Hoppa yfir valmynd
16. maí 2014 Utanríkisráðuneytið

EES samstarf og áætlanir ESB

Ásgerður Kjartansdóttir

Ég er einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem notið hefur góðs af samstarfsáætlunum Evrópusambandsins. Árið 1997 fékk ég styrk úr Erasmus áætluninni til að fara til Umeå í norður-Svíþjóð þar sem ég dvaldi ásamt öðrum 150 alþjóðlegum háskólanemum í eina önn. Dvölin í Umeå var ógleymanleg lífsreynsla en á þessum tíma kynntist ég nýju fólki, tungumáli, menningu og kennsluaðferðum. Til gamans má geta þess að háskólabærinn Umeå er einmitt menningarborg Evrópu árið 2014.

Frá því að ég að ég tók þátt í Erasmus áætluninni hef ég fengið tækifæri til að starfa í alþjóðlegu umhverfi, fyrst sem útsendur sérfræðingur við stjórnardeild Evrópusambandsins sem fer með mennta- og menningarmál og nú í sendiráði Íslands í Brussel sem fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis. Starfið í sendiráðinu felst einkum í gæta hagsmuna Íslands og annarra EES/EFTA-ríkja m.a. með virkri þátttöku í starfi vinnuhópa EFTA og setu í stjórnarnefndum ESB. Miklu skiptir að vera í góðum samskiptum við framkvæmdastjórn og aðildarríki ESB, sérstaklega þegar ný löggjöf eða nýjar samstarfsáætlanir eru í undirbúningi sem munu hafa bein áhrif á íslenska þátttakendur.

Nýjum samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði mennta- og æskulýðsmála, vísinda- og nýsköpunarmála og menningar- og fjölmiðlamála var hleypt af stokkunum um síðustu áramót. Áætlanirnar nefnast Erasmus+, Horizon 2020 og Creative Europe. Á grundvelli EES samningsins hefur Ísland, ásamt hinum EES/EFTA-ríkjunum, tekið virkan þátt í samstarfsáætlunum ESB frá upphafi EES samstarfsins árið 1994. Í ár er því bæði haldið upp á 20 ára afmæli EES samningsins og þátttöku Íslands í áætlunum ESB.

Aðildarríki ESB bera sjálf ábyrgð á stefnumótun á sviði vísinda-, mennta-, menningar-, íþrótta og æskulýðsmála en ESB hefur stutt aðildarríkin með ýmsum hætti. Síðan á níunda áratugnum hafa samstarfsáætlanir á þessum sviðum verið starfræktar með það að markmiði að auka hreyfanleika fólks í Evrópu og styðja samstarf þjóða.

Þátttaka í lykiláætlunum og verkefnum ESB hafa ekki bara haft fjárhagslegan ávinning í för með sér fyrir Ísland heldur hefur hún einnig eflt alþjóðlegt vísinda-, mennta og menningarsamstarf og þannig stutt við innlenda stefnumótun. Rík áhersla hefur verið lögð jafningjafræðslu og jafningjamat, sem skilar ekki síður árangri. Á dögunum var einmitt gerð úttekt á vísinda- og nýsköpunarkerfinu á Íslandi af finnskum, hollenskum og írskum sérfræðingum og verður spennandi að sjá niðurstöður úttektarinnar þegar þær liggja fyrir í sumar.

Íslenskar mennta- og vísindastofnanir starfa og á evrópsku háskóla- og rannsóknasvæði sem hefur skapað mikilvæg sambönd og samstarfsnet . Allir háskólar og nánast allir framhaldsskólar á Íslandi hafa tekið þátt í evrópskum samstarfsverkefnum eða hlotið styrki úr samstarfsáætlunum og svo hafa margir grunn- og leikskólar. Í samtölum við þátttakendur í samstarfsáætlunum ESB er ljóst að hinn „þekkingarlegi“ ávinningur af samstarfinu er mikilvægastur auk þess sem því fylgir að jafnaði aukin starfsánægja að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.

Ráðið hefur nýlega samþykkt þátttöku EES ríkjanna í Horizon 2020, Erasmus+ og Creative Europe og stefnt er að því staðfesta þessa ákvörðun á fundi sameiginlegu EES nefndarinnar í dag 16. maí. Vonandi verður reynsla og árangur Íslands í nýjum samstarfsáætlunum ESB eins góð og hingað til.

Það eru landsskrifstofurnar Rannís og Evrópa unga fólksins (Ungmennafélag Íslands) í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og framkvæmdastjórn ESB sem annast rekstur samstarfsáætlana ESB á sviði mennta-, menningar- og vísindamála á Íslandi.

Ásgerður Kjartansdóttir er sendiráðunautur í Brussel

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum