Öryggismál á norðurslóðum og Brexit meðal umræðuefna í Kaupmannahöfn

25.1.2017

  • Utanríkisráðherra með Anders Samuelsen
    utanríkisráðherra með Anders Samuelsen

Samskipti Íslands og Danmerkur, öryggismál á norðanverðu Atlantshafi og Brexit voru meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, í Kaupmannahöfn í dag. Ennfremur ræddu ráðherrarnir norræna samvinnu og samstarf á norðurslóðum og innan Eystrasaltsráðsins, en Ísland gegnir formennsku í ráðinu nú um stundir. Þá þakkaði Guðlaugur Þór  fyrir veitta aðstoð danskra yfirvalda í máli Birnu Brjánsdóttur.

"Tengsl Íslands og Danmerkur eiga sér langa sögu og eru sífellt í þróun. Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta innan Atlantshafsbandalagsins og á norðanverðu Atlantshafi, meðal annars á sviði leitar og björgunar, og norðurslóðamálin eru báðum þjóðum hugleikin. Við vorum jafnframt sammála um mikilvægi norrænnar samvinnu og norrænna gilda á ákveðnum óvissutímum í Evrópu og vestanhafs," segir Guðlaugur Þór. 

Utanríkisráðherra tók ennfremur þátt í hringborðsumræðum um þjóðernishyggju og alþjóðavæðingu, sem var liður í dagskrá opinberrar heimsóknar forseta Íslands í Danmörku sem nú stendur yfir. 

Merki markmiðs númer 17 um alþjóðlega samvinnuEfni þessarar fréttar tengist Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Til baka Senda grein