Hoppa yfir valmynd
16. október 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 077, 16.10.2000. Viðskiptaþróun, samstarfssamkomulag utanríkisráðuneytisins, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og ÞSSÍ

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 077

Í dag var undirritað samkomulag utanríkisráðuneytisins, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um samstarfsvettvang til eflingar íslenskri markaðssókn í þróunar- og nýþróuðum ríkjum. Vettvangurinn hefur verið nefndur Viðskiptaþróun.

Markmiðið með verkefninu er að efla stafsemi og markaðssókn íslenskra fyrirtækja og fjárfesta í þróunarríkjunum. Verður þar einkum horft til þeirra ríkja Afríku sem Ísland veitir þróunaraðstoð en einnig ríkja í Austur-Evrópu og suðaustur Asíu.

Hlutverk Viðskiptaþróunar verður að marka stefnu um markaðssókn og fjárfestingar, vera fyrirtækjum og fjárfestum til aðstoðar, greina ný viðskiptatækifæri og fjárfestingarmöguleika og aðstoða íslensk fyrirtæki við að taka að sér verkefni hjá alþjóðastofnunum svo nokkuð sé nefnt.

VUR er formlegur umsjónaraðili með einkageirasamstarfinu en ráðinn verður sérstakur starfsmaður til að sinna verkefninu. Hann mun jafnframt sinna hlutverki tengiliðar við Alþjóðabankann í því verkefni bankans sem gengur undir heitinu "The Private Sector Liaison Officers Network" sem verður nánar kynnt íslenskum fyrirtækjum.

Í upphafi er gert ráð fyrir að verkefni þetta vari í þrjú ár en að þeim tíma liðnum verði árangur metinn og jafnframt tekin ákvörðun um framhald. Sérstök stjórnarnefnd, sem í eiga sæti fulltrúar samkomulags þessa, mun nánar marka stefnu vettvangsins, ákveða um einstök verkefni innan hans og fylgjast með framkvæmd þeirra. Að auki verða skipaðar sérstakar verkefnisstjórnir einstakra verkefna og munu fulltrúar viðkomandi fyrirtækja og fjárfesta eiga þar sæti, auk fulltrúa samningsstjórnar. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður af verkefninu verði 9 milljónir króna á ári og skiptist hann jafnt milli samningsaðila.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 16. október 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum