Utanríkisþjónustan

Utanríkisþjónustan

Utanríkisþjónustan greinist annars vegar í utanríkisráðuneytið og hins vegar í sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur. Sendiherrar veita sendiráðum forstöðu, fastafulltrúar veita fastanefndum við alþjóðastofnanir forstöðu og ræðismenn veita ræðisskrifstofum forstöðu.

Leiðarljós utanríkisþjónustunnar er að vera útvörður þjóðarinnar í hnattvæddum heimi og vakandi gagnvart öllu því sem getur rennt styrkari stoðum undir íslenskt samfélag. Íslendingar og íslensk fyrirtæki geti treyst því að utanríkisþjónustan gæti réttmætra hagsmuna þeirra á erlendri grund og komi þeim til aðstoðar við erfiðar aðstæður.

Í lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39, 16. apríl 1971 segir að utanríkisþjónustan fari með utanríkismál og gæti í hvívetna hagsmuna Íslands gagnvart öðrum ríkjum. Hún skal einkum gæta hagsmuna Íslands að því er snertir: stjórnmál og öryggismál, utanríkisviðskipti og menningarmál.

Sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur með útsendum starfsmönnum nefnast einu nafni sendiskrifstofur. Margar þeirra gegna mörgum hlutverkum, t.d. gegnir sendiskrifstofan í París hlutverki sex sendiráða, gagnvart Frakklandi, Andorra, Ítalíu, Portúgal, San Marínó og Spáni og tveggja fastanefnda gagnvart Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni (OECD) og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

Ísland starfrækir 21 sendiskrifstofur í 17 löndum, auk þess 3 umdæmisskrifstofur ÞSSÍ sem einnig gegna hlutverki sendiráðs. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar eru um 240, þar af starfa um 115 í Reykjavík og útbúum þýðingamiðstöðvar á Akureyri og Ísafirði. Um 126 starfa erlendis, þar af eru um 58 frá Íslandi en um 68 eru staðarráðnir.

Auk þess rekur ÞSSÍ, sem heyrir undir utanríkisráðuneytið, 3 sendiskrifstofur í jafnmörgum löndum.