Hoppa yfir valmynd
11. september 2011 Utanríkisráðuneytið

Agnesi bent - og kennt

Eftir Össur Skarphéðinsson
 "Ég hef ekki átt samtöl við nokkurn nefndarmann um hugsanlegt efni niðurstöðu nefndarinnar, hvorki fulltrúa míns eigin flokks, né annarra, og engan úr forystu flokksins."

Í texta Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag, 10. september, sem titlaður er fréttaskýring, er sagt, að niðurstaða nefndar, sem meðal annars fjallar um hvort kalla skuli saman Landsdóm, hefði verið kynnt mér á mánudagskvöldið síðasta. Þetta er rangt. Niðurstaða nefndarinnar var ekki kynnt mér þá, og hvorki fyrr né síðar. Ég hef ekki átt samtöl við nokkurn nefndarmann um hugsanlegt efni niðurstöðu nefndarinnar, hvorki fulltrúa míns eigin flokks, né annarra, og engan úr forystu flokksins. Til upplýsingar fyrir vel innréttaða lesendur má geta þess að hvorki Agnes, né aðrir starfsmenn blaðsins, gerðu nokkra tilraun til að hafa heldur það sem sannara reynist með því að spyrja mig eftir sanngildi þessarar staðhæfingar. Blaðið birti, án þess að leita staðfestingar. Það er vond regla en þó ekki allskostar ný á síðum blaðsins í seinni tíð. Átti þó Moggi samtal við mig um Landsdóm í gær, svo sem sjá má á annarri blaðsíðu þess í dag. Sjálfsagt er að leiðrétta við lesendur blaðsins þegar upp er spunnin vitleysa, en leiðigjarnt er að þurfa að gera það næstum daglega eins og upp á síðkastið. Mætti sú góða kona sem þar lék fingrum eyða svolitlum tíma í það sem okkur var kennt í sunnudagaskólanum í gamla daga, og gæti þá valið á milli til dæmis Síraksbókar, 34:4 og þó kannski frekar seinni partsins í Orðskviðunum 8:7.

Höfundur er utanríkisráðherra.

Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu 11. september 2010 (pdf).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum