Utanríkisráðherra hittir erlenda sendiherra

17.1.2017

  • Utanríkisráðherra ásamt erlendu sendiherrunum
    Utanríkisráðherra ásamt erlendu sendiherrunum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með sendifulltrúum þeirra ríkja sem eru með sendiráð á Íslandi og kynnti þeim helstu stefnumál nýrrar ríkisstjórnar í utanríkismálum. 

Í erindi sínu undirstrikaði utanríkisráðherra mikilvægi öflugs samstarfs við Norðurlönd, Evrópuríki, aðildina að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamstarfið við Bandaríkin og lagði út af nýrri þjóðaröryggisstefnu sem tæki til fjölmargra áskorana sem að Íslandi stafaði, s.s. öryggismál á norðurslóðum, veföryggi og varnarsamstarf. Þá ræddi Guðlaugur Þór einnig um undirbúning formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem stendur frá 2019-2021 og hversu mikilvæg sú samvinna væri fyrir framtíðarþróun á norðurslóðum. 

Utanríkisráðherra ræddi einnig málefni Evrópu við sendiherrana og sagði að Evrópska efnahagssvæðið (EES) væri grunnurinn að farsælum samskiptum Íslands við Evrópu og að svo yrði áfram. Evrópuríkin væru meðal helstu bandamanna Íslands og að með þátttöku Íslands í EES og aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) nyti Ísland ákjósanlegs aðgangs að erlendum markaðssvæðum. Sagði hann jafnframt að útganga Breta úr ESB yrði talsverð áskorun fyrir Evrópu á næstu misserum og að íslensk stjórnvöld myndu leitast við að tryggja jafngóð eða betri viðskiptakjör við Bretland, sem er meðal mikilvægustu markaða Íslands. 

Vék utanríkisráðherra einnig að texta stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður ESB aðild og sagði að stefna ríkisstjórnarinnar væri skýr. „Ef það kemur fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður á Alþingi verður það undir lok kjörtímabilsins og að það yrði útkljáð í meðförum þingsins. Þá er ljóst að stjórnarflokkarnir hafa ólíka afstöðu í þessu máli og þeir virði það hver við annan,“ sagði utanríkisráðherra á fundinum. Tók hann jafnframt fram að slík tillaga myndi ekki koma frá sér.

Til baka Senda grein