Norrænt varnarsamstarf

Norrænt varnarsamstarf

Norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum hefur aukist hröðum skrefum á undanliðnum árum. Árið 2011 samþykktu Norðurlöndin yfirlýsingu um samstöðu til að mæta óförum og áföllum, bæði af náttúru og af manna völdum, á sviði utanríkis- og öryggismála. Byggist sú yfirlýsing á tillögu Thorvalds Stoltenberg sem hann setti fram í skýrslu til utanríkisráðherra Norðurlandanna árið 2009 um aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði.

Önnur tillaga í skýrslu Stoltenbergs sneri að þátttöku Svía og Finna í loftrýmiseftirliti á Íslandi í norrænu samhengi. Eftir umræður á vettvangi funda utanríkisráðherra Norðurlanda skrifaði utanríkisráðherra starfsbræðrum sínum í Finnlandi og Svíþjóð bréf í maí 2012 þar sem hann hvatti til þátttöku þjóðanna tveggja í loftrýmiseftirlitinu hér á landi. Í lok október svöruðu ráðherrarnir bréfunum með jákvæðum hætti og í framhaldinu fékk málið skoðun og umfjöllun innan Atlantshafsbandalagsins. Hinn 19. desember 2012 samþykkti bandalagið fyrirhugaða þátttöku Svía og Finna í loftrýmiseftirliti á Íslandi og munu þjóðirnar taka þátt í loftrýmiseftirlitinu undir forystu Noregs vorið 2014. Ákvörðun bandalagsins felur ekki í sér skyldur á herðar Svíum og Finnum er snúa að loftrýmisgæslu, þ.e. ef fljúga þarf til auðkenningar á óþekktu loftfari í loftrými Íslands, en slík flug verða eftir sem áður einungis framkvæmd af hálfu bandalagsríkja.

Loftrýmiseftirlit á Íslandi er fyrirkomulag á friðartímum sem Atlantshafsbandalagið setti á fót eftir að Bandaríkjaher fór frá Íslandi haustið 2006. Fyrirkomulagið er framlag til öryggis og varna Íslands og ákvörðun Svía og Finna – sem ekki eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu – að taka þar þátt markar ákveðin þáttaskil í norrænu samstarfi. Ákvörðunin er birtingarmynd þeirrar samstöðu Norðurlanda sem samstöðuyfirlýsingin frá 2011 fól í sér og er hún táknræn um vilja og getu Norðurlandanna til að starfa saman að því að viðhalda öryggi í okkar heimshluta. Áður hafa Noregur og Danir komið myndarlega að loftrýmisgæslu á Íslandi og litið er á þátttöku Finna og Svía árið 2014 sem fyrsta skref þar sem fleiri munu fylgja í kjölfarið ef að líkum lætur. Frekara framhald mun þó vitaskuld ráðast af reynslu af þátttöku þjóðanna í eftirlitinu.

Á grundvelli Stoltenberg-skýrslunnar hafa Norðurlöndin einnig tekið upp samstarf á sviði netöryggis. Þá hefur varnarsamstarf Norðurlandanna, NORDEFCO, aukist ár frá ári, en því var hleypt af stokkunum í núverandi mynd árið 2009. Samstarfið lýtur meðal annars að æfingum og þjálfun, útboðum, samhæfingu og samvinnu innan fjölþjóðlegra verkefna. Meðal verkefna sem verið hafa ofarlega á baugi er aukið samstarf um loftflutninga, en Ísland undirritaði, ásamt hinum Norðurlöndunum, viljayfirlýsingu um þróun slíks samstarfs haustið 2012. Mögulegur ávinningur af þátttöku gæti falist í því að Ísland fengi afnot af flutningavélum annarra Norðurlanda, sem gæti komið til góða við sjúkraflug, björgunaraðgerðir eða við mannúðaraðstoð.