Hoppa yfir valmynd
20. maí 2015 Utanríkisráðuneytið

Útskrift úr Jafnréttisskóla Háskóla SÞ

image2

Í dag útskrifuðust tíu nemendur úr sex mánaða námi við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Í útskriftarhópnum eru fimm konur og fimm karlar sem koma frá Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu.

Er þetta í sjöunda sinn sem skólinn útskrifar nemendur úr sex mánaða þjálfun, og þriðja útskrift eftir að hann varð hluti af neti skóla HSÞ á Íslandi. Frá upphafi hafa samtals 53 sérfræðingar frá þróunarlöndum komið til Íslands og hlotið þjálfun á sviði jafnréttismála, en allir nemendur við skólann hafa komið frá áherslulöndum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.  

Við útskriftina flutti Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra og fyrrum fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, ávarp þar sem hún óskaði nemendum skólans til hamingju með áfangann. Hún þakkaði nemendum skólans fyrir gott samstarf við ráðuneytið hvað varðar ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, en nemendur skólans koma árlega í heimsókn í ráðuneytið og greina frá stöðu mála hvað varðar framkvæmd ályktunar 1325 í heimalöndum sínum. Í ávarpinu var jafnframt komið inn á mikilvægi ársins 2015  hvað viðvíkur jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna, en á árinu er þess minnst að 20 ár eru frá kvennaráðstefnunni í Peking, 15 ár frá því öryggisráðið samþykkti ályktun 1325 og mótun nýrra þróunarmarkmiða til næstu 30 ára stendur sem hæst.  

Á Íslandi starfa fjórir skólar undir hatti Háskóla SÞ: Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn og er starfsemi þeirra hluti af opinberri þróunarsamvinnu Íslendinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum