Ráðherra fundar með utanríkisráðherra og heimsækir flóttamannabúðir í Jórdaníu

18.2.2016

  • Gunnar Bragi í Zaatari búðunum
    Gunnar Bragi í Zaatari búðunum

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í morgun fund með Nasser Judeh, utanríkisráðherra Jórdaníu. Á fundinum ræddu ráðherrarnir tvíhliða samskipti ríkjanna, sem gagnkvæmur áhugi er á að styrkja m.a. á sviðum viðskipta, ferðaþjónustu og orkumála. Einnig ræddu ráðherrarnir ítarlega stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs, þ.m.t. átökin í Sýrlandi og straum flóttamanna þaðan, en í Jórdaníu eru 1,3 milljónir flóttafólks. Þakkaði Gunnar Bragi fyrir framlag Jórdaníu vegna flóttafólks frá nærliggjandi löndum og upplýsti um stefnu stjórnvalda og framlög til málaflokksins. 

Þá heimsótti ráðherra Zaatari flóttamannabúðirnar skammt frá landamærum Sýrlands og kynnti sér starfsemi stofnana Sameinuðu þjóðanna þar, en 78.000 flóttamenn hafast við í búðunum. Ísland styrkir verkefni á vegum UN Women í Zaatari en stofnunin vinnur að valdeflingu kvenna á ýmsum sviðum, m.a. er unnið er að því að auka efnahagslegt sjálfstæði þeirra og veita þeim vernd og aðstoð hafi þær verið beittar ofbeldi.

Til baka Senda grein