Sendiráðið í Nýja-Delí
  • Þórir Ibsen sendiherra í Brussel

3.9.2015

Svipmyndir frá Indlandi

Þá er liðið ár frá því að við Dominique komum til Indlands. Það var ekki lengi að líða. Ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar við stigum út úr flugvélinni á Indira Gandhi alþjóðaflugvellinum í Nýju-Delí, slæpt eftir langt næturflug. Það var þröngt setinn bekkurinn í flugvélinni og lítið pláss fyrir langa íslenska leggi. Kollegar okkar Haukur og Erna tóku vel á móti okkur, eins og þeirra er von og vísa. Fyrstu dagana hjálpuðu þau okkur að taka inn og skilja hinn margbrotna heim sem við vorum komin til. Við höfum farið víða hjónin, en fátt undirbýr mann fyrir Indland.

Hitinn var um 38 gráður á Celsíus og fór hækkandi, en eins og forveri minn orðaði það, maður hættir  að finna muninn þegar hitastigið fer yfir 37. Ég er ekki frá því að hann hafi nokkuð til síns máls. Í öllu falli komu orð hans upp í huga okkar ári síðar þegar hitinn sló í 50 gráður í forsælu.

En það verður ekki bara heitt í Nýju-Delí. Taktu með þér ullarteppið, sokkana og peysurnar sagði vinur minn sendiherra Indlands gagnvart ESB þegar hann kvaddi okkur. Til hvers spurði ég kampakátur, er Indland ekki í hitabeltinu? Ja sagði hann, það verður nefnilega býsna kalt í Delí í desember og janúar. Mikið vorum við fegin þessari ráðgjöf þegar nálgaðist jól.

Þórir og Dominique á fílsbaki á Indlandi

Það er ekki ofsögum sagt að Indland sé stórbrotið land andstæðnanna. Það er mörgu að venjast í landi sem hefur komið gervitungli á sporbraut Mars og þar sem álit stjörnuspekinga er leitað áður en dagsetning er ákveðin fyrir mikilvæga viðburði sem brúðkaup og viðskipti. Hér búa 1.2 milljarður manna. Hér eru fimm mikilfengleg trúarbrögð: hindúatrú, múhameðstrú, búddatrú, síkismi og jainismi. Hvert með sína hefð, liti og fas.

Á Indlandi býr gott fólk og þar er margt fagurt að sjá, enda á Indland sér mikla sögu og stórbrotna menningu því hér voru og eru mörg helstu siðmenningarsamfélög heims. En því er ekki að neita að fátæktin, örbirgðin, mengunin og sorpið geta verið yfirþyrmandi í þessari ofboðslegu mannþröng. Í Nýju-Delí einni búa rúmlega 22 milljónir.

Fátæktin er vissulega mikil og sýnileg en því má þó ekki gleyma að hér eru 400 milljónir sem búa við menntunarstig, efnahagskjör og væntingar sem við erum vön á Íslandi. Það er fleira fólk en í Evrópu þar sem heildarmannfjöldinn er rúmlega 500 milljónir, ríkir og fátækir. Í Norður Ameríku er sami fjöldinn tæplega 400 milljónir.

Aðgangur að 400 milljóna markaði er auðvitað mikilvægur fyrir íslenska viðskiptahagsmuni. Hagvöxtur á Indlandi er og hvað mestur af stóru nýmarkaðsríkjunum. Og það sem er sérstaklega athyglisvert er að árið 2020 verður Indland yngsta þjóð veraldar með 29 ára meðalaldur. Landið hreinlega iðar af ungu lífsglöðu fólki sem sækist eftir sömu lífsgæðum og við. Það eru tæplega 900 milljónir farsímar á Indlandi og tæplega 250 milljónir netverjar. Rúmlega 100 milljónir eru virk á samfélagsmiðlunum. Í þessu stærsta lýðræðisríki veraldar þyrpist nú yngri kynslóðin á samfélagsmiðlana þar sem ný og spennandi umræða er hafin um virkt lýðræði, jafnrétti, ofbeldi gegn konum og börnum, mengun og umhverfisvernd.

Í sendiráði Íslands í Nýju-Delí starfar gott fólk og hér er mörgu að sinna á sviði landkynningar, borgaraþjónustu, viðskipta og stjórnmálatengsla. Miklar breytingar standa fyrir dyrum á Indlandi bæði í stjórnsýslu og í viðskiptaumhverfinu, og hér virðast tækifærin vera endalaus á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, ferðaþjónustu, kvikmyndaiðnaðar, heilbrigðisþjónustu, líftækni, hönnunar, byggingariðnaðar, matvælaiðnaðar, stafrænnar upplýsingatækni og tölvuleikja, svo dæmi séu nefnd.

Það eru spennandi tímar framundan á Indlandi.

Þórir Ibsen er sendiherra í Nýju-Delí