyrgri stjórn strandríkja á stofnum innan lögsögu þeirra. Það var hins vegar hvorki löglegt að meina íslenskum skipum að stunda veiðar á svæði, sem óumdeilanlega er alþjóðlegt, né var hægt að verja það að Íslendingar einir þjóða á norðurslóðum ættu enga hlutdeild í ört vaxandi þorskstofni Barentshafsins, allra síst eftir að aflaheimildir á Íslandsmiðum hafa verið skornar jafn harkalega niður og raun ber vitni. Brýnt er nú að leysa þessa deilu í fullri vinsemd og í samstarfi við Norðmenn og Rússa. Áfram verður reynt að finna viðræðum við Norðmenn og Rússa einhvern þann farveg sem dugað getur til lausnar. Einnig er rétt að ræða aðild Íslands að Svalbarðasamningnum frá 1920. Íslendingar eiga meira erindi að samstarfi um þetta svæði en ýmis þau ríki, sem þar eru aðilar. Rétt er þó að vara við ýktum væntingum.


RÁÐSTEFNAN UM ÖRYGGI OG SAMVINNU Í EVRÓPU


Mörg þeirra mála, sem vikið var að hér að framan, þar á meðal svæðisbundnar deilur, mannréttindi og málefni flóttamanna, hafa verið efst á baugi innan Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu (CSCE). Nýlega er lokið fundi utanríkisráðherra þátttökuríkjanna í Róm, en á fundinum var meðal annars ákveðið að efla starfsemi ráðstefnunnar með breytingum á stofnunum hennar og aukinni samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir, ekki síst Sameinuðu þjóðirnar og Evrópuráðið.

Að undanförnu hafa störf ráðstefnunnar einkum tekið mið af því að væntingar manna að kalda stríðinu loknu um stöðugleika, eflingu lýðræðis og aukin mannréttindi á því svæði, sem þátttökuríkin fimmtíu og þrjú ná yfir, hafa ekki náð fram að ganga. Þvert á móti hafa átök, ofbeldisverk og mannréttindabrot víða færst í aukana. Einkum á þetta við í fyrrverandi Júgóslavíu og á landsvæði Sovétríkjanna fyrrverandi, í Nagorno-Karabakh, Georgíu, Moldóvu og Tadsjikistan, þar sem ráðstefnuríkin hafa í auknum mæli beint sjónum sínum.

Undir öflugri forystu síðasta formennskuríkis ráðstefnunnar, Svíþjóðar, náðist engu að síður áþreifanlegur árangur á síðasta ári. Sendinefndir ráðstefnunnar til átakasvæða stuðluðu að betri og beinni tengslum við stjórnvöld á þessum svæðum, auk þess sem sendinefnd til að kanna mannréttindalöggjöf í Eistlandi átti stóran þátt í því að gerðar voru endurbætur á löggjöfinni. Störf sérstaks fulltrúa ráðstefnunnar til að kanna aðstæður þjóðernisminnihluta, hafa einnig orðið til að styrkja hlutverk ráðstefnunnar á sviði átakavarna. Til að bæta skilvirkni ráðstefnunnar frekar ákvað fundur utanríkisráðherranna í Róm meðal annars að setja á fót fastanefnd þátttökuríkjanna í Vín og efla skrifstofu nýskipaðs aðalframkvæmdastjóra ráðstefnunnar.

Sökum óumflýjanlegs niðurskurðar hefur engu að síður verið ákveðið að fyrirsvar Íslands gagnvart ráðstefnunni verði flutt frá Vín og sameinað sendiráðinu í Bonn.


 

ÚTBREIÐSLA GEREYÐINGARVOPNA

Þótt frekari fækkun í herjum og vopnabúrum sé enn mikilvægt markmið flestra lýðræðisríkja, hefur mikilsverður árangur á sviði afvopnunar og einhliða niðurskurður útgjalda til varnarmála í mörgum ríkjum dregið úr þeim áherslum sem áður voru ríkjandi. Að auki hafa vangaveltur um hlutföll í herjum í Evrópu fallið í skugga hættunnar á útbreiðslu hvers kyns gereyðingarvopna. Óþarft er að fjölyrða um þá ógn, sem gervöllu mannkyni stafar af keðjuverkandi kapphlaupi um öflun slíkra vopna og hátæknibúnaðar til beitingar þeirra, einkum og sér í lagi þar sem óábyrgar einræðisstjórnir eru fremstar í flokki. Jafnframt er nú um það rætt í fyllstu alvöru að hryðjuverkamenn kunni að grípa til slíkra vopna í stórborgum Vesturlanda.

Skoða verður aðgerðir Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðakjarnorku-málastofnunarinnar í Írak og Norður-Kóreu í þessu samhengi. Einnig skýrir það áhyggjur margra ríkja vegna þróunar mála í Úkraínu. Innan Sameinuðu þjóðanna hefur verið vaxandi stuðningur við styrkingu og ótímabundna framlengingu Samningsins um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) frá og með árinu 1995, en bæði fyrrnefnd ríki eru skuldbundin af samningnum. Ef sýnt verður að meirihluta aðila að þessum og öðrum viðlíka samningum, að ónefndum viðeigandi samtökum og stofnunum, sé ókleift að framfylgja eftirlits- eða refsiákvæðum, er voðinn vís. Íslensk stjórnvöld hafa af fremsta megni reynt að styðja viðleitni til takmörkunar útbreiðslu gereyðingarvopna.

Þrátt fyrir að tilraunir með kjarnavopn stuðli ekki að útbreiðslu þeirra með beinum hætti og færa megi tæknileg rök fyrir slíkum tilraunum, hefur núverandi tímabundið bann við tilraunum mælst vel fyrir og styrkt stöðu þeirra sem vilja hefta útbreiðslu kjarnavopna. Það verður því að teljast miður að kínversk stjórnvöld hafi kosið að rjúfa þá samstöðu sem myndast hefur í kjölfar kalda stríðsins. Íslensk stjórnvöld vilja stuðla að allsherjarbanni við tilraunum með kjarnavopn, sem hægt er að sannreyna, en núverandi aðstæður gefa tilefni til bjartsýni um að slíku markmiði verði náð.

Vonast er til að Samningurinn um bann við framleiðslu, öflun, þróun og notkun efnavopna taki gildi í janúar 1995. Ísland var á meðal stofnaðila samningsins og gert er ráð fyrir að hann verði lagður fram til fullgildingar á Alþingi á næsta ári.


 

GATT

Auk öryggis- og varnarmála, hafa viðskiptamálin verið efst á baugi í íslenskum utanríkismálum á undanförnum mánuðum. Vonir standa til að áttundu lotu GATT viðræðna, Uruguay-lotunni, fari senn að ljúka. Mikilvægi hennar, jafnt fyrir þjóðarhag sem heimsviðskipti, hefur áður verið útskýrt á þessum vettvangi. Þjónustuviðskipti eru sífellt stærri þáttur í efnahagslífi þróaðra ríkja, en í þessari lotu hefur í fyrsta sinn verið fjallað um hvaða reglur skuli gilda alþjóðlega um þetta svið. Ennfremur eru settar skýrari reglur um viðskipti með landbúnaðarvörur en þekkst hafa hingað til. GATT sem stofnun mun styrkjast og skorður verða reistar við því að stórveldi neyti aflsmunar í viðskiptum við smáríki. Ísland hefur reynt að fá samþykktar tollalækkanir á sjávarafurðum, bæði í tvíhliða viðræðum við einstök aðildarríki og sett fram kröfu um samningsbundna almenna lækkun. Útlínur hugsanlegs samkomulags skýrast nú óðum og eftir því sem fleiri kurl koma til grafar verður ljósara hversu nauðsynlegt er að leiða samningana farsællega til lykta. Nýleg skýrsla frá OECD metur árlegan efnahagsbata, sem rekja megi beint til samninganna, á 270 milljarða Bandaríkjadala. Ef samningar tækjust ekki og viðskiptastríð brytist út, yrði tjónið þó mun meira. Slík átök myndu ekki síst bitna á smærri ríkjum sem háð eru utanríkisviðskiptum.

Þeim fer nú fækkandi sem telja að Ísland komi ár sinni best fyrir borð í alþjóðaviðskiptum með því að segja sig úr lögum við aðrar þjóðir, heyja gegn þeim viðskiptastríð með því að hunsa skuldbindingar, en treysta á það að ekki komi til gagnaðgerða vegna smæðar landsins og almennrar velvildar annarra þjóða. Með virkari þátttöku í alþjóðlegu samstarfi höfum við áunnið okkur réttindi, en jafnframt er æ betur fylgst með því að við stöndum við okkar skuldbindingar. Þegar er hafin skoðun á viðskiptastefnu Íslands innan GATT, en lokayfirheyrsla í þeirri skoðun fer fram í Genf í febrúar næstkomandi. Þar þurfa fulltrúar Íslands að standa fyrir svörum um það hvernig staðið hefur verið við gerða samninga, en um leið gefst tækifæri til þess að vekja athygli á íslenskum hagsmunum. Sem dæmi má nefna að hætt er við að ýmis ríki innan GATT væru þegar búin að láta undan þrýstingi hvalaverndunarsamtaka og grípa til innflutningstakmarkana á íslenskar afurðir ef GATT-reglur hefðu ekki komið til. Á Frakklandsmarkaði voru nýlega hertar reglur um nafngift á hörpuskel, en það hefur torveldað útflutning þessarar vöru þangað. Þetta mál hefur þegar verið tekið upp í GATT. Fleira mætti tína til, en ljóst er að ekki er hægt að fara fram á tryggan aðgang að erlendum mörkuðum en beita svo geðþóttareglum við innflutning erlendis frá.

Þetta þýðir hins vegar ekki að GATT-samningurinn þýði afnám allrar verndar. Miklu fremur mætti gagnrýna það landbúnaðartilboð sem Ísland hefur nú lagt fram í GATT fyrir að veita of mikla tollvernd fyrir innlenda framleiðendur en of litla, enda mun ekki reynast nauðsynlegt að nýta nema að hluta það svigrúm sem tilboðið felur í sér til álagningar innflutningsgjalda.


 

NAFTA

Oft virðist fjallað um svæðisbundið og alþjóðlegt viðskiptasamstarf sem andstæður sem ekki geti farið saman. Þá gleymist að í stofnsamningi GATT er einmitt gert ráð fyrir fríverslunarsamningum einstakra ríkjahópa. Slíkir samningar eru ekki aðeins í fullu samræmi við GATT heldur eiga þeir að geta örvað alþjóðlega fríverslun. Þetta var áberandi þegar NAFTA-samningurinn var samþykktur í bandaríska þinginu. Samningurinn byggir að verulegu leyti á fríverslunarsamningi Bandaríkjanna og Kanada. Aðild Mexikó hefur ekki mikla viðskiptalega þýðingu fyrir Ísland eða önnur Evrópuríki, en samþykkt NAFTA hefur táknræna og pólitíska þýðingu langt út fyrir meginland Ameríku. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa Bandaríkin verið einn helsti merkisberi frjálsrar heimsverslunar. Höfnun NAFTA í Bandaríkjaþingi hefði mátt túlka sem afturhvarf til einangrunar og verndarhyggju sem aftur hefði getað haft neikvæð áhrif á GATT-viðræðurnar.

NAFTA-samningurinn er opinn öðrum ríkjum og fríverslunartengsl NAFTA-ríkjanna þriggja, sitt í hverju lagi eða með ríkjum utan svæðisins, koma vel til greina. Slíkt virðist ekki á döfinni sem stendur, en Chile hefur þó formlega sótt um aðild og verið vel tekið. Ágreiningurinn í Bandaríkjunum vegna NAFTA- og GATT-samninganna svo og framkvæmd þeirra, valda því að bandarísk stjórnvöld verða ekki í stakk búin til frekari samninga fyrr en síðari hluta næsta árs. Íslenskar afurðir hafa átt greiðan aðgang að Bandaríkjamarkaði og verður sá aðgangur tryggari með samþykkt GATT. Fastmótaðri fríverslunartengsl við Bandaríkin gætu þó tryggt enn meiri festu og öryggi í viðskiptum landanna. Ísland hefur nú gengið frá fríverslunarsamningum við fjölmörg ríki í Mið- og Austur-Evrópu og við Miðjarðarhaf. Ekkert væri því til fyrirstöðu af hálfu íslenskra stjórnvalda að ganga frá svipuðum samningum við ríki í öðrum álfum, þar sem efni standa til.


 

EES

Þingmeðferð EES-samningsins er nú loks lokið í öllum aðildarríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis og gildistaka samningsins fyrirsjáanleg um næstu áramót. Margboðuð lok þessa langa og torsótta samningaferils draga óneitanlega úr eftirvæntingunni, en gildi samningsins fyrir íslenskt efnahagslíf hefur síst minnkað á undanförnu ári. Hæpið má telja hvort þingmenn sem helst lögðust gegn samþykkt EES-samningsins, og töldu hann ónýtan eftir að Sviss heltist úr lestinni, vildu nú verða af þeirri hagsbót sem samningnum fylgir.

EES-samningurinn er ef til vill besta dæmið um þá samtvinnun utanríkis- og innanlandsmála sem einkennir nútímann og vikið var að hér í upphafi. Ef íslenskar vörur eiga að vera samkeppnisfærar á erlendum markaði, verður að miða alla framleiðslu og atvinnuhætti á Íslandi við það sem best gerist erlendis. Sá gæða- og öryggisstimpill sem fylgir þátttöku í samræmdu eftirlitskerfi getur unnið bug á þeirri tortryggni sem er í vegi nýrrar vöru inn á markað. Þetta gildir um hefðbundnar íslenskar útflutningsafurðir en jafnvel enn frekar þegar auka á fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.

EES-samningurinn tryggir Íslendingum aðgang að mörkuðum og setur samskipti okkar við Evrópusambandið í fastan farveg. Þó svo að Austurríki, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð verði að ósk sinni og þessi ríki fái aðild að Evrópusambandinu þegar árið 1995, verður hægt að byggja viðunandi samskiptamynstur okkar við aðrar evrópskar þjóðir á EES. Engin hætta er á því að efnahagsnauðir hrekji okkur inn í Evrópusambandið. Það leysir okkur hins vegar ekki undan þeirri kvöð að fylgjast grannt með innri þróun Evrópusambandsins og endurmeta með reglulegu millibili hvernig við sjáum hag okkar best borgið. Evrópusamband sem hefði innan vébanda sinna fleiri norrænar frændþjóðir; sem hefði sett alþjóðlegt viðskiptafrelsi á oddinn og hefði í verki sannað sveigjanleika í samningaviðræðum við önnur Norðurlönd og virðingu fyrir sérstöðu þeirra, gæti verið fýsilegri kostur en það er um þessar mundir. Æskilegt væri að fram færi fræðileg athugun, sem tæki til samanburðar á EES annars vegar og aðild að Evrópusambandinu hins vegar, séð frá ýmsum sjónarhornum. Ríkjaráðstefna Evrópusambandsins, sem ráðgerð er árið 1996, ræður úrslitum um það hvern farveg Evrópusamstarfið tekur þegar til lengri tíma er litið, en þangað til verður að nýta tímann til athugunar og umræðu.


 

NÝJAR ÁHERSLUR

Um þessar mundir er hagvöxtur hvergi meiri að jafnaði en í ríkjum Austur og Suðaustur-Asíu. Það er því ekki tilviljun ein að iðnríki Evrópu og Ameríku beina æ meir sjónum sínum þangað. Þjóðverjar hyggjast nú endurskipuleggja utanríkisþjónustu sína með aukna áherslu á Asíu í huga og af orðum Clintons Bandaríkjaforseta í Seattle nýlega mátti ráða að tengsl Bandaríkjanna yfir Kyrrahafið yrðu forgangsatriði hans stjórnar. Ísland, þótt smærra sé og fjarlægt, getur ekki leitt þessa þróun hjá sér frekar en stærri ríki. Ríki á þessu svæði eru ekki aðeins markaður með gífurlegan vaxtarþrótt og möguleika heldur má þess og vænta að þau muni beita sér æ meir á hinum pólitíska vettvangi. Það er því brýnt að huga að því hvernig hægt er að styrkja forsvar Íslands gagnvart ríkjum í Asíu. Utanríkisráðherra hefur því þegið boð um að heimsækja Asíuríki á næsta ári og hyggst í framhaldi af því leggja fram tillögur um það, hvernig best verði staðið að þessu verkefni íslenskrar utanríkisþjónustu.


 

LOKAORÐ

Á því breytingaskeiði, sem nú gengur yfir í alþjóðamálum, verður ekki hjá því komist að gerðar verði æ meiri kröfur til íslenskrar utanríkisþjónustu. Jafnframt valda krappar aðstæður þjóðarbúsins því að stuðla þarf að sem mestri skilvirkni og nýta til fullnustu starfskraft og sérþekkingu sem fyrir er. En meira þarf til. Í upphafsorðum var á það bent að landsmál og utanríkismál tengist nú margvíslegri og nánari böndum en nokkru sinni fyrr. Aðlögun íslensks þjóðfélags, með staðfasta lífshagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, er ekki viðfangsefni íslenskrar utanríkisþjónustu einvörðungu heldur einnig annarra stjórnvalda, ríkisstjórnar og Alþingis. Af þeim sökum er nauðsynlegt að stjórnvöld - og raunar allir Íslendingar - hvar í flokki sem þeir standa, taki höndum saman og freisti þess, til lengri tíma litið, að standa vörð um hagsæld þjóðarinnar í friði og öryggi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum