Peningaþvætti

FATF - Peningaþvættisstofnunin

Fjármálaaðgerðahópurinn

FATF (Peningaþvættisstofnunin eða Fjármálaaðgerðahópurinn, e. Financial Action Task Force) er alþjóðastofnun sem var komið á fót 1989. Upphaflega stóðu 15 ríki að þessu milliríkjasamstarfi en eru nú orðin 34. Ísland gerðist aðili 1992. Stofnunin er staðsett í París. Hlutverk hennar er þríþætt:

  • Vinna gegn peningaþvætti (frá 1989)
  • Vinna gegn fjármögnun hryðjuverka (frá 2001)
  • Vinna gegn fjármögnun útbreiðslu gereyðingarvopna (frá 2007, í tengslum við framkvæmd ályktana öryggisráðs SÞ)

Í október 2006 kom út 3. FATF-skýrslan um framkvæmd Íslands á skuldbindingum sínum. Þar koma fram margar ábendingar um framkvæmd alþjóðaskuldbindinga, m.a. varðandi ályktanir öryggisráðsins.

Stýrihópur gegn peningaþvætti

Peningaþvættismál heyra undir innanríkisráðuneytið sem hefur samstarf um þau mál við önnur ráðuneyti og stofnanir. Innanríkisráðuneytið skipaði í maí 2015 stýrihóp sem er stjórnvöldum til ráðgjafar um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.  Hlutverk hópsins er þríþætt:

  • Fara yfir og bæta úr útistandandi athugasemdum FATF í þeim tilgangi að ljúka eftirfylgni ferli þriðju úttektar sem Ísland hefur verið í síðan 2006
  • Vera stjórnvöldum til ráðgjafar í afstöðu til mála hjá FATF
  • Undirbúa fjórðu úttekt hjá FATF sem fyrirhuguð er sumarið 2017

Stýrihópurinn er þannig skipaður: Hildur Dungal, lögfræðingur og jafnframt formaður tilnefnd af innanríkisráðherra, Áslaug Jósepsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Seðlabanka Íslands, Grímur Grímsson og Björn Þorvaldsson, starfsmenn peningaþvættisskrifstofu, tilnefndir af héraðssaksóknara, Helga Rún Hafliðadóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Skattrannsóknarstjóra, Gísli Örn Kjartansson, lögfræðingur, tilnefndur af Fjármálaeftirlitinu, Erna Hjaltested, sérfræðingur, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Pétur Thorsteinsson, lögfræðingur, tilnefndur af utanríkisráðuneytinu.

Peningaþvættisskrifstofa

Peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknara (e. Financial Intelligence Unit - FIU) annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar eru upplýsingar greindar og miðlað til hlutaðeigandi yfirvalda til frekari meðferðar, s.s. rannsóknar og saksóknar. 

Gögn

Löggjöf

  • Lög (frá 20. janúar 2016) um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum (áreiðanleikakannanir, undanþága frá áreiðanleikakönnun, eftirlit o.fl.)
  •  Lög um breytingu á lögum sem varða alþjóðleg öryggismál o.fl. nr. 81/2015 (reglum breytt um birtingar nafna hryðjuverkamanna af hálfu öryggisráðs SÞ og frystingu fjármuna)
  • Lög um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum (skipan ákæruvalds, rannsókn efnahagsbrotamála o.fl.) nr. 47/2015 (peningaþvættisskrifstofa vistuð hjá nýju embætti héraðssaksóknara).

Tenglar

FATF     |     FME (Fjármálaeftirlitið)       |     FIU (Peningaþvættisskrifstofa)


  Uppfært: 01/16     |     Athugsemdir sendist  hér     |      Skammstafanir