Hoppa yfir valmynd
3. maí 2016 Utanríkisráðuneytið

Öryggismál og samskiptin við Bandaríkin í forgrunni á fundi norrænna utanríkisráðherra

Utanríkisráðherrarnir fimm. - mynd

Samskipti Norðurlandanna og Bandaríkjanna, öryggismál í Evrópu, flóttamannamál og málefni norðurslóða voru meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem lauk nú fyrir stundu í Borgå í Finnlandi. Undirbúningur fyrir leiðtogafund Bandaríkjanna og Norðurlandanna, sem haldinn verður í Washington þann 13. maí nk., var til umfjöllunar á fundinum, auk þess sem framferði Rússlands í Evrópu, þ.m.t. á Eystrasaltssvæðinu, var ráðherrunum ofarlega í huga. Flóttamannamálin voru sömuleiðis á dagskrá og lagði Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, áherslu á að Norðurlöndin sameinuðust um að berjast gegn mansali og þrælkun sem þeim tengjast.

Utanríkisráðherra leiddi einnig umræðu um málefni norðurslóða og lagði áherslu á mikilvægi Norðurskautsráðsins, sem vettvangs umræðu og ákvörðunartöku í málefnum norðurslóða. Hún minnti á það mikilvæga starf sem áunnist hefur í ráðinu sem fagnar 20 ára starfsafmæli sínu í ár. „Ég nefndi einnig mikilvægi þess að ræða loftslagsmálin og norðurslóðir við Bandaríkin þegar við höldum þangað til funda, sem og jafnréttismál, menntamál og heilbrigðismál, en það er ljóst að Obama-stjórnin horfir mjög til Norðurlandanna í þessum málaflokkum," segir Lilja sem jafnframt greindi samstarfsráðherrum sínum frá stöðu stjórnmála og efnahagsmála á Íslandi.

Þá skrifuðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna í sameiningu blaðagrein um öryggismál í Evrópu sem birtist í Morgunblaðinu í dag

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum