Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2001 Utanríkisráðuneytið

Nr. 074, 23. ágúst 2001 Tíu ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Eystrasaltsríkjanna

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 074


Um þessar mundir eru tíu ár liðin frá því Ísland varð fyrst ríkja til þess að taka upp formlegt stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin Eistland, Lettland og Litháen eftir að þau endurheimtu frelsi sitt og sjálfstæði. Af þessu tilefni hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að bjóða utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja til afmælisdagskrár á Íslandi næstkomandi laugardag 25. ágúst. Einnig tekur þátt í dagskránni fyrrverandi utanríkisráðherra Litháens, Algirdas Saudargas.

Afmælisdagskráin hefst með samráðsfundi utanríkisráðherra Íslands og Eystrasaltsríkjanna. Í kjölfarið verður athöfn í Höfða sem hefst með ávörpum Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, Toomas Hendrik Ilves, utanríkisráðherra Eistlands, Indulis Berzins, utanríkisráðherra Lettlands og Antanas Valionis, utanríkisráðherra Litháen. Þar verður jafnframt undirritað skjal til að minnast atburðanna fyrir tíu árum.

Eftir athöfnina í Höfða bjóða utanríkisráðherrahjónin til hádegisverðar á Þingvöllum.

Síðdegis verða utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna viðstaddir opnun ARS BALTICA, sýningar á myndlist frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen í Gerðarsafni í Kópavogi og um leið málþing helgað ferðaþjónustu í Eystrasaltsríkjunum. Að lokum sitja utanríkisráðherrarnir kvöldverð í boði forsætisráðherrahjóna í Þjóðmenningarhúsinu.

Utanríkisráðuneytið boðar til blaðamannafundar í kjölfar samráðsfundar utanríkisráðherra Íslands og Eystrasaltsríkjanna næstkomandi laugardag 25. ágúst og hefst hann kl. 09:40 í fundarsal á 2. hæð utanríkisráðuneytisins.

Fulltrúum fjölmiðla gefst jafnframt tækifæri til myndatöku við afmælisdagskrá í Höfða er hefst kl. 10:20, í heimsókn til Þingvalla í hádeginu og við opnun myndlistarsýningarinnar í Gerðarsafni í Kópavogi kl. 16:00.

Afmælisdagskráin er hjálögð til fróðleiks.








Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 23. ágúst 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum