Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

Ávarp ráðherra um norr. fjárlögin á þingi Norðurl.ráðs

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

Nr. 92


Halldór Ásgrímsson utanríkis- og samstarfsráðherra situr nú þing Norðurlandaráðs, sem haldið er í Helsinki 10.-13. nóvember.

Í ræðu þeirri sem hann hélt í almennum umræðum þingsins um norrænt samstarf almennt og norrænu fjárlögin fagnaði hann þeirri þróun sem átt hefði sér stað í norrænu samstarfi undanfarið og sem leitt hefði til þess að Evrópu- og önnur utanríkismál væru þar til umfjöllunar á mun markvissari hátt en áður og fléttast nú inn í öll svið samstarfsins.

Hann fagnaði nýlegri undirritun samnings um opnun norrænnar upplýsingaskrifstofu í Pétursborg en tók fram að sú aukning á norrænu samstarfi við Norðaustur-Rússland sem fylgja mun í kjölfar þessa mundi ekki leiða til niðurskurðar í samstarfinu við Eystrasaltsríkin, en norrænar upplýsingaskrifstofur eru starfræktar í höfuðborgum þeirra.

Hann varaði við því að meta norrænt samstarf við grannsvæðin og Evrópumál eftir þeim fjármunum sem til þess renni af norrænu fjárlögunum. Pólitísk hlið þessa samstarfs sé fullt eins mikilvæg eða mikilvægari. Hann kvað það skoðun sína að fjárveitingum norrænu ríkjanna til Norrænu ráðherranefndarinnar sem árið 1997 eru u.þ.b. 7,7 milljarðar ísl.kr., ætti áfram að verja aðalega til innra samstarfs norrænu ríkjanna, enda kæmu þær þannig að mestu gagni. Ráðherrann lýsti miklum efasemdum um tillögur Norðurlandaráðs um að kannaðar verði á næsta ári forsendur til þess að fella niður norrænar fjárveitingar til Norræna iðnþróunarsjóðsins og Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Hann kvaðst ekki sjá markmiðið með að fella niður fjárveitingar til norrænna stofnana sem hefðu sannað gildi sitt á þann hátt sem þessar stofnanir hefðu gert.

Ráðherra lýsti sérstakri ánægju með þá ákvörðun Norrænu ráðherranefndarinnar að styrkja byggingu þeirrar norrænu menningarmiðstöðvar sem American Scandinavian Foundation hyggst stofna og reka í New York. Hann upplýsti að af hálfu Íslands og Finnlands hefði þegar verið ákveðið að veita fjárstuðning til byggingarinnar en að ákvörðun um styrk hefði ekki verið tekin af hálfu hinna norrænu ríkjanna. Hann kvað mikilvægt í ljósi þeirrar aukningar sem ætti sér stað á samstarfinu grannsvæði Norðurlanda í austri að styrkja tengslin vestur um haf. American Scandinavian Foundation í New York hefði unnið ötullega að kynningu á norrænum málefnum og Norðurlöndum vestan hafs og norræna menningarmiðstöðin gæti orðið okkur afar mikilvæg á því sviði.

Hann lagði áherslu á mikilvægi vestnorræns samstarfs og kvaðst binda vonir við störf nýstofnaðrar Norðuratlantsnefndar (NORA).

Í lok ræðu sinnar þakkaði ráðherra Norðmönnum fyrir góð störf í formennskutíð þeirra í Norrænu ráðherranefndinni.





Reykjavík, 11. nóvember 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum