Hoppa yfir valmynd
29. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Fjallað um öryggismál og heilbrigðisvá á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna

Mynd: Sænska utanríkisráðuneytið
Blaðamannafundur norrænu utanríkisráðherranna.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, stýrði í dag fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í tengslum við þing Norðurlandaráðs sem haldið er í Stokkhólmi.
Ebólu-faraldurinn, staða mála í Úkraínu, alþjóðleg öryggismál í ljósi þróunar í Evrópu og Mið-Austurlöndum og hagnýtt samstarf utanríkisþjónusta ríkjanna voru efst á dagskrá ráðherranna. Þeir fjölluðu einnig um norræna samvinnu á sviði öryggis-  og varnarmála og málefni Sameinuðu þjóðanna.

Gunnar Bragi segir að dagskrá fundarins hafi endurspeglað að alþjóðasamfélagið standi frammi fyrir mörgum flóknum áskorunum sem varða grundvallarþætti í alþjóðasamstarfi, svo sem virðingu fyrir alþjóðalögum, viðbrögð við alþjóðlegri heilbrigðisvá, mikilvægi lýðræðisþróunar og viðbrögð við hryðjuverkaógn.
 
Utanríkisráðherra segir Norðurlöndin hafa þungar áhyggju af stöðu mála í Úkraínu og erfiðum samskiptum við rússnesk stjórnvöld. Hann segir Norðurlöndin leggja áherslu á að íbúar Úkraínu fái að ákveða framtíð sína með lýðræðislegum hætti og því hafi þingkosningarnar um síðustu helgi verið mikilvægt skref í því umbótaferli sem íbúar landsins kalli eftir.

Norðurlöndin eru öll meðal þeirra sextíu ríkja sem svarað hafa ákalli ríkisstjórnar Íraks um að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS. Ráðherrarnir ræddu þær áskoranir sem framundan eru í þeirri baráttu, ekki síst hina brýnu þörf á mannúðaraðstoð.Ráðherrarnir fjölluðu um það hvernig sporna megi við útbreiðslu ebólu og veita nauðsynlega neyðaraðstoð. Norðurlöndin leggja sitt af mörkum með tvíhliða aðstoð og framlögum til  alþjóðastofnana.

Sú dýpkun sem átt hefur sér stað í utanríkis- og öryggispólitískri samvinnu Norðurlandanna hefur vakið aukna athygli á þingi Norðurlandaráðs. Þar sem Ísland er í formennsku norrænnar samvinnu á þessu ári kom það í hlut utanríkisráðherra að flytja munnlega skýrslu utanríkisráðherra Norðurlandanna til þingsins um samstarf þeirra á árinu.

Í skýrslunni fjallaði ráðherra um þau mál sem hæst hafa borið á alþjóðavettvangi á árinu og sameiginleg forgangsmál Norðurlandanna. Fór hann yfir helstu áherslur þeirra varðandi deiluna í Úkraínu og í baráttunni gegn ISIS hryðjuverkasamtökunum. Þá var fjallað um grannsvæðasamstarf, þar með talið í Norðurskautsráðinu. Í skýrslunni er einnig lögð áhersla á mikilvægi samstarfs við önnur ríki, þ. á m. við Eystrasaltsríkin sem hefur öðlast nýja vídd í breyttu umhverfi öryggismála í Evrópu. Mikilvægi samstarfs Norðurlandanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var einnig umfjöllunarefni í ræðunni. 

Skýrslu utanríkisráðherra má lesa hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum