Solvit

SOLVIT

Lausnarkerfi innri markaðarins

Solvit logo


SOLVIT er gagnagrunnur á Netinu sem settur hefur verið upp af ESB og Ísland tekur þátt í gegnum EES samstarfið. Honum er ætlað að leysa vandamál sem koma upp hjá einstaklingum eða fyrirtækjum vegna þess að reglum um innri markaðinn er ekki beitt á réttan hátt innan EES svæðisins.

SOLVIT er notendavæn þjónusta, án endurgjalds, sniðin til þess að hjálpa EES-borgurum og fyrirtækjum til þess að finna fljótvirkar og gagnlegar lausnir á vanda þeirra sem tengjast hinum innri markaði.

SOLVIT er netkerfi 30 miðstöðva sem vinna saman að því að finna lausnir á vanda sem kemur upp vegna þess að innlend stjórnvöld beita ESB-lögum með röngum hætti. SOLVIT-miðstöð er að finna í öllum ESB-löndum og á Íslandi, í Liechtenstein og í Noregi.

 

SOLVIT getur hjálpað:

·         Þegar vandi nær yfir landamæri

·         Þegar vandi orsakast af rangri beitingu ESB-laga

·         Þegar vandinn varðar opinbert lands- eða héraðsyfirvald eða yfirvald í sveitarfélagi.

 

SOLVIT getur tekið mál til meðferðar sem fyrrnefndar þrjár viðmiðanir gilda um. Dæmi um mál sem SOLVIT hefur fjallað um hingað til eru:

 

Ríkisborgarar:                                                    Fyrirtæki: 

Dvalarleyfi                                                             Markaðsaðgangur fyrir vörur

Viðurkenning starfsmenntunar og hæfi          Þjónustustarfsemi

Skráning vélknúinna ökutækja                         Að hefja sjálfstæða atvinnustarfsemi

Atvinnuréttindi                                                      Opinber innkaup

Almannatryggingar                                             Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Skattlagning                                                         Frjálsir fjármagnsflutningar

Ökuskírteini                                                          Landamæraeftirlit

 

SOLVIT getur ekki hjálpað:

·         Ef málarekstur er hafinn fyrir dómi

·         Ef vandi kemur upp í samskiptum fyrirtækja

·         Ef vandi kemur upp í samskiptum neytanda og fyrirtækis.

 

Kvartanir koma því frá einstaklingum eða fyrirtækjum og beinast gegn stjórnvöldum í tilteknu EES landi. Ef ekki reynist unnt að leysa vandann eða viðkomandi telur að sú lausn sem lögð er til sé ótæk, er engu að síður hægt að höfða mál fyrir innlendum dómstóli eða leggja fram formlega kvörtun hjá Eftirlitsstofnun EFTA.

Gangur máls er þannig að SOLVIT miðstöð í heimalandi umkvörtunaraðila (utanríkisráðuneytinu á Íslandi) skráir viðeigandi kvörtun í miðlægan gagnagrunn á Netinu eftir að hafa borist kvörtun, t.d. í tölvupósti, með símtali eða með bréfi. SOLVIT miðstöðin í því ríki sem kvartað er yfir, ber ábyrgð á lausn vandamálsins og fær sjálfkrafa tölvupóst um að mál hafi verið skráð í gagnagrunninn. Miðstöðin í því ríki sem kvartað er yfir, sér um að senda málið áfram til viðeigandi aðila innan stjórnsýslunnar, uppfæra gagnagrunninn og upplýsa um gang málsins.

Frestur ríkisins sem kvartað er yfir, til að leysa úr málinu er aðeins 10 vikur. Kvörtunaraðili fær aðgangsorð og getur fylgst með framgangi máls síns á Netinu. Nafn hans kemur fram í gagnagrunninum en hægt er að óska nafnleyndar.

 

Hægt er að leggja fram kvörtun með eftirfarandi hætti:

·         Fylla út kvörtunareyðublað á Netinu

·         Senda kvörtun eða fyrirspurn með tölvupósti

·         Koma kvörtun á framfæri símleiðis við fulltrúa SOLVIT miðstöðvarinnar í síma 545-9900

 

SOLVIT miðstöðin á Íslandi er staðsett í utanríkisráðuneytinu og hefur netfangið: solvit@utn.stjr.is.