Lög og reglugerðir

Reglur 625/1999 um útgáfu vegabréfa

Nr. 625/1999

R E G L U R
um útgáfu vegabréfa til íslenskra ríkisborgara erlendis.

I. KAFLI
Útgáfa vegabréfa.

1. gr.
Útlendingaeftirlitið annast útgáfu almennra vegabréfa til íslenskra ríkisborgara sem staddir eru erlendis. Þegar sérstaklega stendur á gefa íslensk sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og ræðisskrifstofur (sendistofnanir) út vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf) til íslenskra ríkisborgara sem staddir eru erlendis. Utanríkisráðuneytið ákveður hvaða sendistofnanir hafa heimild til útgáfu slíkra vegabréfa.

II. KAFLI
Umsókn um vegabréf.

2. gr.
Íslenskar sendistofnanir afhenda eyðublöð fyrir umsóknir um vegabréf til íslenskra ríkisborgara sem staddir eru erlendis. Þeim skulu fylgja leiðbeiningar um frágang þeirra. Íslenskar sendistofnanir taka við umsóknum um almenn vegabréf og neyðarvegabréf, en þær taka ekki við umsóknum um ferðaskilríki fyrir flóttamenn, vegabréf fyrir útlendinga eða hópvegabréf.

3. gr.
Starfsmenn íslenskra sendistofnana skulu votta undirritun umsækjanda á umsóknareyðublaði, sem ljósmynd af umsækjanda er fest við, enda sanni hann deili á sér. Sendistofnanir skulu framsenda útlendingaeftirlitinu umsóknir um vegabréf, fylgigögn og greiðslu fyrir útgáfu vegabréfsins og öðrum kostnaði svo fljótt sem unnt er. Þegar sérstaklega stendur á getur íslenskt sendiráð, fastanefnd eða sendiræðisskrifstofa (sendiskrifstofa) heimilað að starfsmenn sendistofnana annarra norrænna ríkja, lögbókandi í viðkomandi landi eða annar opinber aðili, sem til þess er bær samkvæmt lögum viðkomandi ríkis, votti undirritun umsækjanda á umsóknareyðublaði um vegabréf, enda framsendi vottunaraðilinn sendiskrifstofunni umsóknina.

III. KAFLI
Gildistími vegabréfa, skil þeirra o.fl.

4. gr.
Sendistofnunum Íslands er heimilt að framlengja gildistíma almenns vegabréfs sem runnið hefur út á síðustu 12 mánuðum, eða sem renna mun út innan skamms tíma, ef ekki er unnt að gefa út nýtt vegabréf í tæka tíð. Vegabréf skal framlengt með áritun þar um. Þó má aldrei framlengja vegabréf til lengri tíma en eins árs.

5. gr.
Um gjöld fyrir útgáfu vegabréfa fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs hverju sinni. Gjöld vegna póstsendingar- og bankakostnaðar við útgáfu vegabréfa skulu ákveðin í reglugerð um embættisverk fulltrúa í utanríkisþjónustunni.

IV. KAFLI
Gildistaka o.fl.

6. gr.
Við útgáfu vegabréfa og móttöku og meðferð umsókna um vegabréf skal að öðru leyti en að framan greinir beita ákvæðum reglugerðar um íslensk vegabréf eftir því sem við á.

7. gr.
Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt 18. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971, sbr. 1. gr. laga um vegabréf nr. 136/1998, reglugerðar um íslensk vegabréf og 2. gr. laga um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965, öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 300/1999 um útgáfu vegabréfa til íslenskra ríkisborgara erlendis.

Utanríkisráðuneytinu, 27. september 1999.


Halldór Ásgrímsson.
_________________________
Stefán Haukur Jóhannesson.