Skýrsla ráðherra 2015

Skýrsla ráðherra 2015

Skýrsla Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. 

Hér fyrir neðan má finna efnisyfirlit í skýrslu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Allir kaflar í skýrslunni eiga það sameiginlegt að fara yfir stöðu íslands í alþjóðasamfélaginu, stefnumið ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum og hag íslendinga almennt, sem kunna að þurfa liðsinni utanríkisráðuneytisins.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Framsöguræðu ráðherra má nálgast hér.

BORGARAÞJÓNUSTAN

Starfsemi borgaraþjónustunar miðar að því að greiða götu þeirra sem óska aðstoðar ráðuneytisins. Meðal verkefna eru neyðaraðstoð vegna veikinda eða slysa erlendis, útgáfa vegabréfa, aðstoð vegna sakamála og afplánunar refsidóma, aðstoð við að hafa uppi á týndum einstaklingum og heimflutningur látinna, veikra eða vegalausra ríkisborgara. 

Fátt gefur meira en aðstoð við samborgara okkar sem finna sig í aðstæðum sem fæst okkar vildu vera í en mörg okkar hafa heyrt af eða reynt á eigin skinni. Íslendingar ferðast víða og í hverri viku koma upp mál þar sem reynir á útsjónarsemi starfsmanna utanríkisþjónustunnar við að koma til aðstoðar þeim sem eru í neyð. Eðli máls samkvæmt fara þessi mál hljótt en þó verður þessi starfsemi að teljast til mikilvægustu verkefna utanríkisþjónustunnar.

Lestu um borgaraþjónustuna í skýrslu ráðherra hér.

NORÐURSLÓÐIR OG NÆRSVÆÐI

Málefni norðurslóða og fjölþjóðlegt samstarf þar að lútandi hafa skipað æ stærri sess í starfi utanríkisþjónustunnar á síðustu árum. Í stefnu­yfir­lýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún muni vinna að því að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum og virkur þátttakandi í vestnorrænu starfi. Undirbúningur verði hafinn að nýtingu tækifæra sem skapast með opnun siglingaleiða um norðurslóðir og áhersla lögð á að verkefni þeim tengd verði vistuð hérlendis.

Samstarf við hin Norðurlöndin, á grundvelli djúpstæðra tengsla og sameiginlegra gilda, er sem fyrr veigamikill þáttur í starfi íslensku utanríkisþjónustunnar. Á það jafnt við um reglu­bundið samráð milli norrænu utanríkisráðuneytanna, margvíslega samvinnu norrænna sendi­skrifstofa víða um heim sem og á vettvangi alþjóðastofnana.

Kafli um norðurslóðir og nærsvæði í skýrslu ráðherra.

ALÞJÓÐLEGT VIÐSKIPTASAMSTARF

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að stefna Íslands í utanríkisviðskiptum muni taka mið af þeim öru breytingum sem eru að verða á efnahagskerfum heimsins. Möguleikar til að auka útflutning til svæða þar sem eftirspurn vex hratt á komandi árum verði kannaðir frekar og tengsl við viðkomandi svæði styrkt. Áhersla verði jafnframt lögð á gerð fleiri fríverslunar­samninga, bæði tvíhliða og á vettvangi EFTA. Leitað verði leiða til að fullnýta mögu­leika sem felast í þeim fríverslunarsamningum sem Ísland á þegar aðild að. Að ofangreindu hefur verið markvisst unnið á undanförnum mánuðum.

Aðstoð við íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum er áfram eitt af mikilvægari verkefnum ráðuneytisins, sem sannað hafa gildi sitt, ekki síst með fulltingi Íslandsstofu og með neti viðskiptafulltrúa í sendiráðum vítt og breitt um heiminn. Stöðugt er unnið að því að styrkja þetta net, m.a. með því að efla tengslin milli þess og einstakra viðskiptaráða sem starfa innan vébanda Viðskiptaráðs Íslands.

Kafli um alþjóðlegt viðskiptasamstarf í skýrslu ráðherra.

EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐIÐ

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) öðlaðist gildi fyrir réttum 20 árum, hinn 1. janúar 1994. Hann er viðamesti samningur sem Ísland hefur gert á alþjóða­­vettvangi; fríverslunarsamningur á milli þeirra EFTA-ríkja sem eru aðilar að EES (Ísland, Noregur, Liechtenstein) og Evrópusambandsins (ESB). Samskipti Íslands við Evrópu­­sambandið grundvallast fyrst og fremst á samningnum sem veitir íslenskum ríkisborgurum, fyrirtækjum og stofnunum aðgang að innri markaði ESB.

Kafli um Evrópska efnahagssvæðið í skýrslu ráðherra.

ALÞJÓÐA- OG ÖRYGGISMÁL

Víðfeðm og fjölbreytt viðfangsefni í starfi utanríkisráðuneytisins falla undir flokk alþjóða- og öryggismála, þar með talið virk þátttaka í starfi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana og svæðisbundinna samtaka, tvíhliða samskipti við ríki nær og fjær, hagsmunagæsla m.a. á sviði auðlinda- og umhverfismála,  samstarf um öryggismál og varnir, og aðild að alþjóðlegum samningum og dómstólum.

Eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Það er grund­vallar­atriði í samskiptum ríkja að alþjóðalög séu virt og að þjóðir leysi deilumál með frið­sam­legum hætti. Samstarf þjóða er nauðsynlegt til að takast á við áskoranir og ógnir sem verka þvert á landamæri. Á alþjóðavettvangi er Ísland málsvari mannréttinda, jafnréttis og sjálfbærrar þróunar.

Kafli um alþjóða- og öryggismál í skýrslu ráðherra.

ÞJÓÐRÉTTARMÁL

Kafli um þjóðréttarmál í skýrslu ráðherra.


ALÞJÓÐLEG ÞRÓUNARSAMVINNA

Ný áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir tímabilið 2013–2016 (þróunarsamvinnuáætlun) var samþykkt með þingsályktun 21. mars 2013. Áætlunin skapar umgjörð fyrir allt opinbert starf á sviði þróunarmála, friðaruppbyggingar og neyðar- og mannúðaraðstoðar hvort sem um er að ræða tvíhliða samvinnu á vegum Þróunar­samvinnu­stofnunar Íslands (ÞSSÍ), stuðning við fjölþjóðlegar stofnanir, verkefni á vegum félagasamtaka eða starf undir merkjum Íslensku friðargæslunnar. Í áætluninni er lögð áhersla á árangur og skilvirkni þróunar­starfs og skýra forgangsröðun.

Kafli um um alþjóðlega þróunarsamvinnu í skýrslu ráðherra.

UPPLÝSINGASTARF OG MENNINGARMÁL

Upplýsingastarf utanríkisþjónustunnar

Mikilvægur hluti starfs ráðuneytisins er að miðla upplýsingum um pólitísk og efnahagsleg viðfangsefni til erlendra stjórnvalda og fjölþjóðastofnana. Hér er fjallað um áherslumál og eflingu upplýsingamiðlunar til almennings, m.a. með aukinni notkun samfélagsmiðla.

Helstu verkefni á sviði menningarmála

Utanríkisþjónustan leitast við að styðja íslenska menningarstarfsemi erlendis og greiða fyrir menningarsamstarfi við aðrar þjóðir. Sendiskrifstofur Íslands koma að framkvæmd viðburða á öllum sviðum menningar og lista, í samstarfi við kynningarmiðstöðvar lista og skapandi greina, en þannig er tryggt að verkefnin séu unnin í samráði við fagaðila og í samræmi við áherslur kynningarmiðstöðvanna.

Kafli um um upplýsingastarf og menningarmál í skýrslu ráðherra.

REKSTUR UTANRÍKISÞJÓNUSTUNNAR

Kafli um um rekstur utanríkisþjónuustunnar í skýrslu ráðherra.