Hoppa yfir valmynd
27. júní 2016 Utanríkisráðuneytið

Náið samráð EFTA-ríkja vegna ákvörðunar Breta

Ráðherrafundur EFTA í Bern. - mynd

EFTA-ríkin munu eiga með sér náið samráð til að viðhalda nánum efnahags- og viðskiptatengslum við Bretland, samkvæmt ákvörðun ráðherrafundar EFTA sem haldinn er í Bern í Sviss. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, situr fundinn fyrir hönd Íslands.

Á fundinum var í dag rætt um þá stöðu sem upp er komin í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, þar sem meirihluti kjósenda var fylgjandi úrsögn úr Evrópusambandinu.

EFTA-ríkin munu leita lausna samhliða viðræðum Breta við Evrópusambandið, eftir því sem frekast er unnt, til að koma í veg fyrir lagalegt tómarúm þegar útgöngusamningur Breta við ESB tekur gildi. Að svo stöddu telja þau hins vegar ótímabært að staðhæfa hvaða leiðir skili EFTA-ríkjunum bestum árangri.

Á fundinum ræddi Lilja um mikilvægi góðs viðskiptasambands Íslands við Bretland og fagnaði áhuga EFTA-ríkjanna á að ráðfæra sig við hvert annað til að tryggja sem bestan árangur.

ÍSLAND Í FORYSTU EFTA OG EES

Ísland tekur við forystu í EFTA þann 1. júlí. Samband aðildarríkjanna við Bretland verður efst á baugi í formennskutíð Íslands, en að auki bíður það samtakanna að halda áfram og ljúka fríverslunarviðræðum sem eru í gangi við lönd utan EFTA. Þá lýsti utanríkisráðherra því yfir, að setning jafnréttisstefnu fyrir EFTA verði meðal forgangsverkefna í formennskutíð Íslands og er undirbúningur þess þegar hafinn. Rætt var um þá fyrirætlan Íslands á fundinum í dag og ákveðið að hefja undirbúning að gerð slíkrar stefnu. 

Samhliða forystu í EFTA gegnir Ísland forystu í EES frá 1. júlí, sem skapar góð tækifæri til samræmingar í áherslum.

Ráðherrafundinum lýkur í kvöld.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum