Sendiskrifstofur Íslands hafa afl og getu til að opna dyr víða

28.4.2017

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði í dag ársfund Íslandsstofu og sagði í erindi sínu að íslenskt atvinnulíf hefði aldrei áður verið í eins mikilli kjörstöðu til að afla nýrra markaða og að aldrei áður hefðu Íslendingar séð viðlíka áhuga á landinu. Sagði hann það sameiginlegt verkefni að spila sem allra best úr stöðunni og til þess að svo mætti verða yrði að brýna þau tæki og tól sem okkur stæði til boða. „Tækifærin eru allt í kringum okkur, áskorarnirnar sömuleiðis. Það er hagur þjóðarbúsins sem er endanlegur mælikvarði á hvernig við höfum staðið okkur,“ sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni.

Sagði utanríkisráðherra að hagsmunagæsla væri kjörorð ráðuneytisins og að nú fari fram mikil vinna að heildarhagsmunamati innan ráðuneytisins við að greina hvernig utanríkisþjónustan hyggst laga sig betur að þeim þörfum sem atvinnulífið kallaði eftir. „Ég handviss um það að við getum gert miklu betur, ekki síst þegar kemur að því hvernig við skipuleggjum okkur og hvernig við beitum þeim tækjum og tólum sem okkur standa til boða.“

Guðlaugur Þór sagði að sendiskrifstofur Íslands hefðu afl og getu til að opna dyr víða, ekki síst á fjarlægum mörkuðum þar sem aðkoma ríkisvaldsins væri oft lykillinn að því að opna dyr. „En það er til einskis ef atvinnulífið fylgir ekki eftir,“ sagði utanríkisráðherra. Sagðist hann sannfærður um að við gætum nýtt betur þá aðstöðu, tengslanet og þekkingu sem byggð hefði verið upp og fjárfest í erlendis, í þágu atvinnulífsins. „Við þurfum að efla getuna til að veita meiri útflutningsþjónustu á þessum starfstöðvum og það mun skila sér margfalt til baka. Við opnum ekki dyr að nýjum mörkuðum frá Reykjavík einvörðungu. Við verðum að geta beitt okkur á staðnum. Þetta skilja öll ríki sem við viljum bera okkur saman við og er mér í raun óskiljanlegt hvers vegna við höfum ekki gengið lengra í þeim efnum,“ sagði utanríkisráðherra.

Í ræðu sinni sagði utanríkisráðherra Ísland vera útflutningsdrifið hagkerfi og að frjáls viðskipti væru lífsspursmál fyrir þjóðina. Þá sagði hann þungamiðju fríverslunar hafa færst til og að milliríkjaviðskipti myndu taka örum breytingum á næstu tveimur áratugum. Þá væru nýmarkaðsríki í Asíu, Suður-Ameríku og ekki síst Afríku hin nýju orkubú og ört vaxandi millistéttir myndu drífa hagvöxt framtíðarinnar.

„Markaðssókn á erlendum vettvangi er langtímahlaup. Þar spilar atvinnulífið sjálft langstærsta hlutverkið en stjórnvöld þurfa að styðja við bakið á því,“ sagði Guðlaugur Þór. „Það er afar mikilvægt að atvinnulífið sé inni í allri stefnumótun um hvað stjórnvöld geti gert til að styðja við alþjóðlega og árangursríka markaðssókn íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu. Horfa þarf til framtíðar og skipuleggja starfsemina með langtímasýn og -markmið að leiðarljósi.“

Ræða utanríkisráðherra á aðalfundi Íslandsstofu

Til baka Senda grein