Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Íslensk menning gerir það gott í Frakklandi

Nína Björk Jónsdóttir
Nína Björk Jónsdóttir

Menning hefur ætíð skipað stóran sess í starfi sendiráðsins í París og hafa Frakkar mjög mikinn og einlægan áhuga á Íslandi sem hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár. Áhuginn snýr bæði að landinu sjálfu, sem þykir framandi og heillandi, en einnig að íslensku þjóðinni, menningu og listum.

Sendiráðið stendur reglulega fyrir menningarviðburðum og í hverri viku fáum við tölvupósta eða símtöl frá fólki í umdæmislöndunum okkar (sem eru samtals níu talsins) sem brennur af áhuga og er að skipuleggja viðburði, litla eða stóra, tileinkaða íslenskri menningu. Stundum eru þetta lista- eða menningarhátíðir, gallerí eða söfn sem vilja bjóða íslenskum þátttakendum að koma fram eða litlir leshringir eða bókmenntafélög.  

Sendiráðið leggur sig að sjálfsögðu í líma við að aðstoða og styðja slíkt frumkvæði. Gjarnan er óskað aðstoð eftir kynningu frá starfsfólki sendiráðsins, uppskriftum af réttum sem myndu henta vel undir upplestri íslenskra bóka (við erum nú einu sinni í matarlandinu Frakklandi), ábendingum um íslenskar kvikmyndir með frönskum texta, upplesara eða annað. Við eigum gott samstarf við kynningarmiðstöðvar einstakra listgreina á Íslandi og menningarfulltrúa utanríkisráðuneytisins við skipulagningu og val á verkefnum sem sendiráðið tekur þátt í.

Menning er lykill að skilningi milli þjóða

Áhuginn á norrænni menningu hefur ætíð verið hvað mestur í norðanverðu Frakklandi, einkum Normandie. Það kemur kannski ekki á óvart þar sem víkingar létu þar til sín taka á öldum áður og settust margir að á svæðinu eins og nafn héraðsins gefur til kynna. Síðustu 22 ár hefur verið haldin þar menningarhátíðin Les Boréales sem er tileinkuð norrænni menningu. Hátíðin er í dag stærsta árlega hátíðin á meginlandi Evrópu sem er tileinkuð menningu Norðurlandanna og nú einnig Eystrasaltsþjóðanna.

Í nóvember síðastliðnum var Ísland í heiðurssætinu á Boréales hátíðinni ásamt Litháen og var þá boðið upp á sannkallaða menningarveislu í tvær vikur þar sem á fjórða tug íslenskra listamanna steig á stokk. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra opnaði hátíðina og fjallaði í ræðu sinni um mikilvægi menningar í verkefni utanríkisþjónustunnar að gæta hagsmuna Íslands og íslensku þjóðarinnar. Menning væri lykillinn að skilningi milli þjóða og á það svo sannarlega við hér í Frakklandi. Og þar sem leiðin að hjarta Frakka liggur í gegnum munninn var 500 opnunargestum í kjölfar ræðunnar boðið upp á ljúffenga fiskisúpu sem Friðrik Sigurðsson matreiðslumeistari með stóru m-i töfraði fram.

Innlifun Höfundur: Agence-Franck-Castel-Photographies

Hjaltalín - Agence Franck Castel Photographies


Í síðustu viku hófst einn af hátindum íslenska menningarársins, Air d‘Islande hátíðin sem nú er haldin sjötta árið í röð. Næstu tvær vikur verður því íslensk tónlist, kvikmyndir, leiklist og margt fleira á boðstólnum. Ari Allansson er forsprakki hátíðarinnar, sem hefur á hverju ári undið upp á sig og vaxið fiskur um hrygg. Það er til marks um þann sess sem hátíðin hefur unnið sér að í ár fór opnunarkvöldið fram í hinu rómaða nútímalistasafni Parísarborgar Pompidou. Þar sýndi Ásdís Sif Gunnarsdóttir vídeóverkið „Surrounded by the purest blue, I welcome you“. Var þar um að ræða samstarf Air d‘Islande hátíðarinnar við Hors Pistes hátíðina í Pompidou og Reykjavík International Film Festival - RIFF. Hafa þessar þrjár hátíðir þegar ákveðið að halda samstarfinu áfram þannig að næsta ár mun annar íslenskur listamaður koma og sýna verk sín bæði á RIFF og Hors Pistes í Pompidou.

Af öðrum stórum og mjög svo spennandi viðburðum á árinu sem er að hefjast má nefna að Erró mun halda sýningu á verkum sínum í Menningarmálastofnun UNESCO í maí þar sem einnig verður boðið upp á íslenska tónlist. Erró er stórt nafn í myndlistarheiminum í Frakklandi eins og alþjóð veit og verður opnunin sama dag og Fransk-íslenska viðskiptaráðið fundar í París. Þetta er gott dæmið um hvernig menning og aðrir þættir í starfi sendiráðsins geta spilað saman og stutt hvort annað.

Norðurlöndin eiga afar gott samstarf á sviði menningarmála í París. Danir, Finnar og Svíar eiga menningarstofnanir í París og hafa þeir opnað dyrnar fyrir norrænu samstarfi. Síðasta vetur stóðum við fyrir þremur sameiginlegum viðburðum undir heitinu „Autumn Nordique“ eða norrænt haust. Þannig hélt Latínusveit Tómasar R. Einarssonar m.a. dúndrandi tónleika fyrir fullu húsi í Finnsku menningarstofnuninni.

Tómas R. og félagar - Virginie Le Borgne

Tómas R. og félagar - Virginie Le Borgne

Íslenskir rithöfundar gera það gott

Íslenskir rithöfundar eru að gera það sérstaklega gott um þessar mundir í Frakklandi. Hér er mjög stór markaður fyrir þýddar bækur og eru um 60% af öllum þýðingum sem koma út í Frakklandi bókmenntaverk. Frakkar lesa mjög mikið, enda nota margir almenningssamgöngur og í neðanjarðarlestinni og strætó hefur annað hver maður andlitið grafið ofan í bók.

Það kemur fyrir að maður sjái fólk handleika þar bækur Arnaldar Indriðasonar, Jón Kalmans Stefánssonar, Auðar Övu Ólafsdóttur eða annarra íslenskra höfunda og þá fyllist íslenska hjartað óneitanlega stolti. Þessir höfundar eiga stóran aðdáendahóp og virðist sem hinn rammíslenski Erlendur og ljóðrænar frásagnir Jón Kalmans á lífinu á Íslandi fyrr á öldum snerti sérstakan streng í brjóstum franskra lesenda.

Frakkar spæna í sig norrænar glæpasögur eins og svo margar aðrar þjóðir um þessar mundir. Í október síðastliðnum stóðu Norðurlöndin í sameiningu fyrir glæpabókmenntaþingi í París „Noir Nordique“ þar sem Katrín Jakobsdóttir, Óttar Norðfjörð og Stefán Máni voru fulltrúar Íslands. Undirtektirnar voru mjög góðar en færri komust að en vildu á suma viðburðina. Og það eru stórir bókmenntaviðburðir framundan. Í maí á þessu ári verða norrænar bókmenntir í öndvegi á stórri bókmenntahátíð í Montpellier „Comédie du Livre“ sem þá verður haldin í 29. skiptið. Er nú þegar búið að bjóða níu íslenskum höfundum til leiks og ljóst að þar stefnir í afar áhugaverða hátíð.

Til marks um vinsældir íslenskra bókmennta hér nefna að mér sýnist að árið 2013 hafi komið út franskar þýðingar á verkum a.m.k. 18 íslenskra höfunda! En það er ekki nóg að góðar bækur séu skrifaðar. Má segja að lykillinn að velgengni íslenskra höfunda á erlendri grundu sé að til séu góðir þýðendur. Íslenska er í dag kennd við tvo háskóla í Frakklandi, Svartaskóla eða Sorbonne í París þar sem Bjarni Benedikt Björnsson er sendikennari. Þá er íslenska einnig kennd í Caen þar sem Hanna Steinunn Þorleifsdóttir forstöðumaður norrænu deildarinnar kennir íslensku, en þar þurfa allir nemendur sem læra norræn mál að taka áfanga í íslensku.

Verkefnin í sendiráðinu í París eru ærin og afar fjölbreytt. Ég prísa mig sæla að hafa menninguna ásamt ýmsu öðru á mínu borði, enda einstaklega gefandi og skemmtilegt verkefni. Samkvæmt nýlegri könnun sem utanríkisráðuneytið lét gera telja 35% landsmanna að kynning á íslenskri menningu eigi að vera megináhersla utanríkisþjónustunnar. Það er ánægjulegt að sjá þennan áhuga heima á því að koma íslenskri menningu á framfæri erlendis og einnig þær góðu móttökur sem íslensk menning hlýtur hér í Frakklandi.

Nína Björk Jónsdóttir er sendiráðunautur í sendiráði Íslands í París

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum