Hoppa yfir valmynd
21. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Flókin staða í Úkraínu - en samt einföld

Auðunn Atlason

Hvað gerir fulltrúi ríkis á alþjóðavettvangi þegar fréttir berast af því að grímuklæddir vopnaðir hermenn hafi komið í þúsundatali yfir landamærin úr stóru nágrannaríki og lokað hluta landsins? Hvað er til ráða þegar þjóðþing stórveldis samþykkir heimild til að beita hervaldi gegn landinu þínu?  Hvað er hægt að segja þegar hernaðaríhlutun er yfirvofandi, ef ekki hafin?

Þetta er staðan sem Ihor Prokopchuk, fastafulltrúi Úkraníu hjá ÖSE, stóð frammi fyrir um síðustu mánaðamót vegna ástands mála á Krímskaga. Daglega hefur úkraínska fastanefndin komið upplýsingum á framfæri um stöðuna til fulltrúa þeirra 56 ríkja sem auk Úkraínu eiga aðild að ÖSE, þ. á m. til Íslands. Fulltrúar Rússlands hafa sömuleiðis lýst sjónarmiðum sinna stjórnvalda. 

Hér nýtist samstarfið á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Samvinnan innan ÖSE er ólík samstarfinu á vettvangi NATO og ESB vegna þess að bæði Rússland og Úkraína eru beinir aðilar að stofnuninni, eins og meira eða minna öll Evrópuríki, auk Bandaríkjanna og Kanada. Styrkurinn liggur í breiddinni og í því að vera vettvangur fyrir samtal og samráð. Einkum þegar illa gengur. Á það hefur sannarlega reynt að undanförnu. 

Fastaráð ÖSE hefur fundað nær daglega síðustu tvær vikur. Á fundum sem sumir hafa verið opnir fjölmiðlum hefur Ihor lýst afstöðu úkraínskra stjórnvalda og fordæmt ólöglega íhlutun Rússlands í málefni Úkraínu. Ihor nýtur virðingar innan ÖSE eftir að hafa stýrt fundum fastaráðsins allt síðasta ár þegar Úkraína var í formennsku stofnunarinnar. Það kemur honum til góða við núverandi aðstæður. 

Fulltrúar Rússlands –sem fyrir gráglettni örlaganna sitja beint á móti Úkraínu við hringborðið í ÖSE (sumir segja kuldann yfir fundarsalinn nánast áþreifanlegan) –hafa neitað því að vopnuðu hermennirnir séu á þeirra vegum. Rússland lýsir áhyggjum af því að rússneski minnihlutinn sé í hættu vegna þess sem þeir kalla „fasíska ógnarstjórnar" í Kiev, og rökstyður þaðm.a. með því að nefna að rússneska hafa verið bönnuð í Úkraínu.

Ihor svarar af ískaldri fagmennsku. Hann frábiður hann sér tal um fasisma, harmar að lögð hafi verið fram tillaga um breytingu á tungumálalögum landsins en bendir um leið á að hún hafi hafi nú verið dregin tilbaka. Hann bætir við að íbúum Úkraínu sé frjálst að tala það tungumál sem þeir kjósa –og heldur áfram með ávarp sitt á rússnesku því til undirstrikunar. „Vel gert“ tvítar Dan Baer fastafulltrúi Bandaríkjanna eftir fundinn. 

Ungverjaland og Tékkland hafa í umræðunni um beitingu hervalds á Krímskaga vísað í ártölin 1956 og 1968 þegar sovéskir skriðdrekar óku inn í Búdapest og Prag og rifja upp að þá hafi yfirlýstur tilgangur verið að vernda rússneska minnihlutahópa. Maður skynjar alvöruna ekki síður í máli Eystrasaltsríkjanna, en líka Moldóvu og Georgíu, svo dæmi séu nefnd af grannríkjum Rússlands sem horfa vitaskuld til þess fordæmis sem kann að vera að skapast á Krímskaga. 

 

 © OSCE

Alls staðar í ÖSE-kerfinu er rætt um leiðir til að koma í veg fyrir að átök brjótist út, draga úr spennu. Það er tilgangur stofnunarinnar sem á rætur sínar að rekja til Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975 þegar ríkin sitt hvoru megin við járntjaldið urðu ásátt um ákveðin grundvallargildi á sviði öryggis- og mannréttindamála. Efst á blaði var og er prinsippið um friðsamlega lausn deilumála og friðhelgi landamæra. Því miður hefur hvort tveggja verið þverbrotið í Úkraínu. 

Hin 57 aðildarríki ÖSE vinna saman sem heild en líka í smærri hópum, bæði út frá landafræðinni og aðild að öðrum alþjóðastofnunum. Norðurlöndin vinna náið saman og Ísland á einnig formlegt samstarf með Kanada, Sviss, Noregi og Liechtenstein í svo kölluðum líkt-þenkjandi hópi sem á vikulega fundi með Bandaríkjunum, Rússlandi og formennskuríkinu í ÖSE. Ísland tekur líka virkan þátt í samráði NATO-ríkja innan ÖSE og styður jafnan málflutning ESB enda eru þetta mikið til sömu ríkin. 

Á kvöldin rapporterum við Ingibjörg Davíðsdóttir varafastafulltrúi heim í ráðuneytið um atburði dagsins og berum saman bækur okkar við fulltrúa Íslands hjá öðrum alþjóðastofnunum (SÞ, NATO, ESB) og eftir atvikum sendiráðum okkar í helstu höfuðborgum. Alþjóðlegri samvinnu má líkja við mósaíkmynd. Maður verður að setja hana saman úr mörgum steinum til að hún verði skýr. 

Stundum er sagt að málefni Úkraínu séu flókin og að margt sé í mörgu. Já og nei. Vissulega er saga Krímskaga margslungin. Vissulega eru rússneskumælandi minnihlutahópar víða í nágrannaríkjum Rússlands og vitaskuld þarf að gæta réttinda þeirra, eins og mannréttinda allra minnihlutahópa. Eins má skrifa langar ritgerðir um þversagnir í stefnu vesturlandanna í tímans rás - og allt flækir þetta málin.

En um leið er staðan einföld. Úkraínumálið snýst fyrst og síðast um það hvort beiting hervalds sé lögmæt eða ásættanleg leið við að breyta landamærum á 21. öld. Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og þjóðarbrota hefur verið viðfangsefni um aldir og er til úrlausnar miklu víðar en á Krímskaga. En lausnin verður að felast í samtali og samningum, ekki í hernaði eða hótunum. Út á þetta gekk beinlínis stofnun SÞ eftir hrylling síðari heimsstyrjaldar –og síðar tilkoma ÖSE í kalda stríðinu miðju. Það er því heilmikið í húfi. 


Auðunn Atlason er  fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum