Hoppa yfir valmynd
20. maí 2014 Utanríkisráðuneytið

Sjávarútvegssýningin í Brussel

Steinar Ingi Matthiasson

Sjávarútvegssýningin hér í Brussel er árviss viðburður og í mínum huga sannur vorboði. Það er alltaf tilhlökkunarefni að sækja sýninguna heim og fá þannig einstakt tækifæri til að sjá og upplifa alla þá miklu grósku, nýsköpun og kraft sem einkennir sjávarútveginn og um leið að fá innsæi í það sem helst er að gerast, og það út um allan heim, í þessari spennandi atvinnugrein.

Sjávarútvegssýningin í Brussel er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum en þá þrjá daga sem hún stendur sækja hana um 25.000 gestir en sýnendur og þátttakendur á sýningunni koma frá liðlega 140 löndum. Nú í ár voru íslenskir þjóðarbásar, með þátttöku um 30 fyrirtækja, skipulagðir í tuttugusasta og annað árið í röð. Það er Íslandsstofa sem heldur utan um þátttöku íslensku fyrirtækjanna af miklum myndarskap.

Komandi frá litla Íslandi þá fyllist ég alltaf miklu stolti að verða vitni að einstaklega glæsilegri og myndarlegri þátttöku okkar fólks á sýningunni og þess stóra sess sem þátttaka Íslands sannarlega hefur á sýningunni. Það er um leið holl og þörf áminning þess hve glæsilegur íslenskur sjávarútvegur er og hvað hann stendur fyrir miklu meira en hefðbundnar veiðar og vinnslu þar sem í kringum sjávarútveginn hafa sprottið og vaxið fjölmörg fyrirtæki sem koma að margþættri þjónustu við geirann. Fyrirtæki sem flest eru í fremstu röð á sínu sviði og eru í fararbroddi nýsköpunar og framfara. Mér finnst það því einstakt að sjá og upplifa þá miklu framsækni, hugvitsemi og færni sem er að baki þeirra framfara sem orðið hafa á allri tækni við meðhöndlun á afurðunum, frá veiðum til sölu til endaneytenda, allt til þess fallið að auka verðmætasköpun og gæði. Þessi vinkill, á íslenskan sjávarútveg, finnst mér stundum gleymast í, allt of oft, neikvæðu, dægurþrasi og pólitískum átökum um þessa grundvallarstoð velferðar og raun efnahagslegrar tilvistar okkar Íslendinga.

Í ár var það sérstakt ánægjuefni að sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sótti sýninguna heim og var gaman að fá tækifæri til að fylgja honum og sendiherranum, Þóri Ibsen, um sýningarsvæðið og í heimsóknum þeirra til íslensku sýnendanna. Það var augljóst að heimsókn ráðherra var alls staðar vel tekið.  Ráðherra sýnir þannig í verki stuðning sinn og áhuga fyrir því sem er að gerast í greininni og fær um leið einstakt tækifæri til að sjá, á einum stað, breiddina í því sem er að gerast í sjávarútveginum og þjónustu greinum við hann. Ég efast ekki um að sá kraftur, áræðni og framtíðarsýn sem einkennir þessa grein fyllir ráðherra málaflokksins, sem og okkur öll sem vinnum á þessu málefnasviði, krafti, áræðni og vilja til þess að leggja enn meira að mörkum og taka þátt í því að styðja við áframhaldandi velgengni og framfarir.

Þannig reynum við, sem störfum hér í sendiráðinu í Brussel, að leggja okkar lið við það að vinna að hagsmunagæslu Íslands á þessu sviði, sem öðrum, og vera þátttakendur í þeim fjölmörgu verkefnum sem daglega er sinnt sem öll miða að því að efla stöðu okkar sama hvort það er í aðkomu að mótun reglna á sviði EES samningsins og innleiðingu þeirra, vinnu við að auka og bæta markaðsaðgang íslenskra afurða inna á sameiginlegan markað ESB eða leiðbeina og aðstoða íslensk fyrirtæki í margháttuðum samskiptum og samvinnu við fyrirtæki og stofnanir innan ESB. Þó verkefnin séu fjölmörg, sannarlega ekki öll leyst, og alltaf megi gera betur má um leið halda því til haga að margt jákvætt hefur áunnist í gegnum tíðina. Farsæl, jákvæð og öflug samvinna okkar við samstarfsaðila í Evrópu hefur og mun um alla framtíð skipta okkur miklu máli enda um að ræða okkar stærsta og verðmætasta markaðssvæði.

Ég vona að eftir stranga þriggja daga törn þátttakenda á sýningunni hafi þeir farið héðan frá Brussel ánægðir með þátttökuna. Á sýningunni eru samankomnir lykilaðilar í greininni alls staðar að úr heiminum. Þátttaka og heimsókn á sýninguna er því lykill að því að hitta og viðhalda tengslum við viðskiptamenn sína, kynna þeim nýjungar en síðast en ekki síst að fylgjast með og kynnast nýjungum og síauknum kröfum markaðarins um heilnæmi og gæði, ábyrga nýtingu og rekjanleika afurða. Til að geta áfram verið í fararbroddi og framleitt hágæða eftirsóttar afurðir þurfum við Íslendingar að geta sagt áfram góða og sanna sögu og er sérstaða okkar mikil og öfundsverð. Ef við vöndum okkur áfram og stöndum þétt og stolt að baki íslenskum sjávarútvegi er framtíð okkar bæði björt og spennandi.

Steinar Ingi Matthíasson

Fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við sendiráð Íslands í Brussel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum