Hoppa yfir valmynd
4. júlí 1997 Utanríkisráðuneytið

Kolbeinseyjarmálið

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 64

Samkomulag hefur náðst um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Grænlands. Danmörk gerði árið 1975 fyrirvara við notkun Íslands á viðmiðunarpunktum við ákvörðun miðlínu á þessu hafsvæði og ítrekaði þann fyrirvara árin 1979 og 1988. Í samkomulaginu, sem tekur bæði til afmörkunar fiskveiðilögsögu og landgrunns, felst viðurkenning á fullum áhrifum Grímseyjar við afmörkunina, en umdeilda svæðið vegna Kolbeinseyjar skiptist milli Íslands og Grænlands í hlutföllunum 30:70. Niðurstaðan byggist á heildarmati á öllum þeim þáttum sem hafa áhrif á afmörkunina, svo sem grunnlínum, viðmiðunarpunktum, því að hve miklu leyti löndin eru háð fiskveiðum, lengd viðkomandi stranda og nauðsyn stöðugleika og varanleika. Óskin um að varðveita og efla hið góða samband milli grannþjóðanna Íslendinga og Grænlendinga stuðlaði ekki síst að lausn málsins.

Ágreiningur um afmörkun áðurnefnds hafsvæðis kom aftur upp á yfirborðið síðastliðið sumar þegar dönsk skip hófu loðnuveiðar á umdeilda svæðinu norður af Kolbeinsey. Í kjölfarið fóru fram óformlegar viðræður aðila og síðar formlegar samningaviðræður á grundvelli laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn sem gerir ráð fyrir að afmörkun efnahagslögsögu og landgrunns milli Íslands og annarra landa skuli eftir atvikum ákveðin með samningum við hlutaðeigandi ríki. Áhersla var lögð á það af hálfu beggja aðila að ná samkomulagi til að forða hugsanlegum árekstrum á umdeilda svæðinu á loðnuvertíðinni sem er nýhafin. Með framangreindu samkomulagi er bundinn endi á ágreining aðila í eitt skipti fyrir öll.

Í samkomulaginu felst að hin nýja markalína verður virt á yfirstandandi loðnuvertíð. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá formlegum samningi í haust. Tekið skal fram að íslensk skip hafa samkvæmt loðnusamningnum heimild til veiða á loðnu í grænlenskri lögsögu og samkomulagið hefur því engin áhrif á veiðimöguleika þeirra.

Danmörk gerði á sínum tíma einnig fyrirvara við notkun Íslands á Hvalbak sem viðmiðunarpunkti við afmörkun miðlínu á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja. Í samningaviðræðunum hefur jafnframt verið fjallað um afmörkun þessa umdeilda hafsvæðis en samkomulag enn ekki náðst. Aðstæður varðandi svæðin tvö eru á margan hátt ólíkar, en í samkomulaginu um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Grænlands er tekið fram að sú afmörkun hafi ekki fordæmisgildi að því er varðar afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja. Samningaviðræðum um afmörkun þess svæðis verður haldið áfram.






Samninganefnd Íslands er skipuð þeim Tómasi H. Heiðar, aðstoðarþjóðréttarfræðingi utanríkisráðuneytisins, sem er formaður nefndarinnar, Róbert Trausta Árnasyni, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, og Hilmari Helgasyni, forstöðumanni Sjómælinga Íslands. Tyge Lehmann úr danska utanríkisráðuneytinu leiðir samninganefnd Danmerkur, Grænlands og Færeyja, aðalfulltrúi Grænlands í nefndinni hefur verið Einar Lemche og aðalfulltrúi Færeyja Árni Ólafsson.

Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 4. júlí 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum