Líffræðilegur fjölbreytileiki

Fyrirhugaður alþjóðasamningur um verndun og nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika utan lögsögu ríkja

Eitt stærsta mál síðustu ára varðandi málefni hafsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið verndun og nýting líffræðilegs fjölbreytileika utan lögsögu ríkja. Allsherjarþing S.þ. setti árið 2005 á fót vinnuhóp um þetta efni, sem í janúar 2015 samþykkti tillögur til allsherjarþingsins um að gerður verði nýr lagalega bindandi samningur undir hafréttarsamningnum um þetta efni. Allsherjarþingið samþykkti í júní 2015 ályktun nr. 60/292 um þetta, þar sem fram kemur að undirbúningsnefnd (preparatory committee) aðilarríkja SÞ muni funda á árunum 2016-2017 um gildissvið og meginþætti hins fyrirhugaða samnings. Undirbúningsnefndin á að skila af sér skýrslu til allsherjarþingsins fyrir árslok 2017 en að þeim tíma liðnum verður boðað til milliríkjaráðstefnu (intergovernmental conference) árið 2018, þar sem eiginlegar samningaviðræður munu fara fram og endanlegur texti samningsins mótaður.

Viðfangsefni slíks alþjóðasamnings kann að verða  mjög vítt, enda gæti það í raun náð til alls lífs á úthafinu utan efnahagslögsögu strandríkja svo og á hafsbotninum utan landgrunns strandríkja. Í ferlinu 2016-2017  munu íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að gildissvið slíks samnings verði skýrt afmarkað og að það nái ekki til fiskveiða, enda mynda hafréttarsamningurinn og úthafsveiðisamningurinn fullnægjandi lagaramma fyrir veiðar á úthafinu.

TenglarUppfært: 12/15     |     Athugsemdir sendist   hér