Loftferðasamningar

Loftferðasamningar

Ísland hefur í árslok 2014 gert 88 loftferðasamninga við önnur ríki. Eftirfarandi er yfirlit um inntak þessara samninga þar sem greina má efni þeirra á einfaldan hátt. Yfirlitinu er ætlað að auðvelda flugrekendum að meta hvernig einstakir samningar nýtast í markaðssókn á tiltekin svæði. Greiningin byggist á yfirferð um efni allra samninga og viljayfirlýsinga (MoU) sem gerðar hafa verið en það eru alls 81 samningur ef með eru taldir tveir samningar við Kanada, tveir samningar vegna aðildar að loftferðasamningi ESB og BNA, Norðurlandasamningurinn, EES/EFTA og þrjár viljayfirlýsingar (MoU). Í þessu eru taldir með 10 samningar við ESB ríki og Sviss en heimildir eru til flugs til allra ESB ríkjanna 28. Þannig að heimilt er flug til 18 annarra ríkja án sérstakra samninga. Þá hafa réttindi til flugs út fyrir ESB verið rýmkuð frekar með 15. gr. reglugerðar nr. 1008/2008, um flugrekstur innan ESB. Samningar heimila því nú viðskiptaflug til 98 ríkja (88-3+18) auk viljayfirlýsinga milli 3ja ríkja eða til 101 ríkis alls. Viljayfirlýsingarnar eru ekki birtar við fullgildingu samninganna en þar koma að öðru jöfnu fram samningsforsendur og nánari skýringar sem geta gefið veigamikla vísbendingu um réttindi sem af samningi leiða.