Hoppa yfir valmynd
19. júní 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 043, 19.júní 2000Ráðherrafundur EFTA í Zürich

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 043


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, undirritaði í dag ásamt starfsbræðrum sínum fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Makedóníu á ráðherrafundi EFTA. Samningurinn sem er sá 16. í röð fríverslunarsamninga EFTA-ríkja við þriðju ríki felur í sér fríverslun með iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarafurðir. Á ráðherrafundinum sem haldinn var í Zürich var m.a. rætt um innri málefni EFTA, endurskoðun EFTA-samningsins, framkvæmd EES-samningsins og samskipti EFTA við Evrópusambandið svo og samskipti EFTA við þriðju ríki.
Ráðherrarnir fögnuðu því að fríverslunarviðræður við Kanada væru langt komnar, en þær hafa verið forgangsverkefni fríverslunarsamtakanna undanfarna mánuði, og að samningurinn yrði áritaður á næstunni. Jafnframt var því fagnað að fríverslunarviðræður hæfust senn við bæði Mexíkó og Chíle en könnunarviðræður við þessi ríki hafa nú þegar farið fram.
Samstarfsyfirlýsingar við Króatíu og Úkraínu voru einnig undirritaðar, en þær eru oft undanfari fríverslunarsamninga sem eru nú níu talsins. Ráðherrarnir fögnuðu jafnframt gerð samstarfsyfirlýsingar EFTA-ríkjanna og Flóaráðsins (Gulf Cooperation Council), sem undirrituð var í Brussel í síðasta mánuði.
Ráðherrarnir væntu þess ennfremur að unnt yrði að ljúka gerð fríverslunarsamninga við Jórdaníu sem fyrst og Egyptaland og Túnis í kjölfarið. Einnig ákváðu ráðherrarnir að halda áfram könnun á gerð fríverslunarsamnings við Suður-Afríku. Ráðherrarnir ræddu ennfremur um að kanna grundvöll fyrir viðræðum um fríverslunartengsl við Singapúr, Suður-Kóreu og Japan.
EFTA ráðherrarnir áttu einnig sama dag fund með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafanefnd EFTA, þar sem m.a. var skipst á skoðunum um EES-samninginn, samskipti EFTA við ríki utan Evrópusambandsins, endurskoðun EFTA samningsins og tvíhliða samninga Sviss við Evrópusambandið.
Ísland tekur við formennsku í EFTA á síðari árshelmingi þessa árs, þ.e. frá og með 1. júlí næstkomandi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 19. júní 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum