Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2016 Utanríkisráðuneytið

Ísland tekur við formennsku í Eystrasaltsráðinu

Merki formennsku Eystrasaltsráðsins. - mynd

Ísland tekur í dag við formennsku í Eystrasaltsráðinu og gegnir henni til eins árs. Er það í annað sinn sem Ísland gegnir formennsku í ráðinu.

Í Eystrasaltsráðinu fer fram efnislegt og faglegt samstarf aðildarríkja um fjölbreytt málefni á borð við mansal, barnavernd, almannavarnir og sjálfbæra þróun, auk þess sem ráðið er vettvangur fyrir stjórnmálalegt samstarf. Í formennskunni mun Ísland leggja sérstaka áherslu á jafnrétti, lýðræði og börn til samræmis við þau störf sem Ísland hefur sinnt innan ráðsins og almennar áherslur í utanríkismálum.

Áhersla á jafnrétti, lýðræði og börn rímar einnig vel við langtímamarkmið Eystrasaltsráðsins um öryggi, sjálfbærni og samheldni svæðisins. Ísland hefur um árabil verið leiðandi í starfi ráðsins á sviði barnaverndar og meðal annars hefur Barnahúsum að íslenskri fyrirmynd víða verið komið á fót í aðilarlöndunum. Þá hefur Ísland talað fyrir jafnréttisáherslum í öllum málaflokkum sem eru til umfjöllunar í ráðinu. Einnig er Eystrasaltsráðið stofnað á lýðræðislegum grundvelli og mikilvægt að halda lýðræðislegum gildum á lofti á vettvangi þess.

Á formennskuári Íslands verður minnst þess að aldarfjórðungur er frá því að Eystrasaltsríkin þrjú fengu sjálfstæði og á vormánuðum fagnar Eystrasaltsráðið sama áfanga. Utanríkisráðuneytið leiðir formennskuna en nýtur fulltingis innanríkisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Barnaverndarstofu í nefndarstörfum, auk þess sem önnur ráðuneyti og stofnanir koma að vinnunni eftir því sem við á.

Eystrasaltsráðið var stofnað árið 1992 og eru aðildarríki þess Danmörk, Eistland, Finnland, Lettland, Litháen, Noregur, Pólland, Rússland, Svíþjóð, Þýskaland og Ísland auk Evrópusambandsins.

Frekari upplýsingar um Eystrasaltsráðið og formennsku Íslands

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum