Hoppa yfir valmynd
2. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Útverðir Íslands funda í Reykjavík

Leifur Ebenezerson, Gunnar Bragi og Jörgen Hammer.

Yfir 130 ræðismenn Íslands frá  57 löndum sækja nú ræðismannaráðstefnu  sem utanríkisráðuneytið stendur fyrir í Hörpu. Tilgangur ráðstefnunnar er að auka og styrkja tengslin við þessa útverði Íslands erlendis og kynna þeim stöðuna í efnahagsmálum, atvinnulífi, ferðamennsku, listum og viðskiptatækifærum á Íslandi, svo eitthvað sé nefnt.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í opnunarávarpi það vera fagnaðarefni að bjóða ræðismennina velkomna til Íslands en þeir hefðu lagt á sig langt ferðalag á eigin kostnað til að kynnast betur landi og þjóð. „Við erum stolt af því að geta boðið þegnum okkar upp á fyrsta flokks þjónustu ræðismanna um allan heim og þið eruð lykillinn að henni. Fyrir það erum við ykkur afar þakklát,“ sagði hann.

Alls eru ræðismenn Íslands erlendis 243 og starfa í 89 löndum. Í flestum tilvikum eru ræðismennirnir erlendir ríkisborgarar. Þeir sinna ræðisstörfum í þágu Íslendinga án þess að þiggja fyrir það laun og leggja á sig ómælda vinnu til að rétta Íslendingum hjálparhönd ef þess er óskað en í hverri viku koma upp mál þar sem reynir á útsjónarsemi þeirra við að aðstoða fólk í vanda.

Segja má að ræðismennirnir séu hinn framlengdi armur Íslands erlendis. Tengsl þeirra í heimaríkjum sínum hafa reynst ákaflega vel fyrir íslenskan útflutning og viðskipti í gegnum tíðina og eru mýmörg dæmi um opnun markaðstækifæra fyrir tilstuðlan þeirra.

Ræðismennirnir komu ekki tómhentir til landsins því þeir færðu utanríkisráðuneytinu að gjöf fundarborð sem gert er úr timbri frá yfir 80 löndum, m.a. er bútur úr Bergenbryggju sem byggð var 1702, tré frá Himalaya-fjöllum og úr Amazon-regnskóginum. Bútarnir endurspegla hinn fjölbreytta bakgrunn ræðismannanna, segir ræðismaður Íslands á Borgundarhólmi, Jørgen Hammer, sem fékk hugmyndina að því að láta smíða borðið, en það gerði húsgagnaarkitektinn Leifur Ebenezerson.

Þetta er sjöunda ræðismannaráðstefnan sem haldin er, en sú síðasta var árið 2006.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum