Viðræður ríkja um veiðitakmarkanir og rannsóknasamstarf í Norður-Íshafi

15.3.2017

  • Guðlaugur Þór ávarpar fundinn í Þjóðmenningarhúsi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hélt í morgun opnunarávarp á fundi níu ríkja og fulltrúa Evrópusambandsins um veiðitakmarkanir og rannsóknasamstarf í Norður-Íshafi í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Þetta er fimmta lota samningaferilsins, en hún stendur yfir dagana 15.-18. mars.

„Það sem gerir þessar samningaviðræður sérstakar er að hér er unnið að því að koma á alþjóðlegu regluverki og samstarfi þjóða til að koma í veg fyrir rányrkju fiskistofna í framtíðinni, að byrgja brunninn áður en í óefni er komið. Það verður áhugavert að sjá hve langt við náum í þessari lotu viðræðnanna“, sagði Guðlaugur Þór.

Í júlí 2015 undirrituðu fimm ríki með fiskveiðihagsmuni í Norður-Íshafi undir yfirlýsingu um samstarf um rannsóknir á hafsvæðinu utan lögsagna ríkja í Norður-Íshafi og heimila ekki fiskiflotum sinna landa að stunda fiskveiðar á svæðinu nema að þeim væri stjórnað af þar til bærri alþjóðlegri stofnun. Aðilar að yfirlýsingunni voru Bandaríkin, Danmörk (fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Noregur, Kanada og Rússland. Engar veiðar í atvinnuskyni eru stundaðar á þessu hafsvæði í dag, en samfara minnkun ísbreiðunnar á Norðurskautinu hafa, og munu í enn ríkari mæli, opnast stór hafsvæði sem kunna að fela í sér möguleika til fiskveiða.

Í desember 2015 hófust viðræður þessara fimm ríkja auk Íslands, Japan, Kína, Suður-Kóreu og fulltrúum Evrópusambandsins. Efnt var til framhaldsviðræðna ríkjanna níu og Evrópusambandsins í apríl, júlí og nóvember 2016. Ríkin hafa lýst yfir áhuga á að takmarka allar veiðar á þessu svæði þar til nægileg vísindaleg vitneskja liggur fyrir til að tryggja sjálfbærar veiðar og þar til svæðisstjórnunarfyrirkomulagi hefur verið komið á fót. Unnið er að því að styrkja vísindalegt samstarf og er stefnt að samhæfingu rannsókna og samnýtingu upplýsinga.

Jóhann Sigurjónsson, utanríkisráðuneytinu, leiðir þessar viðræður fyrir Íslands hönd í samstarfi við fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

Merki markmiðs númer 14, líf í vatniEfni þessarar fréttar tengist Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Til baka Senda grein