Hoppa yfir valmynd
2. desember 2015 Utanríkisráðuneytið

Stjórnvöld standa vörð um sóttvarnir við innflutning á hráu kjöti

Merki EFTA dómstólsins.
Merki EFTA dómstólsins.

 

Í dag fór fram fyrir EFTA-dómstólnum í Lúxemborg málflutningur í máli sem snertir heimildir stjórnvalda til að setja tiltekin skilyrði fyrir innflutningi á hráu kjöti í sóttvarnarskyni, umfram það sem leiðir af reglum um dýraheilbrigði og matvælaeftirlit á Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Meðal þess sem á reynir í málinu er hvort krafa um að allt hrátt kjöt hafi verið fryst í 30 daga áður en það er tollafgreitt, sé samrýmanleg þessum reglum.

 

Málið er til komið af beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur um ráðgefandi áliti í skaðabótamáli sem fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. hefur höfðað gegn ríkinu vegna förgunar á hráu ófrystu kjöti sem fyrirtækið flutti inn án þess að hafa til þess tilskilin leyfi.

 

Af hálfu stjórnvalda var bent á að sameiginleg landbúnaðarstefna ESB hafi aldrei verið hluti af EES-samningnum og ekki fyrir hendi neinn innri markaður með landbúnaðarvörur á EES. Með því að landbúnaðarkerfið falli utan gildissviðs EES geti Ísland innleitt allar þær öryggisráðstafanir sem það telur nauðsynlegar til verndar búfénaði og lýðheilsu, þ. á m. farið fram á 30 daga frystiskyldu á innfluttu kjöti. Í því felist ekki vantraust á dýraheilbrigðiseftirliti annars staðar á EES. Með því móti sé eingöngu brugðist við sérstökum aðstæðum á Íslandi og skapað svigrúm til að koma í veg fyrir óbætanlegt tjón á viðkvæmum íslenskum dýrastofnum án kerfisbundinnar skoðunar á öllu innfluttu kjöti. Að því marki sem það snertir EES-samninginn þjóni frystiskyldan því fyllilega réttlætanlegum markmiðum.

 

Jóhannes Karl Sveinsson hrl. flutti málið fyrir hönd ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum