Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2015 Utanríkisráðuneytið

Loftslagmál, viðskipti og dvalarleyfi rædd á fundum í Singapúr

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, tekur þátt í opinberri heimsókn forseta Íslands til Singapúr sem lýkur á morgun, laugardag. 

Gunnar Bragi fundaði í dag með Vivian Balakrishnan utanríkisráðherra. Ræddu ráðherrarnir áskoranir vegna loftslagsbreytinga og undirbúning loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í næsta mánuði. Samvinna innan Norðurskautsráðsins var sömuleiðis rædd, en Singapúr er meðal ríkja sem hafa áheyrnaraðild að ráðinu. Þá báru efnahagsmál og svæðisbundin mál einnig á góma. Utanríkisráðherra tók jafnframt upp mál er snúa dvalarleyfum í Singapúr. 

Utanríkisráðherra fundaði einnig með viðskiptaráðherra Singapúr, Lim Hng Kiang. Ræddu ráðherrarnir viðskipti ríkjanna, framkvæmd gildandi fríverslunarsamnings, nýgerðan samning nokkurra Asíu og Kyrrahafsríkja (TPP) og möguleg áhrif hans á gang annarra svæðisbundinna viðræðna. Einnig komu orkumál til umræðu og sérþekking Íslands á sviði jarðvarma. Að lokum ræddu ráðherrarnir þróun heimsviðskiptanna og undirbúning ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem haldinn verður í desember nk. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum