Fríverslunarsamningar

Fríverslunarsamningur milli Íslands og Færeyja

Svonefndur Hoyvíkur samningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar var undirritaður í samnefndum bæ í Færeyjum 31. ágúst 2005.

Fram til þess tíma var í gildi samningur frá árinu 1992 sem var aðeins hefðbundinn fríverslunarsamningur og var vörusvið hans takmarkað við viðskipti með iðnaðarvörur og sjávarafurðir. Í ljósi hinna nánu tengsla milli Íslands og Færeyja var áhugi meðal beggja aðila á því að þróa samstarf landanna tveggja nánar á viðskiptasviðinu. Árið 2002 var því ákveðið að hefja samningaviðræður við Færeyinga um gerð nýs samnings milli Íslands og Færeyja sem hefði það að markmiði að dýpka og breikka viðskiptasamstarf þjóðanna. Samningaviðræður hófust á vormánuðum 2003 og lauk 23. maí 2003. Samningurinn var síðan undirritaður 31. ágúst við hátíðlega athöfn í Hoyvík í Færeyjum af Davíð Oddssyni, þáverandi utanríkisráðherra Íslands, og Jóannesi Eidesgaard, lögmanni Færeyja.

Markmið Hoyvíkur-samningsins er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Tekur samningurinn til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, staðfesturéttar; samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Mælir samningurinn fyrir um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs, staðfestustaðar eða upprunastaðar vöru innan efnislegs gildissviðs hans. Þannig skulu Íslendingar og íslensk fyrirtæki njóta sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar – og gagnkvæmt. Má því færa rök fyrir því að samningur þessi sé einn víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert.

Samningurinn tekur einnig til fullrar fríverslunar með landbúnaðarvörur. Neysluvenjur í Færeyjum eru um margt líkar neysluvenjum hér á landi en landbúnaður í Færeyjum hefur ekki náð að sinna eftirspurn eftir neyslu landbúnaðarvara þar í landi. Af þeim sökum er talsverður markaður í Færeyjum fyrir íslenskar landbúnaðarvörur.

Við gerð samningsins var um margt leitað í smiðju samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) og eiga mörg ákvæði samningsins því sér beina fyrirmynd í ákvæðum EES-samningsins. Hins vegar felur samningurinn ekki í sér samræmingu löggjafar samningsaðila á þeim sviðum sem samningurinn tekur til.

Framkvæmd samningsins er í höndum sameiginlegrar nefndar samningsaðila. Jafnframt mælir samningurinn fyrir ráði samningsaðila sem skipað skuli ráðherrum frá Íslandi og Færeyjum sem er ætlað að vera pólitískur hvati við framkvæmd þessa samnings og vera sameiginlegu nefndinni til leiðsagnar við störf hennar.

Færeyjar eru mikilvægur og vaxandi markaður fyrir ýmsar íslenskar vörur og íslensk fyrirtæki. markmið samningsins er að stuðla að auknum viðskiptum milli landanna tveggja jafnframt því sem honum er ætlað að skapa ramma utan um aukna samvinnu milli landanna á ýmsum sviðum, m.a. í menningarmálum, orkumálum, umhverfismálum, heilbrigðismálum, fjarskiptum, ferðaþjónustu og norðurslóðamálum

***** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** **** ****


SAMNINGUR MILLI RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS ANNARS VEGAR OG RÍKISSTJÓRNAR DANMERKUR OG
HEIMASTJÓRNAR FÆREYJA HINS VEGAR


Ríkisstjórn Íslands annars vegar og ríkisstjórn Danmerkur og heimastjórn Færeyja hins vegar,

sem nefnast hér á eftir SAMNINGSAÐILARNIR,

VILJA auka efnahagstengsl milli Íslands og Færeyja og samræma þróun í efnahagsmálum,

LEGGJA ÁHERSLU á sanngjörn samkeppnisskilyrði á sameinuðum markaði án tollabandalags,

ERU STAÐRÁÐNAR Í að láta efnahagstengsl sín taka almennt til allra geira atvinnulífsins,

ERU STAÐRÁÐNAR Í að þróa og auka samvinnu sín á milli á öðrum sviðum,

HAFA ÁKVEÐIÐ að afnema allar hindranir varðandi efnahagstengsl milli Íslands og Færeyja innan efnislegs gildissviðs þessa samnings.
° Bókanir

1. gr.
Markmið.

Markmiðið með þessum samningi er að mynda eitt efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja þar sem mismunun á grundvelli ríkisfangs, staðfestustaðar eða upprunastaðar vöru er bönnuð innan efnislegs gildissviðs þessa samnings.

2. gr.
Gildissvæði samningsins.

    Samningur þessi tekur til yfirráðasvæða Íslands og Færeyja.
    Hverjar þær ráðstafanir, sem samningsaðilar ákveða sjálfir að gera samkvæmt þessum samningi, skulu takmarkast við yfirráðasvæði annaðhvort Íslands eða Færeyja og einstaklinga þar, eins og skilgreint er í bókun 1, og lögaðila sem þar hafa lögheimili.
    Ákvæði þessa samnings gilda um flutninga milli Íslands og Færeyja á vörum, sem eru upprunnar á yfirráðasvæði Íslands eða Færeyja, og á þjónustu og fjármagni sem einstaklingar á Íslandi eða í Færeyjum, eins og skilgreint er í bókun 1, eða lögaðilar með lögheimili á Íslandi eða í Færeyjum, láta í té.

3. gr.
Efnislegt gildissvið.

    Ef annað er ekki tekið fram í samningnum tekur hann til:
    a) vöruviðskipta;
    b) þjónustuviðskipta;
    c) frjálsrar farar fólks og búseturéttar;
    d) fjármagnsflutninga og fjárfestinga;
    e) staðfesturéttar;
    f) samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa;
    g) samvinnu á öðrum sviðum, eins og kveðið er á um í 7. gr.

4. gr.
Bestukjarameðferð.

    Hvor samningsaðili skal, innan gildissviðs þessa samnings, veita einstaklingum og lögaðilum hins samningsaðilans og þeim vörum, sem eru upprunnar innan gildissvæðis þessa samnings, eigi lakari meðferð en þeir veita einstaklingum og lögaðilum annarra landa og vörum sem eru upprunnar utan gildissvæðis þessa samnings.

5. gr.
Innlend meðferð.

    1.    Innan gildissviðs þessa samnings
        A.    er hvers konar mismunun milli íslenskra og færeyskra einstaklinga á grundvelli ríkisfangs, eins og það er skilgreint í bókun 1, bönnuð,
        B.    er hvers konar mismunun milli lögaðila, með lögheimili innan gildissvæðis þessa samnings, á grundvelli staðfestustaðar bönnuð,
        C.    er hvers konar mismunun milli vöru, sem er upprunnin innan gildissvæðis þessa samnings, á grundvelli upprunastaðar bönnuð.
    2.    Við beitingu þeirrar meginreglu, sem er að finna í 1. mgr., skuldbinda samningsaðilarnir sig m.a. til eftirfarandi:
        A.    Með hliðsjón af vöruviðskiptum:
                i.    Hvers konar mismunun við meðferð á vöru, að lögum eða í reynd, á grundvelli uppruna hennar er bönnuð.
                ii.    Magntakmarkanir, hverju nafni sem þær nefnast eða af hvaða ástæðu sem er, og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðar.
                iii.    Tollar, hverju nafni sem þeir nefnast eða af hvaða ástæðu sem er, eru bannaðir, svo og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif.
                iv.    Allar vörur sem hafa verið markaðssettar með lögmætum hætti einhvers staðar innan gildissvæðis þessa samnings skulu falla undir ákvæði þessarar greinar með fyrirvara um skilyrði er varða almennt siðgæði og öryggi.
                v.    Í bókun 2 við þennan samning er að finna viðeigandi upprunareglur.
                vi.    Í bókun 3 við þennan samning er að finna reglur um samvinnu samningsaðilanna á sviði tollamála og einfaldaðrar tollmeðferðar.
        B.    Með hliðsjón af þjónustuviðskiptum:
                i.    Hvers konar mismunun, að lögum eða í reynd, gagnvart þjónustuveitanda annars samningsaðilans, sem starfar á yfirráðasvæði hins samningsaðilans, er bönnuð.
                ii.    Með fyrirvara um ákvæði i. liðar hér að framan skulu einstaklingar eða lögaðilar samningsaðila, sem starfa á yfirráðasvæði hins samningsaðilans, uppfylla sömu skilyrði og einstaklingum eða lögaðilum þess samningsaðila ber að uppfylla samkvæmt landslögum hans.
        C.    Með hliðsjón af frjálsri för fólks og búseturéttar:
                i.    Hvers konar mismunun, að lögum eða í reynd, varðandi búseturétt eða frjálsa för fólks er bönnuð, eins og nánar er kveðið á um í bókun 4 við þennan samn ing.
                ii.    Veita skal aðgang að skólum, háskólum og öðrum fræðslustofnunum án mismununar.
                iii.    Samningsaðili skal viðurkenna sambærileg prófskírteini og annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi, sem fenginn er á yfirráðasvæði hins samningsaðilans, eins þau hefðu verið gefin út á hans eigin yfirráðasvæði. Viðurkenning slíkra prófskírteina og vitnisburðar um formlega menntun og hæfi skal í engu vera lakari en sú viðurkenning, sem veitt er vegna sambærilegra prófskírteina og vitnisburðar um formlega menntun og hæfi, sem aðili utan þessa samnings gefur út.
                iv.    Eftir þriggja ára búsetu íslenskra einstaklinga í Færeyjum og færeyskra einstaklinga á Íslandi öðlast viðkomandi einstaklingur kjörgengi og kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum.
        D.    Með hliðsjón af fjármagnsflutningum og fjárfestingum:
                i.    Hvers konar mismunun, að lögum eða í reynd, varðandi frelsi til fjármagnsflutninga eða fjárfestinga, á grundvelli ákvörðunarstaðar fjármagnsins eða fjárfestingastaðar, hvar sem er innan gildissvæðis þessa samnings, er bönnuð.
        E.    Með hliðsjón af staðfesturétti:
                i.    Hvers konar mismunun, að lögum eða í reynd, varðandi staðfesturétt er bönnuð.
        F.    Með hliðsjón af samkeppni:
                i.    Hvers konar mismunun í samkeppnisreglum eða við beitingu þeirra er bönnuð.
                ii.    Samkeppnisyfirvöld samningsaðilanna skulu, í því skyni að tryggja frjáls viðskipti og sanngjörn samkeppnisskilyrði á efnahagssvæðinu sem stofnað er með þessum samningi, starfa saman, skiptast á upplýsingum og hafa með sér samráð um eftirlit, bæði almennt og, eftir því sem við á, vegna einstakra mála.
                iii.    Telji samningsaðili að um sé að ræða undirboð útflytjanda hjá hinum samningsaðilanum á tiltekinni framleiðsluvöru, eins og það er skilgreint í viðeigandi ákvæðum samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), er þeim samningsaðila, sem fyrir þessu verður, heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við VI. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti frá 1994. Samningsaðilinn, sem fyrir þessu verður, skal senda hinum samningsaðilanum skriflega tilkynningu og veita 30 daga samráðsfrest til að finna lausn sem báðir aðilar geta unað við.
        G.    Með hliðsjón af ríkiseinkasölu:
                i.    Ríkiseinkasölur samningsaðila skulu í rekstri sínum ekki veita mismunandi meðferð, að lögum eða í reynd.
        H.    Með hliðsjón af ríkisaðstoð:
                i.    Ríkisaðstoð eða aðstoð fyrir tilstilli ríkis, í hvaða formi sem er, til handa atvinnustarfsemi, sem er, að öllu leyti eða að hluta, á yfirráðasvæði samningsaðila, skal veitt á því yfirráðasvæði án mismununar.
                ii.    Komist samningsaðili að þeirri niðurstöðu að ríkisaðstoð hins samningsaðilans eða aðstoð fyrir tilstilli hans raski eða gæti raskað samkeppni með því að hygla tilteknum fyrirtækjum eða geirum er honum heimilt að leggja málið fyrir sameiginlegu nefndina í samræmi við 8. gr.
        I.        Með hliðsjón af opinberum innkaupum:
                i.    Hvers konar mismunun, að lögum eða í reynd, varðandi opinber innkaup er bönnuð.
        J.        Með hliðsjón af viðskiptum með landbúnaðarvörur:
                i.    Ef innflutningur á tilteknum landbúnaðarafurðum í köflum 1, 2, 4, 5, 12, 15, 16 og 21 í samræmdu vörulýsinga- og vörunúmeraskránni af hálfu annars samningsaðilans veldur verulegum skaða í framleiðslustarfsemi þeirrar afurðar hjá hinum samningsaðilanum er þeim síðarnefnda heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir einhliða sem eru í réttu hlutfalli við ástandið. Áður en gripið er til slíkra ráðstafana skulu samningsaðilarnir gefa sér nægan tíma til samráðs til lausnar á vandanum.
                ii.    Ef óvenjulegar aðstæður krefjast bráðra aðgerða er samningsaðila innflytjandans heimilt að gera ráðstafanir, sem teljast algerlega nauðsynlegar til að ráða bót á ástandinu, í fyrsta lagi þremur dögum eftir að samningsaðili útflytjandans var upplýstur um þær.
                iii.    Allar ráðstafanir skulu þegar í stað tilkynntar sameiginlegu nefndinni og allar viðeigandi upplýsingar sendar henni í samræmi við 8. gr. og skal samráð haft um málið með reglubundnum hætti innan sameiginlegu nefndarinnar, einkum með það í huga að afnema ráðstafanirnar eins fljótt og aðstæður leyfa.

6. gr.
Undantekningar frá innlendri meðferð.

    Eftirfarandi undantekningar á meginreglunni í 1. mgr. 5. gr. gilda:
    1.      Allar vörur, sem verslað er með, skulu falla undir reglur um dýra- og plöntuheilbrigði hjá samningsaðilanum sem flytur inn. Þessar reglur skulu ekki fela í sér hindranir, af tæknilegum toga eða við málsmeðferð, í beinum viðskiptum. Með fyrirvara um skuldbindingar sínar í alþjóðasamningum um málefni er varða dýra- eða plöntuheilbrigði skulu samningsaðilarnir sjá til þess að greitt sé fyrir beinum viðskiptum með framleiðsluvörur, sem falla undir eftirlit á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis, og skuldbinda sig til að koma á fót skoðunarstöðvum á landamærum og annarri nauðsynlegri aðstöðu til að greiða fyrir beinum viðskiptum með allar framleiðsluvörur sem þessi samningur tekur til.
    2.      Íslandi er heimilt að viðhalda takmörkunum, sem eru í gildi á undirritunardegi þessa samnings, í geirum fiskveiða og fiskvinnslu að því er varðar erlent eignarhald og/eða eignarhald aðila sem hafa ekki fasta búsetu svo og staðfestu aðila sem eru ekki ríkisborgarar og staðfestu ríkisborgara sem eiga ekki lögheimili á Íslandi.
    3.      Færeyjum er heimilt að viðhalda takmörkunum, sem eru í gildi á undirritunardegi þessa samnings, í fiskveiðigeiranum að því er varðar erlent eignarhald og/eða eignarhald aðila sem hafa ekki fasta búsetu svo og staðfestu aðila sem eru ekki ríkisborgarar og staðfestu ríkisborgara sem eiga ekki lögheimili í Færeyjum.
    4.      Færeyjum er heimilt að beita ákvæðum um leyfi í samræmi við 10., 11. og 18. gr. laga um starfsemi tengda vetniskolefnum (nr. 31, 16. mars 1998). Færeysku lögin um starfsemi tengda vetniskolefnum skulu að þessu leyti túlkuð þannig að íslenskir lögaðilar með staðfestu í Færeyjum og íslenskir einstaklingar með lögheimili þar skuli njóta réttinda samkvæmt þessum lögum án mismununar. Almenn ákvæði þessa samnings gilda að öllu öðru leyti um þetta svið.
    5.      Ákvæði þessa samnings um fjárfestingu gilda ekki um fjárfestingar stjórnvalda eða opinberra stofnana samningsaðilanna.

7. gr.
Samvinna á öðrum sviðum.

    1. Samningsaðilarnir munu, innan gildissviðs þessa samnings, auka og víkka út samstarf sitt á öllum þeim sviðum þar sem sameiginlegra hagsmuna er að gæta, þar á meðal eftirtöldum sviðum:
    *      á sviði menningar, menntunar, þjálfunar, íþrótta og æskulýðsmála
    *      á sviði orkumála
    *      á sviði umhverfismála
    *      á sviði heilbrigðismála
    *      á sviði þróunar mannauðs í opinbera geiranum
    *      á sviði rannsókna og tækniþróunar
    *      á sviði auðlindastjórnunar
    *      á sviði fjarskipta
    *      á sviði ferðaþjónustu
    *      á sviði flutninga.
    2. Sameiginlega nefndin mun setja ákvæði um samvinnu skv. 1. mgr. í bókunum við þennan samning sem verða settar fram síðar.

8. gr.
Sameiginlega nefndin.

    1. Sameiginlegri nefnd samningsaðilanna er hér með komið á fót. Hennar hlutverk er að tryggja skilvirka framkvæmd og starfrækslu þessa samnings. Með þetta að markmiði skal hún vera vettvangur skoðana- og upplýsingaskipta.
    2. Sameiginlega nefndin getur ákveðið, með einróma samþykki, að gera breytingar á 5., 6. og 7. gr. svo og bókununum við þennan samning, eða bæta bókunum við hann eins og kveðið er á um í 2. mgr. 7. gr., með það að markmiði að auka smám saman frelsi í viðskiptum og styrkja samvinnu samningsaðilanna.
    3. Sameiginlega nefndin skal setja sér starfsreglur.
    4. Sameiginlega nefndin skal koma saman í samræmi við starfsreglur sínar eigi sjaldnar en einu sinni á ári og að beiðni annars hvors samningsaðilans.
    5. Sameiginlegu nefndinni er heimilt að koma á fót undirstofnunum.

9. gr.
Ráð.

    1. Ráðherrar skulu hittast a.m.k. einu sinni á ári.
    2. Ráði er hér með komið á fót. Því er einkum ætlað að vera pólitískur hvati við framkvæmd þessa samnings og sameiginlegu nefndinni, sem komið er á fót með honum, til leiðsagnar við störf hennar eftir því sem við á.
    3. Ráðið skal meta framkvæmd og þróun þessa samnings í heild. Sameiginlegu nefndinni er heimilt að vísa hverju því máli, sem veldur erfiðleikum, til ráðsins.
    4. Ráðið setur sér starfsreglur.

10. gr.
Bókanir.

    Bókanir við samning þennan eru óaðskiljanlegir hlutar hans.

11. gr.
Aðild.

    Heimilt er að veita fleiri aðilum eða hlutum af Konungsríkinu Danmörku aðild að samningnum, að því tilskildu að samkomulag náist um skilmála og skilyrði fyrir slíkri útvíkkun.

12. gr.
Uppsögn.

    1. Hvorum samningsaðila um sig er heimilt að segja þessum samningi upp með orðsendingu til hins samningsaðilans eftir diplómatískum leiðum. Samningurinn fellur úr gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að tólf mánaða tímabili frá viðtöku tilkynningar um uppsögn lýkur.
    2. Ávinningur, sem samningsaðili veitir fjárfestum eða þjónustuveitendum hins samningsaðilans samkvæmt skilyrðum þessa samnings, fyrir dagsetningu tilkynningar um uppsögn, skal gilda áfram í a.m.k. fimm ár eftir uppsögn samningsins.

13. gr.
Gildistaka.

    1. Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki samningsaðilanna í samræmi við málsmeðferðarreglur hvors um sig.
    2. Samningurinn öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að síðara skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hans hefur verið afhent vörsluaðilanum sem er utanríkisráðuneyti Íslands.
    3. Samningurinn milli ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja annars vegar og ríkisstjórnar Íslands hins vegar um fríverslun milli Færeyja og Íslands, sem var undirritaður 6. ágúst 1992, fellur úr gildi við gildistöku þessa samnings, sbr. þó ákvæði bókunar 2 við þennan samning.

Gjört í Hoyvík 31. ágúst 2005 á íslensku, færeysku, dönsku og ensku og skulu allir textarnir jafngildir.

Komi misræmi í ljós skal enski textinn gilda.

Fyrir hönd ríkisstjórnar Danmerkur     Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands
og heimastjórnar Færeyja

-----------------------------------------    ------------------------------------------