Öryggis- og varnarmál

Öryggis- og varnarmál

Ísland er herlaus þjóð sem tryggir öryggi sitt og varnir með virku samstarfi við önnur ríki. Þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins, virkt samstarf við grannríki á sviði öryggismála og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru meginstoðir í stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Ísland herjar ekki á neinn, hervæðist ekki, heldur lítur eftir lofthelgi sinni og landhelgi. Íslensk stjórnvöld ábyrgjast rekstur íslenska loftvarnarkerfisins og annarra mannvirkja NATO á Íslandi. Bandalagsríki NATO taka að sér loftrýmisgæslu við Ísland í samvinnu við íslensk stjórnvöld.

Öryggishugtakið einskorðast hins vegar ekki lengur við varnir tiltekinna svæða heldur er hugtakið mun víðtækara. Ríki ein og sér stemma ekki stigu við útbreiðslu gereyðingarvopna, hryðjuverkum, alþjóðlegri glæpastarfsemi eða þeim öryggisógnum sem felast í fátækt, umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum. Þátttaka Íslands í fjölþjóðlegu samstarfi til að mæta þessum ógnum tryggir öryggi Íslands, um leið og Íslendingar axla ábyrgð til jafns við önnur ríki á sameiginlegum úrlausnarefnum.

Í varnarmálalögum og forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta er kveðið á um að utanríkisráðherra beri ábyrgð á varnarmálum, og mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi.