Þýðingamiðstöð

Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins

Framkvæmdastjóri:

Katrín Einarsdóttir

Þýðingamiðstöð

Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins var stofnuð árið 1990 með það í huga að þýða EES-samninginn og gerðir sem heyra undir hann. (Gerðir er samheiti yfir tilskipanir, reglugerðir, ákvarðanir og tilmæli frá ESB.)

Þýðingamiðstöðin er deild innan utanríkisráðuneytisins og er til húsa að Rauðarárstíg 27, Reykjavík. Einnig fer starfsemi fram í húsnæði á Akureyri og á Ísafirði og Seyðisfirði.

Þýðingastarfið

Meginhlutverk Þýðingamiðstöðvarinnar er að þýða gerðir, sem heyra undir EES-samninginn samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og aðra texta sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig hafa starfsmenn hennar sérhæft sig í að þýða alþjóðlega samninga, lagatexta, gerninga og aðra texta þar sem nota þarf staðlaðan hugtakaforða. Þar má nefna Schengen-texta, fríverslunarsamninga, Evrópuráðssamninga, aðra milliríkjasamninga og ESB gerðir.

Hugtakasafn

Í hugtakasafni Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins er að finna ýmis almenn hugtök á sviði laga og stjórnsýslu en einnig er þar að finna mikið af tæknilegum hugtökum sem tengjast hinum ýmsu sérsviðum EES-samningsins. Þá eru í safninu fjöldamörg hugtök sem tengjast Evrópusambandinu og stofnunum þess. Unnið hefur verið að söfnun hugtaka og orðasambanda í safnið allt frá stofnun Þýðingamiðstöðvarinnar árið 1990.

Sífellt bætast nýjar færslur við eða nokkur þúsund færslur á hverju ári. Aðgangur er öllum heimill án endurgjalds.

EEA-Lex

Á EEA-Lex síðunni er að finna upplýsingar um væntanlega löggjöf ESB sem getur varðað EES-samninginn, samþykktar ESB gerðir sem til skoðunar eru vegna upptöku í EES-samninginn, og aðrar gerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.