Laga- og stjórnsýsluskrifstofa

Laga- og stjórnsýsluskrifstofa (LOS)

Laga- og stjórnsýsluskrifstofa var stofnuð í febrúar 2014. Skrifstofan fer með þorra allra lögfræðilegra verkefna ráðuneytisins, sinnir vörslu og miðlun upplýsinga í breiðum skilningi og leggur línur um verklag og vandaða stjórnsýsluhætti í starfsemi ráðuneytisins. Hlutverk skrifstofunnar er þverlægt í þeim skilningi að það er fólgið í ráðgjöf, leiðsögn og stuðningi við úrlausn verkefna sem aðrar skrifstofur ráðuneytisins, sendiskrifstofur og jafnvel önnur ráðuneyti og stofnanir bera ábyrgð á og stundum samræmingu og samhæfingu í störfum þeirra. Eftirfarandi málaflokkar eru einnig á verksviði skrifstofunnar:

Lögfræðileg verkefni

Skrifstofan tók við verkefnum þjóðréttarfræðings og mótar það verksvið hennar að verulegu leyti. Auk þess að veita öðrum skrifstofum og ráðuneytum ráðgjöf og aðstoð við úrlausn þjóðréttarlegra álitaefna, fer skrifstofan sjálf með mikilvæg þjóðréttarleg verkefni s.s. á sviði hafréttar og í öðru samstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þ. á m. í baráttunni gegn hryðjuverkum. Þá er framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og eftirlit með þjónustu og hlutum sem haft geta hernaðarlega þýðingu einnig á verksviði skrifstofunnar, sem og þjóðréttarlegir samningar, frágangur þeirra og birting.

Á sviði Evrópuréttar fer skrifstofan með fyrirsvar gagnvart EFTA-dómstólnum í samningsbrotamálum sem Eftirlitsstofnun EFTA höfðar gegn stjórnvöldum, sem og samráð við stjórnsýsluna um önnur mál fyrir dómstólnum. Þá veitir skrifstofan ráðgjöf um úrlausn stjórnskipulegra álitaefna við innleiðingu nýrra gerða í EES-samninginn, og annast þinglega meðferð ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sem teknar eru með stjórnskipulegum fyrirvara.

Loks veitir skrifstofan öðrum skrifstofum ráðuneytisins lögfræðilega ráðgjöf og aðstoð eftir því sem á þarf að halda, t.d. á sviði stjórnskipunar- og stjórnarfarsréttar, sérstaklega starfsmannaréttar og upplýsingaréttar.

Stjórnsýsla

Á vettvangi upplýsingamiðlunar heldur skrifstofan utan um fjölmiðlatengsl og sinnir rekstri upplýsingamiðla utanríkisþjónustunnar og samskiptum við Alþingi.  Þá heyrir skjalasafn utanríkisþjónustunnar einnig undir skrifstofuna. 

Þá fer skrifstofan yfir verklag og verkferla utanríkisþjónustunnar með það fyrir augum að samræma þá og einfalda, gera samskipti skilvirk og rekjanleg og boðleiðir skýrari.

Fyrir dyrum stendur einnig að betrumbæta fyrirkomulag varðandi utanumhald og yfirlit yfir samninga á verksviði ráðuneytisins, bæði varðandi þjóðréttarsamninga og aðra samninga sem undir ráðuneytið heyra.